Jafnvel þó Króatar hafi lokað sjö af átta merktum leiðum yfir landamærin milli Serbíu og Króatíu í gær halda flóttamenn áfram að koma til Króatíu eftir að leiðinni til Ungverjalands frá Serbíu var lokað með ungverskri girðingu á landamærunum. Straumur flóttafólks til Evrópu liggur nú um Króatíu en þar óttast fólk að leiðin lokist.
Króatísku lögreglunni hefur ekki tekist að hemja flauminn en beindi flóttafólkinu að lestarstöð í landamærabænum Tovarnik þar sem nokkur þúsund manns eyddu nóttinni undir berum himni, að sögn fréttaritara Reuters. Aðrir heldu áfram ferðalagi sínu og komust til Slóveníu í norðri áður en nóttin var úti.
Síðustu tvo daga hefur straumur flóttafólks legið til Króatíu eftir að Ungverjar lokuðu landamærum sínum að Serbíu og beittu óeirðalögreglu með táragas og vatnsbyssur gegn flóttafólkinu sem mótmælti harkalegri meðferð ungverskra stjórnvalda á aðkomufólkinu. Sky News segir að um það bil 13.300 manns hafi komið til Króatíu síðan á miðvikudag. Í morgun tilkynnti Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, hlustendum ríkisútvarpsstöðvar Ungverja að nú ætli stjórnvöld að reisa girðingar á landamærum Ungverjalands og Króatíu.
Nýja girðingin verður reist á 41 kílómetra kafla þar sem landamærin eru ekki mörkuð með náttúrulegum hindrunum eins og ám. Bæði Króatía og Ungverjaland eru aðildarríki að Evrópusambandinu (ESB), ólíkt Serbíu þaðan sem flóttafólkið reynir að komast inn fyrir landamæri ESB.
Flóttafólk hóf að koma til Króatíu í stórum hópum á miðvikudag og sagði þá forsætisráðherra Króatíu, Zoran Milanović, að landið væri reiðubúið til að hjálpa fólkinu að komast heilu og höldnu til Slóveníu og áfram til ríkari landa í norðri. Breska dagblaðið The Guardian greinir svo frá því að aðeins klukkustundum síðar hafi orðið ljóst að króatísk yfirvöld hafi vanmetið fjölda fólks sem hugðist fara um Króatíu og norður. Strax hafi það mistekist að útvega nógu mörg pláss í lestum á leið til Slóveníu.
Helstu landamæri og landamærastöðvar
Smelltu á línurnar og punktana til að lesa nánar.