Í gær var tilkynnt að skuldauppgjöri Björgólfs Thors Björgólfssonar væri lokið og að hann hefði greitt kröfuhöfum sínum, að mestu stórum alþjóðlegum bönkum, samtals um 1.200 milljarða króna. Magnús Halldórsson blaðamaður og Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, fjölluðu ítarlega um skuldauppgjör Björgólfs Thors í bók sinni Ísland ehf.-Auðmenn og áhrif eftir hrun, sem kom út í ágúst 2013. Kaflinn um skuldauppgjörið er birtur í heild sinni hér að neðan með nýjum millifyrirsögnum og örlitlum uppfærslum á niðurlagi hans.
Björgólfur Thor endurskipulagður
Árið 2007 var Björgólfur Thor Björgólfsson í 249. sæti yfir ríkustu menn veraldar á lista tímaritsins Forbes. Ári síðar, eftir hrun fjármálakerfisins, stóð hann frammi fyrir tveimur kostum. Annað hvort að verða persónulega gjaldþrota og láta það verkefni í hendur kröfuhafa sinna að vinna sem mest verðmæti úr eignum hans. Eða að vinna með þeim, leggja allar eignir sínar á borðið, bæði persónulegar eignir og eignir félaga í hans eigu, og reyna að ná samkomulagi sem kæmi í veg fyrir hans persónulega gjaldþrot. Eftir hrunið lá fyrir að Björgólfur Thor var í persónulegum ábyrgðum vegna skulda sem námu minnst 40 milljörðum króna.
Skömmu eftir hrun hófust viðræður milli Björgólfs Thors og trúnaðarmanna hans, og síðar fulltrúa lánardrottna sem áttu kröfu á Björgólf Thor og félög hans. Þar undir voru slitastjórnir föllnu bankanna, endurreistu bankarnir þrír og síðan erlendir bankar. Þýski bankinn Deutsche Bank átti mestra hagsmuna að gæta í upphæðum talið. Munaði þar mest um lán sem Novator, félag Björgólfs Thors, tók hjá bankanum þegar það tók yfir næstum allt hlutafé lyfjafyrirtækisins Actavis fyrir um 5,3 milljarða evra. Á þeim tíma var evran skráð á 85,6 krónur og heildarvirði yfirtökutilboðsins, sem langstærstur hluti hluthafa gekk að, var því ríflega 450 milljarðar króna. Af kaupverðinu var stærstur hluti þess tekinn að láni eða um 4,1 milljarður evra.
Vandamálin sem sneru að félögum sem Björgólfur átti og tengdist voru risavaxin eftir hrun fjármálakerfisins og krónunnar. Skuldirnar sem tengdust Björgólfi Thor og félögum hans námu samtals yfir 1.200 milljörðum króna. Á móti þeim voru síðan umtalsverðar eignir. Verðmætasta eignin var Actavis og í hana fór mesta púðrið í samningaviðræðum við kröfuhafa.
Vildu gera Björgólf Thor gjaldþrota
Björgólfur Guðmundsson, faðir Björgólfs Thors, lýsti sig formlega gjaldþrota 31. júlí 2009 en vinna við úrlausn á málum Björgólfs Thors var þá komin vel á veg. Gjaldþrot Björgólfs eldri var eitt stærsta persónulega gjaldþrot í Evrópu á þeim tíma sem það átti sér stað, en hann var í ábyrgð fyrir um 96 milljarða skuldum sem hann gat ekki staðið skil á eftir fjármálahrunið. Stærstu eignir hans voru bundnar í Landsbankanum og fjáfestingabankanum Straumi og nam markaðsvirði þeirra í byrjun árs 2008 um 143 milljörðum króna, samkvæmt bréfi hans til héraðsdóms er hann lýsti sig gjaldþrota. Hrein eign hans á þeim tíma nam um 100 milljörðum. Gjaldþrotið markaði endalokin á viðskiptasambandi þeirra feðga, enda Björgólfur eldri ekki í stöðu til að stunda viðskipti.
