Magnús Júlíusson, Sigurlína Ingvarsdóttir og Hjörleifur Pálsson koma ný inn í stjórn Festi en stjórnarkjör fór fram á hluthafafundi félagsins í dag. Það verður því töluverð breyting á samsetningu stjórnar en þau Guðjón Reynisson og Margrét Guðmundsdóttir halda sæti sínu í stjórn félagsins. Guðjón mun áfram sitja sem formaður stjórnarinnar, að því er fram kemur í tilkynningu frá Festi en Sigurlína verður varaformaður.
Margrét sem var sitjandi varaformaður félagsins fram að hluthafafundinum var með flest atkvæði á bak við sig, 18,2 prósent en við stjórnarkjörið var viðhöfð svokölluð margfeldiskosning. Slík kosning gefur hluthöfum talsvert frelsi til þess að ráðstafa atkvæðum sínum. Þannig geta hluthafar til dæmis lagt öll atkvæði sín á einn frambjóðenda eða skipt þeim niður í hverjum þeim hlutföllum sem þeir vilja á frambjóðendur.
Magnús Júlíusson er um þessar mundir aðstoðarmaður Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Ljóst er að hún mun þurfa að finna sér nýjan aðstoðarmann enda fer stjórnarseta í skráðu hlutafélagi ekki saman við störf aðstoðarmanns, hún samræmist ekki lögum um varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands. Magnús sagði í samtali við Kjarnann á dögunum að hann myndi hætta í starfi sínu sem aðstoðarmaður yrði hann kosinn í stjórn félagsins.
Lífeyrissjóðir komið sínu fólki að
Lífeyrissjóður Starfsmanna ríkisins (LSR) er stærsti hluthafinn í Festi, með 10,63 prósenta hlut, en LSR var meðal þeirra stóru fjárfesta sem fór fram á margfeldiskosningu á hluthafafundinum. LSR kom sínum manni að í stjórnarkjörinu, Sigurlínu Ingvarsdóttur, en samkvæmt frétt RÚV frá því í gær hugðist LSR styðja Sigurlínu í stjórn. Sigurlína hlaut 14,7 prósent atkvæða. Sigurlína er stjórnarformaður tölvuleikjafyrirtækjanna Mussila og Solid Clouds en hún situr einnig í nokkrum stjórnum, til að mynda hjá Eyri Vexti og Carbon Recycling.
Þriðji nýi stjórnarmaðurinn er Hjörleifur Pálsson. Hann naut stuðnings Lífeyrissjóðs verslunarmanna sem er þriðji stærsti hluthafinn í félaginu með 9,83 prósent hlut. Hjörleifur er fimmti maður inn í stjórn, hann hlaut 11,4 prósent atkvæða á fundinum. Hjörleifur er sá eini í stjórn félagsins sem var ekki tilnefndur af tilnefningarnefnd. Hann er stjórnarformaður Sýnar sem einnig er skráð á markað. Þar að auki gegnir Hjörleifur stjórnarstörfum, til dæmis hjá Brunni vaxtarsjóði.
Ólga í kjölfar uppsagnar forstjórans
Líkt og Kjarninn hefur fjallað um hefur gustað nokkuð um stjórn Festi á síðustu mánuðum. Í upphafi árs sagði þáverandi stjórnarformaður Festi, Þórður Már Jóhannesson, af sér. Það gerði hann í kjölfar ásakana Vítalíu Lazarevu um alvarleg kynferðisbrot. Ásakanir Vítalíu beindust að tveimur stórum einkafjárfestum í Festi, Þórði og Hreggviði Jónssyni, auk Ara Edwald, fyrrverandi forstjóra Mjólkursamsölunnar. Mennirnir þrír kærðu Vítalíu nýverið til lögreglu fyrir fjárkúgun.
