Daginn sem veiðar innan „úlfasvæðisins“ í Noregi voru leyfðar í síðustu viku voru níu úlfar skotnir. Leyfi til veiðanna voru gefin út eftir að áfrýjunardómstóll í landinu hafði komist að þeirri niðurstöðu að veiðarnar væru löglegar. Dýraverndunarsamtök fóru fram á lögbann á veiðarnar í desember sem fallist var á í undirrétti. Þeirri niðurstöðu var svo snúið við á efra dómstigi. Veiðarnar eru hluti af stefnu stjórnvalda sem vilja halda stofninum í lágmarki.
Aðeins um áttatíu úlfar eru staðbundnir í Noregi og hefur búsvæðum þeirra verið sniðinn þröngur stakkur í suðausturhluta landsins við landamærin að Svíþjóð. Nokkur tugur dýra til viðbótar þvælast svo yfir landamærin fram og til baka en um 350 dýr eru almennt í Svíþjóð.
Innan „úlfasvæðisins“ í Noregi mega þeir vera og fjölga sér en ekki utan þess. Veiðar á úlfum eru umdeildar en réttlættar með því að halda þurfi „jafnvægi í stofninum“, líkt og Espen Barth Eide, loftslags- og umhverfisráðherra Noregs sagði er hann fagnaði niðurstöðu áfrýjunardómstólsins á dögunum. Með niðurstöðunni yrði tryggt að tvö markmið næðust: Að hafa búfénað á beit og úlfa í Noregi.
Í fyrstu stóð til að drepa 51 úlf, þar af hluta dýranna innan „úlfasvæðisins“. Nú hefur verið ákveðið að 26 dýr verði felld. Nokkur samtök um velferð dýra fóru fram á lögbannið þar sem þau telja veiðar innan verndarsvæðisins brjóta í bága við náttúruverndarlög Evrópusambandsins.
Karoline Andaur, framkvæmdastjóri verndarsamtakanna WWF í Noregi bendir á að úlfar séu í útrýmingarhættu í Noregi og séu mikilvægur hluti lífríkisins til að stuðla að og viðhalda líffræðilegum fjölbreytileika. Hlutverk þeirra í náttúrunni sé alltaf að koma betur og betur í ljós. „Núna á að skjóta þá, jafnvel þótt þeir séu á úlfasvæðinu – á svæði sem stjórnvöld hafa ákveðið að úlfar njóti sterkrar verndar.“
Fjölmörg dýraverndunarsamtök í Evrópu hafa krafist þess að Evrópusambandið grípi til aðgerða gegn drápi á úlfum í Skandinavíu og segja að þar sé þeim búið „fjandsamlegasta umhverfi úlfa í allri Vestur-Evrópu“ og virði lög sem eiga að vernda dýrin að vettugi.
Finnar hættu við
Finnsk stjórnvöld ákváðu í janúar að afturkalla leyfi sem gefin höfðu verið út til að fella þrjá hópa úlfa í landinu. Tóku þau ákvörðunina í ljósi löggjafar Evrópusambandsins. Svíar halda hins vegar áfram sínu striki og hafa þegar skotið kvótann, 27 úlfa, til bana í ár.
Norsk stjórnvöld hafa sett þau markmið að got í úlfahópum séu um 4-5 á ári. Umhverfisstofnun landsins, sem fylgist grannt með viðgangi stofnsins, hefur bent á að þar sem dýrin séu fá og innræktun því óhjákvæmileg ætti að miða við fimm got. Töluvert er um ólöglegar veiðar á úlfum bæði í Noregi og Svíþjóð.
Helstu rökin fyrir því að halda úlfum svo fáum í Noregi er hætta sem búfénaði stafar af þeim. Heimilt er að fella úlfa í því skyni að verja búfénað en slíkt dráp eru tilkynningarskyld.