Áður en formlega hafði náðst sátt um að fara þá leið að hámarka virði eigna í samstarfi við Björgólf Thor og samstarfsmenn hans gekk ýmislegt á bak við tjöldin. Innan Arion banka voru þau sjónarmið uppi að ganga að ábyrgðum á lánum og gera Björgólf Thor þannig persónulega gjaldþrota. Var þar um að ræða lán sem tekið var í desember árið 2005 í tengslum við fjárfestingar fasteignafélagsins Samson Properties. Upphæðin nam við lántöku tæplega fjórum milljörðum króna og voru tryggingar teknar í hlutabréfum í Landsbankanum sem voru í eigu Samson og síðan var einnig sjálfskuldaábyrgð eigenda Samson, s.s. Björgólfsfeðga, fyrir hendi. Arion banki vildi ganga á Björgólf Thor og krefja hann um greiðslu vegna þessarar skuldar og ef Björgólfur Thor myndi ekki greiða voru forsvarsmenn Arion banka tilbúnir að ganga alla leið í þeim efnum og gera hann gjaldþrota. Björgólfur Thor og nánustu ráðgjafar hans og meðfjárfestar, fremstir í flokki þeir Andri Sveinsson og Birgir Már Ragnarsson, voru ósáttir við þetta. Þeir sögðu það ekki vera til þess fallið að hámarka endurheimtur að setja Björgólf Thor í persónulegt þrot vegna einstakra lána heldur væru mestar líkur á hámarksendurheimtum með því að semja um heildaruppgjör við alla kröfuhafa. Þannig væri einnig tryggt að kröfuhöfum væri ekki mismunað.
Leitað leiða til að sameina Actavis
Ekki var strax tekið vel í þessar hugmyndir á öllum vígstöðum. Helst voru þrotabú föllnu bankanna og endurreistu bankarnir mótfallnir þessum hugmyndum. Um tíma var heldur ekki ljóst að stærsti kröfuhafinn af öllum, Deutsche Bank, myndi sætta sig við annað en að taka yfir Actavis, þá eign þar sem hann átti mest undir, og reyna að vinna verðmæti úr henni sjálfur án aðkomu Björgólfs Thors og Novator.
Þegar í óefni var komið haustið 2008 höfðu verið undirritaðir samningar um endurskipulagningu Actavis og félagið í kjölfarið sett í formlegt söluferli sem fjárfestingabankinn Merril Lynch, sem seinna var rennt inn í Bank Of America, hafði á sinni hendi. Tvö tilboð komu í félagið í þessu ferli en þau voru bæði svo lág að ekki var talið skynsamlegt að halda áfram með ferlið. Auk þess voru aðstæður erfiðar á þessum tíma, bæði hvað varðaði fjármagn og einnig veltu almennt í hagkerfum. Neysla var að dragast saman og þrengingar að koma fram á meiri hraða en sést höfðu á mörkuðum í áratugi. Þetta kallaði á endurmat á stöðu Actavis og hver ættu að verða næstu skref með Deutsche Bank. Reksturinn var ekki í samræmi við væntingar og sjóðstreymi í félaginu dugði ekki til að greiða af þeim miklu skuldum sem hvíldu á félaginu, en þær mátti að mestu leyti rekja til yfirtökutilboðsins sumarið 2007, þegar íslenska efnahagsbólan var þanin til fulls.
Lagt var upp með að reyna að sameina félagið öðru stóru samheitalyfjafyrirtæki og styrkja með því rekstur og veðstöðu Deutsche Bank. Bankinn vildi sameina Actavis og Ratiopharma, en það fór út um þúfur þegar Teva keypti Ratiopharma í mars 2010 og setti málin aftur á byrjunarreit. Ríflega þremur mánuðum síðar var svo gengið frá undirrituðu samkomulagi milli Björgólfs Thors og Novators og allra lánardrottna og þeirra sem áttu kröfu á hann.