Ástæða þess að boðað var til hluthafafundar er uppsögn forstjóra fyrirtækisins, Eggerts Þórs Kristóferssonar, en hann var rekinn fyrirvaralaust í byrjun júní. Líkt og venja er fór stjórnarkjör fram á aðalfundi fyrirtækisins en hann var haldinn þann 22. mars síðastliðinn. Það eru því ekki liðnir fjórir mánuðir síðan hluthafar kusu síðast um stjórn fyrirtækisins.
Eggert hafði verið forstjóri fyrirtækisins í um sjö ár og í kjölfar uppsagnarinnar sendi stjórn Festi frá sér tilkynningu til kauphallar þar sem sagt var að hann hefði sagt upp. Í kjölfar mikillar fjölmiðlaumfjöllunar sendi stjórnin frá sér aðra tilkynningu þar sem greint var nánar frá starfslokum forstjórans. Þar viðurkenndi stjórnin að hún hefði haft frumkvæði að því að óska eftir samtali við Eggert um starfslok og að „við þær aðstæður óskaði forstjóri eftir að fá að segja upp störfum í stað þess að honum yrði sagt upp, með hagsmuni sjálf síns og félagsins í huga. Var fallist á þá málaleitan.“
Mikill fjöldi sóttist eftir sæti í stjórninni
Tæpri viku eftir að stjórnin sendi frá sér seinni tilkynninguna boðaði hún til hluthafafundar þann 14. júlí þar sem stjórnarkjör myndi fara fram. Alls bárust 21 framboð í stjórn og fór tilnefningarnefnd í kjölfarið yfir framboði. Niðurstaða tilnefningarnefndarinnar var sú að ellefu framboð voru talin fremst í flokki. Í þeim hópi voru allir fimm stjórnarmenn fyrirtækisins sem kjörnir voru á aðalfundinum í mars, auk sex annarra. Fyrir þessa sex frambjóðendur var lagður sérstakur spurningalisti þar sem frambjóðendurnir voru meðal annars spurðir að því hvort þeir hefðu reynslu á sviði samfélagslegrar ábyrgðar og hvort þeir sem einstaklingar eða félög sem þeir væru í forsvari fyrir ættu í dómsmálum og/eða deilum við eftirlitsaðila sem gætu haft áhrif á orðspor og almenningsálit að þeirra mati?
Tilnefningarnefndin ræddi einnig við stóra hluthafa, bæði lífeyrissjóði og einkafjárfesta. Í skýrslu nefndarinnar segir að í viðræðunum hafi komið „skýrt fram að eindreginn vilji er meðal þeirra til frekari breytinga. Þó eru mismunandi og óljósari skoðanir á því hvernig stjórnin í heild eigi að vera skipuð.“
Að lokum voru óháðir nefndarmenn einhuga um að tilnefna níu til stjórnarkjörs. Frambjóðendurnir sem tilnefningarnefndin mælti með voru Ástvaldur Jóhannsson, Björgólfur Jóhannsson, Guðjón Reynisson, Magnús Júlíusson, Margrét Guðmundsdóttir, Sigrún Hjartardóttir, Sigurlína Ingvarsdóttir, Þórdís Jóna Sigurðardóttir og Þórey Guðmundsdóttir. Alls var kosið á milli þrettán framboða á fundinum. Auk þeirra sem tilnefnd voru af tilnefningarnefnd sóttust Helga Jóhanna Oddsdóttir, Herdís Pála Pálsdóttir, Hjörleifur Pálsson og Óskar Jósefsson eftir sæti í stjórn félagsins.
Félagið heldur nafninu
Eitt mál var á dagskrá fundarins auk stjórnarkjörsins, tillaga um nafnabreytingu félagsins. Pétur Þorsteinsson, prestur Óháða safnaðarins lagði fram tillögu um breytingu á samþykktum félagsins sem fól það í sér að nafn félagsins yrði Sundrung.
Í samtali við mbl.is sagði Pétur hafa lagt tillöguna fram til þess að vekja athygli á þeirri aðferð sem var beitt við uppsögn forstjórans. „En ég legg ekkert endilega til að þetta verði samþykkt,“ sagði Pétur um tillöguna sem var felld.