Olaf Scholz, leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins sem hlaut flest atkvæði (25,7 prósent) í þingkosningunum í Þýskalandi í gær, segir líklegast að næsta ríkisstjórn verði auk flokks hans skipuð Græningjum og Frjálslyndum demókrötum. Kristilegir demókratar, flokkur Angelu Merkel, fengu 24,1 prósent atkvæða og hafa líkt og Jafnaðarmenn lýst því yfir að þeir vilji leiða komandi stjórnarmyndunarviðræður.
Formenn allra flokka sem náðu kjöri eru sagðir ætla að hittast í dag og kanna jarðveginn fyrir viðræðum. Þótt Jafnaðarmenn og Kristilegir demókratar, sem eiga báðir sæti í fráfarandi ríkisstjórn, hafi náð mestu fylgi í kosningunum vilja margir meina að sigurvegari þeirra sé flokkur Græningja sem jók fylgi sitt mest allra flokka eða í 15 prósent.
Á fyrsta blaðamannafundi Scholz eftir kosningarnar spurði breskur blaðamaður hann hvort hann hygðist senda vörubílstjóra til Bretlandseyja þar sem skortur á þeim hefur orðið til þess að teppa og setja stundum verulega úr skorðum afhendingu vara á borð við matvæli.
„Frjáls för vinnuafls er hluti af Evrópusambandinu og við lögðum mikið á okkur til að sannfæra Breta um að ganga ekki úr því,“ var svar Scholz. Hann benti svo á að mögulega mætti rekja skort á vörubílstjórum í Bretlandi til of lágra launa. Eftir þetta afgerandi svar bætti hann við að auðvitað væri mikilvægt að halda áfram góðum tengslum milli Þýskalands og Bretlands.
„Það er skýrt í okkar huga að við ættum að fá umboð til að búa til ríkisstjórn,“ sagði hann enn fremur á fundinum og bætti við að Græningjar og Frjálslyndir demókratar hafi aukið fylgi sitt „og þess vegna munum við reyna að mynda stjórn með þessum flokkum“. Sagðist hann vilja að slíkar viðræður hæfust sem fyrst.
Stjórn sem byggði á félagshyggju, umhverfisvernd og frjálshyggju ætti sér sögu og hefð í Þýskalandi. Slíka stjórn þurfi að mynda eigi að vera hægt að „takast á við áskoranir framtíðar“.
Scholz lofar að Þjóðverjar fái nýja ríkisstjórn fyrir jól. Fyrir svo stuttum stjórnarmyndunarviðræðum er ekki rík hefð í landinu. Árið 2017 tók það til dæmis hálft ár að mynda stjórn.
Annar tveggja formanna flokks Græningja, Robert Habeck, sagði eftir að úrslit kosninganna voru orðin ljós að honum virtist sem Jafnaðarmenn væru „framfara flokkur“ og að vel færi á því að hefja stjórnarmyndunarviðræður við þá. Til að ná meirihluta á þinginu þyrfti hins vegar þriðja flokkinn og nefndi hann líkt og Scholz Frjálslynda demókrata. Þessi mögulega samsteypu stjórn hefur verið kennd við umferðarljós enda grænn litur Græningja, rauður einkennislitur Jafnaðarmannaflokksins og gulur Frjálslyndra demókrata. Habeck ítrekaði svo helstu áherslumál flokksins. „Allar ríkisstjórnin verða að grípa til aðgerða til að sporna við loftslagsbreytingum.“ Þá leggja Græningjar einnig aðaláherslu á útrýmingu félagslegs misréttis í Þýskalandi.