Tilkynnt um skuldauppgjör
Um þetta tilkynnti Björgólfur Thor með fréttatilkynningu 21. júlí 2010. Í henni sagði meðal annars: „Samkvæmt samkomulaginu [við kröfuhafa] munu skuldir verða gerðar upp að fullu og ekki gefnar eftir. Allar eignir Björgólfs Thors og Novators liggja til grundvallar uppgjörinu, en á þeim var gerð ítarleg úttekt og mat af hálfu alþjóðlegs ráðgjafarfyrirtækis. Björgólfur Thor verður áfram hluthafi í félögum á borð við Actavis, Play, CCP og Verne Holding. Arðurinn af þessum eignarhlutum og verðmæti, komi til sölu þeirra, mun ganga til uppgjörs skuldanna, ásamt ýmsum persónulegum eigum hans. Þar á meðal eru húseign í Reykjavík og sumarhús við Þingvelli. Samhliða þessu skuldauppgjöri hefur náðst samkomulag um fjárhagslega endurskipulagningu lyfjafyrirtækisins Actavis. Við gerð samkomulagsins nutu Björgólfur Thor og Novator liðsinnis tveggja alþjóðlegra fyrirtækja, hinnar virtu lögmannsstofu Linklaters og ráðgjafarfyrirtækisins AlixPartners, sem er eitt þekktasta fyrirtæki heims á sviði fjárhagslegrar endurskipulagningar“.
Eftir að samkomulagi hafði verið náð þar sem allir sem áttu hagsmuna að gæta komu að borðinu var vinnu haldið áfram. Í samkomulaginu fólst meðal annars að Deutsche Bank réði ferðinni þegar kom að Actavis en skuldbatt sig til að vinna úr stöðu mála með Björgólfi Thor og Novator. Með samkomulaginu varð formlega ljóst að Björgólfur Thor yrði ekki gerður persónulega gjaldþrota.
Deutsche Bank tilkynnir um yfirtöku á Actavis
Bankinn tilkynnti um yfirtöku á Actavis með bréfi til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins 18. ágúst 2010 en yfirtökur banka á stórum fyrirtækjum eru tilkynningaskyldar. Frá þessu var greint í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins (The Official Journal of The European Union). Alþjóðlegir bankar mega undir venjulegum kringumstæðum ekki eiga fyrirtæki í óskyldum rekstri, líkt og er lögbundið á Íslandi. Tilkynningin þjónar þeim tilgangi að veita eftirlitsaðilum upplýsingar um að banki sé kominn með yfirráð yfir fyrirtæki í samkeppnisrekstri.
Framkvæmdastjórn ESB og eftir atvikum aðrir eftirlitsaðilar geta síðan sett tímaramma um hversu lengi bankinn má eiga fyrirtækið, þannig að eignarhaldið raski ekki samkeppni. Talskona Björgólfs Thors, Ragnhildur Sverrisdóttir, sagði tilkynninguna tengjast fjárhagslegri endurskipulagningu Actavis en tjáði sig að öðru leyti ekki um hvort bankinn hefði í reynd tekið Actavis yfir. Reuters-fréttaveitan greindi hins vegar frá því að Deutsche Bank hefði sannarlega tekið fyrirtækið yfir og það gerðu einnig fleiri erlendir fjölmiðlar. Tilkynningin var enda afdráttarlaus.
Nokkrum mánuðum fyrr var orðið ljóst að bankinn réði í raun för hjá félaginu enda með mikla hagmuni gagnvart því. Starfsmenn bankans vildu vinna áfram með Björgólfi Thor og stjórnendateymi Actavis, með það fyrir augum að hámarka virði eigna og viðhalda traustum grunnrekstri. Stephen Pitts, sem starfar hjá Deutsche Bank í London, hélt flestum þráðum nærri sér í þessari vinnu og stýrði málum fyrir hönd bankans.
