Arnar Þór Ingólfsson, blaðamaður Kjarnans, og Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, hlutu Blaðamannaverðlaun Íslands (BÍ) í flokki rannsóknarblaðamennsku fyrir fréttaskýringaröð um óeðlilega hagsmunagæslu svokallaðrar Skæruliðadeildar Samherja. Verðlaunin voru afhent í félagsheimili blaðamanna í Síðumúla 23 í dag.
Í rökstuðningi dómnefndar segir að fréttaskýringar Kjarnans hafi sýnt „hvernig fulltrúar þessa stórfyrirtækis reyndu til að mynda að hafa áhrif á formannskjör í stéttarfélagi blaðamanna og kjör á lista Sjálfstæðisflokksins í heimakjördæmi fyrirtækisins. Fréttaskýringarnar gáfu greinagóða mynd af óvönduðum meðölum fjársterks fyrirtækis í hagsmunabaráttu þess.“
Þetta er í fjórða sinn sem blaðamenn Kjarnans hljóta verðlaunin en Kjarninn, sem var stofnaður 2013, hefur hlotið tilnefningu til Blaðamannaverðlaunanna á hverju ári sem hann hefur starfað.
Aðalsteinn Kjartansson hlaut Blaðamannaverðlaunin 2021
Blaðamannaverðlaunin eru veitt í fjórum flokkum. Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður á Stundinni, hlaut Blaðamannaverðlaun ársins. Hann fjallaði einnig um skæruliðadeild Samherja en var tilnefndur fyrir „vandaða og afhjúpandi umfjöllun um fjölda mála, svo sem greiningu á eignum og eignatengslum íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja sem dráttur var á hjá ráðuneyti málaflokksins, rannsókn lögregluyfirvalda á Samherja, og um svokallaða skæruliðadeild Samherja, auk aflandsleka í svonefndum Pandóruskjölum.“
Í rökstuðningi dómnefndar segir einnig að skrif Aðalsteins hafa haft áhrif á samfélagið og almenna samfélagsumræðu.
Umfjöllun Sunnu Karenar Sigurþórsdóttur, fréttamanns á Stöð 2, um tilefnislausar lífslokameðferðir af hálfu læknis á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fékk verðlaun fyrir umfjöllun ársins. Sunna Karen hóf umfjöllun um málið, fylgdi því eftir og varpaði ljósi á umfang þess. Málið er til rannsóknar hjá lögreglu, sem og hjá landlækni og í heilbrigðisráðuneytinu. Í kjölfar umfjöllunarinnar var ákveðið að læknirinn skyldi ekki lengur starfa í beinum tengslum við sjúklinga.
Ásdís Ásgeirsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, hlaut blaðamannaverðlaunin fyrir viðtal ársins við Óla Björn Pétursson. Í viðtalinu greinir hann frá grófu kynferðisofbeldi sem hann varð fyrir á unglingsaldri. Í umsögn dómefnar segir: „Frásögnin er sláandi en afar upplýsandi og sækir á lesandann sem fær raunsanna lýsingu á því hvernig unglingur er ginntur af barnaníðingi. Honum var haldið með hótunum og ofbeldi en tekst svo að losa sig og endurheimta líf sitt.“