Skipulagsstofnun hefur staðfest breytingu á aðalskipulagi Skaftárhrepps vegna áformaðrar virkjunar í Hverfisfljóti. Ragnar Jónsson, eigandi jarðarinnar Dalshöfða, fyrirhugar að reisa allt að 9,3 MW virkjun í fljótinu og er hugmyndin kennd við Hnútu.
Aðalskipulagsbreytingin sem og tillaga að deiliskipulagi vegna Hnútuvirkjunar var samþykkt af meirihluta sveitarstjórnar, öllum þremur fulltrúum Sjálfstæðisflokks, á fundi í lok janúar. Þeir segja markmið breytingarinnar vera að auka raforkuöryggi á svæðinu og framleiða rafmagn til sölu á almennan markað.
Fulltrúar Z-listans, Sólar í Skaftárhreppi, höfnuðu hins vegar afgreiðslunni og bentu á að í svörum í nafni hreppsins við athugasemdum sem bárust frá almenningi og stofnunum skorti efnisleg svör. Sama svarið er gefið við hverri athugasemd eins og sjá má í yfir 15 þúsund orða fundargerð skipulagsnefndar.
Fulltrúar minnihlutans bentu ennfremur á, líkt og ítrekað var einnig gert í flestum athugasemdum, að náttúruminjar á svæðinu njóti sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Þeim skuli ekki raskað nema að brýna nauðsyn beri til. „Engin rök hafa komið fram sem segja að það sé nauðsynlegt að fara í þessar virkjunarframkvæmdir,“ sögðu fulltrúar Z-listans á við afgreiðslu málsins.
Afhendingaröryggi rafmagns í héraðinu hafi verið bætt til muna undanfarin ár, m.a. með lagningu jarðstrengja sem leystu af hólmi stopular loftlínur. „Þá verður ekki fram hjá því horft að rafmagnsframleiðsla í Hnútuvirkjun verður aldrei annað en óstöðug; farvegur Hverfisfljóts verður vatnslítill yfir köldustu mánuði ársins sem þýðir að þá verður jafnvel að stöðva framleiðslu vegna vatnsskorts og á sumrin þegar aurburður er mikill er ráðgert að stöðva virkjunina í allt að tvo mánuði og hleypa honum í gegnum aurskolunarmannvirki sem verði staðsett í meginfarvegi fljótsins.“
Fulltrúar Z-listans lögðu svo ríka áherslu á að öll svör sem lögð voru fram í nafni sveitarstjórnar séu „einungis afstaða meirihluta hennar“.
Hugmyndir um virkjun Hverfisfljóts við Hnútu eru langt frá því nýjar af nálinni og í aðalskipulagi Skaftárhrepps var í fyrstu gert ráð fyrir 40 MW virkjun. Fyrstu hugmyndir framkvæmdaaðilans gerðu þó ráð fyrir 2,5 MW virkjun en í áætlun til mats á umhverfisáhrifum, sem fara þurfti í samkvæmt ákvörðun umhverfisráðherra í kjölfar kæru, var virkjunin orðin 15 MW. Skipulagsstofnun gaf út niðurstöðu sína um matsáætlunina árið 2008 en stuttu seinna var áformunum frestað allt þar til fyrir um fjórum árum og nú stendur til að hún verði 9,3 MW.
Virkjunarsvæðið er fyrirhugað í Eldhrauni sem rann í Skaftáreldum 1783-1784. Skaftáreldar voru eitt mesta eldgos Íslandssögunnar og þriðja mesta hraun sem runnið hefur á jörðinni frá ísaldarlokum. Um þetta atriði fjallaði Skipulagsstofnun sérstaklega í áliti sínu á matsskýrslu framkvæmdaaðilans sem gefið var út í fyrrasumar.