Skipt um forstjóra og stjórnendateymi
Hluti af endurskipulagningarferlinu var að skipta um forstjóra og færa stjórnendateymið allt á einn stað. Austurrískur doktor í lögfræði, Claudio Albrecht, tók við forstjórastarfinu af Sigurði Óla Ólafssyni, sem verið hafði forstjóri félagsins frá því haustið 2008 þegar Róbert Wessmann hætti sem forstjóri eftir tíu ára starf. Sigurður Óli starfaði sem stjórnandi hjá félaginu í sjö ár og lengst af þétt við hlið Róberts. Albrecht hafði víðtæka reynslu af rekstri lyfjafyrirtækja. Hann var forstjóri Ratiopharm um árabil og stofnaði sitt eigið ráðgjafafyrirtæki árið 2008, Cometh að nafni. Í aðdraganda þess að hann var ráðinn forstjóri hafði hann um nokkurra mánaða skeið veitt Actavis og lánardrottnum þess ráðgjöf um hvernig bæta mætti reksturinn.
Þó látið hafi verið í það skína að viðskilnaður Róberts við Actavis hafi verið á góðum nótum, meðal annars í fréttatilkynningu af því tilefni til fjölmiðla 6. ágúst 2008, var sú ekki raunin. Logandi illdeilur höfðu verið á milli Róberts og Björgólfs Thors skömmu áður en Róbert hætti. Ástæður þeirra voru margþættar, meðal annars vandamál í verksmiðjum Actavis í Bandaríkjunum sumarið 2008. Út á við hafa Björgólfur Thor og Róbert ekki litið málin sömu augum og hafa þeir meðal annars náð að deila um það hvort Róbert hafi verið rekinn eða hvort hann hafi hætt af sjálfsdáðum. Björgólfur Thor segir hann hafa verið rekinn en þessu neitar Róbert. Hann sagði meðal annars í viðtölum er hann lét af störfum að hann vildi fara að einbeita sér að fjárfestingum fjárfestingafélagsins síns, Salt Investments.
Róbert þurfti að greiða Björgólfi Thor
Eftir að hafa tekist á fyrir dómstólum eftir hrunið gerðu Róbert og félag Björgólfs Thors, Novator Pharma, með sér sátt í deilum þeirra. Var hún samþykkt af beggja hálfu snemma í nóvember 2012. Sáttin fólst í því að Róbert skrifaði undir skuldabréf upp á 5 milljónir evra, jafnvirði rúmlega 810 milljóna króna, sem hann þarf að greiða Björgólfi Thor og Actavis. Upphaf deilnanna má rekja til þess þegar þeir gerðu með sér samning í júlí 2007 þar sem kveðið var á um að Róbert, sem þá var forstjóri Actavis, myndi kaupa tólf prósent hlutafjár í Novator Pharma þegar ákveðnum ráðstöfunum á yfirtöku Actavis yrði lokið. Róbert átti að fá árangurstengdna þóknun ef allt gengi eftir sem stefnt var að. Eftir hrunið stóðu félög Björgólfs Thors svo illa að þau gátu ekki staðið við sitt gagnvart Róberti og enduðu deilur um þetta fyrir dómstólum. Róberti voru dæmdar 30 milljónir evra frá hinu eignalausa félagi Björgólfs, en Róbert var á móti dæmdur til að greiða félaginu Bee Tee Bee Limited 7,7 milljónir evra. Ábyrgðin að baki félaginu sem skuldaði Róberti var takmörkuð en Róbert var í persónulegri ábyrgð fyrir skuldunum við Bee Tee Bee. Á þessum grunni var samið og þarf Róbert að greiða Björgólfi samkvæmt skuldabréfinu sem er á gjalddaga 2015.