Álitið var í megindráttum neikvætt og var það niðurstaða stofnunarinnar að virkjun við Hnútu myndi hafa neikvæð áhrif á Skaftáreldahraun sem hefði mikið verndargildi bæði á lands- og heimsvísu. Hraunið væri jarðminjar sem nytu sérstakrar verndar í lögum. Þeim skuli ekki raska nema brýna nauðsyn beri til og að almannahagsmunir séu í húfi. „Skipulagsstofnun telur að ekki hafi verið sýnt fram á brýna nauðsyn fyrir röskun á Skaftáreldahrauni,“ sagði svo í álitinu og að í ljósi sérstöðu þess verði að gera kröfu um að sýnt verði fram á það með afdráttarlausari hætti í skipulagsgerð og áður en komi til leyfisveitinga.
Rennslið hið sama og verið hefur í árhundruð
Í endurteknum svörum sínum við tæplega tuttugu athugasemdum og umsögnum sem bárust vegna skipulagsbreytinganna kemur fram að meirihluti sveitarstjórnar telji að með nýju svæði fyrir athafna- og iðnaðarstarfsemi við Hnútu sé sett fram stefna sem stuðli að markvissri þróun fyrir íbúa til framtíðar og að það sé jákvætt „að styðja við orkuvinnslu á endurnýjanlegri orku í sveitarfélaginu sem geti stuðlað að fjölbreyttari atvinnuuppbyggingar og atvinnusköpun“. Einnig er það mat meirihlutans að fyrirhuguð orkuskipti sem stjórnvöld stefni að séu „óframkvæmanleg hvað þetta svæði varðar að óbreyttu“. Þá segir: „Umhverfisáhrif virkjunarinnar eru mjög lítil.“
Rennslisbreytingar þær sem fulltrúar Z-listans og fleiri vekja athygli á og telja verða til þess að orkuframleiðsla virkjunarinnar verði óstöðug verða að sögn meirihlutans með þeim hætti að rennsli „minnkar svolítið“ á virkjuðum kafla en að öðru leyti munu rennslissveiflur „vera með sama hætti og þær hafa verið síðustu árhundruð“.
Meirihlutinn segir vegalagningu sem fylgja framkvæmdinni falla vel inn í landslagið, myndi bæta aðgengi að svæðinu um ókomna framtíð og „gera fólki mögulegt að nálgast það fallega landslag sem þarna er að finna“. Í því liggi tækifæri fyrir ferðaþjónustuna. „Það má öllum ljóst vera að þessi virkjun mun skapa það öryggi í raforkumálum sem nauðsynlegt er fyrir svæðið og tryggja að eðlileg uppbygging geti átt sér stað.“
Heiða Guðný: Einstöku gljúfri raskað
Heiða Guðný Ástgeirsdóttir, fulltrúi Z-listans í sveitarstjórn Skaftárhrepps sem hefur verið ötull talsmaður náttúruverndar, og telur virkjunina sem dæmi um úrelta hugsun. Í athugasemd sinni við skipulagsbreytingar bendir hún á um sé að ræða miklu röskun á landi og að gljúfur Hverfisfljóts sé nánast einstakt í heiminum.
Þóra Ellen: Verulega neikvæð áhrif
Þóra Ellen Þórhallsdóttir, doktor í grasafræði og prófessor við Háskóla Íslands, tekur í sínum athugasemdum undir niðurstöðu Skipulagsstofnunar að „áhrif á ásýnd, landslag og víðerni verði verulega neikvæð, þrátt fyrir mótvægisaðgerðir“. „Sveitarstjórn Skaftárhrepps ætti að líta til þeirra miklu náttúruverðmæta sem landið býr yfir og taka tillit til þess: jarðfræðilega, sögulega, í landslagi og lítt snortin víðerni.“
Steinunn Sigurðardóttir: Stórfelld náttúruspjöll
Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur sem á sumarhús í nágrenni hins fyrirhugaða virkjanasvæðis telur ákvarðanir sveitarstjórnar gerræðislegar, illa ígrundaðar og að þær valdi óásættanlegum og óafturkræfum landspjöllum. Framkvæmdin sé þess utan ónauðsynleg og að skemmdarverk verði unnin á hraundalnum milli Þverárfjalls og Núpafjalls. Framkvæmdin yrði að sögn Steinunnar „stórfelld náttúruspjöll“ og vekja reiði og sorg. Framkvæmdin muni stórspilla svæðinu og rjúfa landslagsheild, þar á meðal heild Skaftáreldahrauns, og teljist náttúruníð.