Yfirstjórn Actavis var flutt til Zug í Sviss á vormánuðum 2011 eftir að Deutsche Bank var komið með tögl og hagldir í félaginu. Það þýddi að lykilstjórnendur þess fluttust til Sviss og stýrðu félaginu þaðan. Félagið var áfram með íslenska kennitölu og umfangsmikla framleiðslu í Hafnarfirði.
Björgólfur verður ævintýralega ríkur...aftur
Áfram var unnið að sölu á Actavis og í apríl 2012 dró til tíðinda. Þá var tilkynnt um yfirtöku lyfjafyrirtækisins Watson á Actavis. Samtals voru greiddar um 700 milljarðar króna fyrir félagið en til viðbótar áttu að koma greiðslur sem tóku mið af því hvernig rekstur Actavis var árið 2012 samkvæmt uppgjöri. Hagur Björgólfs Thors og Novator vænkaðist við þetta en í þeirra hlut komu fimm milljónir hluta í hinu nýja félagi á grundvelli samnings við Deutsche Bank sem gerður var samhliða kaupum Watson. Eftir að tilkynnt var um kaup Watson á Actavis, og þar með sameiningu þessara félaga, hefur markaðsvirði þess hækkað hratt. Það er skráð á markað undir nafni Actavis og hækkaði gengi bréfa á hlut úr tæplega 60 dölum frá því tilkynnt var um kaupin í 127,2 dali þann 22. maí 2013, ríflega ári síðar. Þetta þýddi að hlutur Björgólfs í Actavis í gegnum Novator var á milli 70 og 80 milljarða króna virði á þeim tíma.
Um miðjan maí 2013 var síðan tilkynnt um enn meiri stækkun á efnahagsreikningi Actavis þegar greint var frá kaupum félagsins á írska lyfjaframleiðslufyrirtækinu Warner Chilcott. Samkvæmt fyrstu fréttum AFP-fréttaveitunnar var kaupverðið áætlað um 8,5 milljarða dala, sem jafngilti um 1.100 milljörðum króna, miðað við gengi krónu gagnvart Bandaríkjadal daginn sem tilkynnt var um viðskiptin.
Í dag er gengi bréfa í Actavis 206,3 dalir. Það þýðir að hlutur Björgólfs Thors er nú yfir 120 milljarða króna virði.
Allt var undir, líka einkaþotan og snekkjan
Allt eignasafn Björgólfs Thors og félaga sem hann tengdist var sett að veði fyrir því að honum tækist að greiða skuldir sínar til baka. Steingrá einkaþota hans af Challenger-gerð, sem merkt var Novator, var þar á meðal. Hún var oft í kastljósi fjölmiðla þegar allt var í blóma í íslensku viðskiptalífi. Fyrrverandi leiðtogi Sovétríkjanna, Mikhail Gorbatsjov, fékk meðal annars far með henni þegar hann kom hingað til lands 11. október 2006 til að halda fyrirlestur í Háskólabíói. Hún var að lokum seld. Það sama átti við um snekkjuna Element sem var bátur af dýrari gerðinni, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Upphaflega var gert ráð fyrir því að niðurstaðan úr uppgjöri Björgólfs Thors og Novator við kröfuhafa myndi ekki liggja fyrir fyrr en fjarskiptafyrirtækið Play í Póllandi yrði selt. Það er á meðal stærstu farsímafyrirtækja Póllands en viðskiptavinir þess voru á vormánuðum 2013 ríflega 9,1 milljón talsins. Í tilkynningu Björgólfs Thors frá því í gær segir um Play: „Á uppgjörstímanum hefur fjarskiptafyrirtækið Play í Póllandi vaxið hröðum skrefum og sá vöxtur á sinn þátt í að uppgjöri lauk á aðeins fjórum árum. Trú fjárfesta á fyrirtækinu var staðfest í febrúar sl. þegar eftirspurn eftir skuldabréfum fyrirtækisins fór fram úr björtustu vonum".
Hægt er að lesa fréttatilkynningu Björgólfs Thors um skuldauppgjörið hér.