Þá segir hún það skjóta skökku við að þriggja manna sveitarstjórnarmeirihluti geti tekið sér vald til að keyra í gegn gífurlegt landrask sem mun stórskaða ásýnd sveitar og lands um alla framtíð.
Eldvötn: Fordæma vinnubrögð meirihlutans
Eldvötn - samtök um náttúruvernd í Skaftárhreppi gera alvarlegar athugasemdir við að sveitarstjórn skuli stefna að því að leyfa virkjun í Hverfisfljóti þvert á niðurstöður Skipulagsstofnunar. Samtökin fordæma vinnubrögð harðlega og harma þá vanvirðingu sem meirihlutinn sýni með framferði sínu. Skorað er á sveitarstjórn að falla frá áformunum.
Skipulagsstofnun: Varanleg og óafturkræf áhrif
Skipulagsstofnun benti í umsögn sinni vegna skipulagsbreytinganna á fyrri umsögn sína sem stofnunin segir enn eiga við. Um sé að ræða skipulagsákvörðun vegna framkvæmdar sem muni hafa í för með sér varanleg og óafturkræf umhverfisáhrif.
„Skaftáreldahraun hefur umtalsverða sérstöðu og verndargildi þess er hátt bæði á lands- og heimsvísu enda er um að ræða annað af tveimur stærstu hraungosum sem runnið hafa á jörðinni,“ segir í umsögninni. „Því hefur það sérstakt jarðsögulegt gildi sem eykur á verndargildi þess umfram flest önnur hraun hér á landi en hraun eru jarðminjar sem njóta sérstakrar verndar sbr. 61. gr. laga um náttúruvernd og forðast ber að raska þeim nema brýna nauðsyn beri til.“
Framkvæmdin og mannvirki sem henni fylgja muni raska sérstæðri landslagsheild og breyta ásýnd óraskaðs svæðis verulega auk breytinga á rennsli árfarvegarins hluta ársins.
Náttúrufræðistofnun: Einstökum náttúruverðmætum raskað
Náttúrufræðistofnun Íslands sagði í sinni athugasemd að ef skipulagsáformin yrðu samþykkt og Hnútuvirkjun verði framkvæmd, þá muni „umtalsverðum einstökum náttúruverðmætum verða raskað, að stórum hluta til á óafturkræfan hátt“.
Umhverfisstofnun: Hver er hin brýna nauðsyn?
Umhverfisstofnun tekur í svipaðan streng í sínum athugasemdum og telur að í skipulaginu vanti umfjöllun um hver brýna nauðsynin sé og hvaða ríku almanna hagsmunir réttlæti röskun á svæðinu.
RARIK: Ellefu bilanir á fimm árum
RARIK skilaði einnig umsögn þar sem fram kemur að ætla megi að Hnútuvirkjun myndi tengjast á spennu sem er hærri en dreifispenna dreifikerfis RARIK á svæðinu. Virkjunin myndi því tengjast beint í tengivirkið á Prestsbakka. Verði virkjunin hæf til eyjarekstrar þ.e. getur framleitt án þess að tengjast öðru raforkukerfi, myndi hún fyrst og fremst koma að gagni þegar að afhending Landsnets á Prestsbakka er ekki til staðar.
Í umsögninni er svo bent á að á fimm ára tímabili á árunum 2016-2020 hefði komið ellefu sinnum til truflana á afhendingu raforku.“ Því má ætla að raforkuafhending inn á dreifikerfi RARIK og þar með til notenda myndi verða öruggari og hægt væri að leggja af varavél á Klaustri og þar með minnka olíunotkun í bilanatilfellum.“