„Þetta svæði er einstakt. Þetta er gullmoli. Sparistofan,“ segir Fanney Ásgeirsdóttir, þjóðgarðsvörður í Vatnajökulsþjóðgarði, um viðbrögð sín við nýuppgötvuðum náttúruspjöllum vegna utanvegaaksturs í Vonarskarði. Spjöllin voru unnin síðari hluta ágúst og að minnsta kosti þrír bílar voru þar á ferð. Ekið var yfir gróðurvinjar svo djúp för urðu í mosa og öðrum viðkvæmum gróðri. Að auki hafa bílstjórarnir spólað í brekku svo hún „líkist helst sandgryfju,“ eins og Fanney lýsir því. Hún segist miður sín yfir athæfinu sem kært hefur verið til lögreglu. Ferðafólkið sem olli spjöllunum hlóð svo einnig 24 litlar vörður til að merkja leið sem það komst að lokum upp úr skarðinu.
Vonarskarð í Vatnajökulsþjóðgarði liggur milli Vatnajökuls og Tungnafellsjökuls. Frá árinu 2011 hefur það verið lokað fyrir bílaumferð „nema á frosinni og snæviþakinni jörð í samræmi við almenna skilmála um vetrarakstur“ og er því samkvæmt stjórnunar- og verndaráætlun garðsins vettvangur göngufólks. Lokunin hefur hins vegar verið umdeild og mikil umræða skapast um hana síðustu misseri.
Spurð hvort hún telji tengingu vera á milli umræðunnar og utanvegaakstursins nú segir Fanney ómögulegt að svara því. „Það sorglega við þetta er að þessar merkingar á leiðinni með vörðunum segja manni að einhverjir ætli sér ekki að virða lokanirnar.“
Um Vonarskarð lá áður bílslóði sem sést nú aðeins á fáum stöðum og ef vel er að gáð. Að hluta lá hann samhliða merktri gönguleið um svæðið og þar sem hann sést ekki hafa ökumenn bílanna einfaldlega ekið gönguleiðina. Hjólför þessu til staðfestingar eru greinileg.
„Það sem er svo verst er að undan Gjóskuklifinu lenda þeir í einhverjum vandræðum með að komast upp aftur, upp bratta brekku,“ segir Fanney um ummerkin. „Þá keyra þeir stóran hring neðanundir klifinu, yfir lækjarsytrur og um mjúka mela.“ Á þessum hring, sem er um kílómetra langur, hætti þeir að aka í förum hvers annars og greinilega sjáist því að í það minnsta þrír bílar hafi þarna verið á ferð. „Svo hafa þeir reynt að komast upp og lent í vandræðum og spólað í brekkunni. Það eru för út um allt – eins og í sandgryfju.“
Bílstjórarnir fundu sér að lokum leið upp og merktu þá leið með vörðunum.
Spurð um rökin fyrir lokunum í Vonarskarðinu bendir Fanney á að náttúrulegar hindranir beggja vegna loki því í raun. „Ofan í Vonarskarðinu eru svo algjörir gullmolar, meðal annars þessir mjúku melar sem þeir keyrðu í gegnum. Þarna eru svæði sem við viljum vernda. Með því að halda lokunum sitt hvorum megin, líkt og reynt hefur verið að gera frá árinu 2011, eru bílar ekki að villast ofan í skarðið inn á þessi viðkvæmu svæði með þessum afleiðingum.“
Vonarskarð sé staður þar sem fólk geti verið eitt með sjálfu sér. Það sé m.a. markmiðið með verndinni. „Þetta er svæði þar sem þú ert eins og Palli var einn í heiminum. Þetta er sparistofan.“
Í hennar huga undirstriki því spjöllin sem unnin voru í ágúst nauðsyn á lokun vegslóðanna.
Spurð hversu bjartsýn hún sé á að það takist að hafa uppi á sökudólgunum segist hún vona það besta. „Sem betur fer eru langflestir – langlangflestir – sem stunda jeppaferðamennsku á Íslandi náttúruelskandi fólk. Ég hef ekki trú á því að þetta athæfi verði vel séð í þeirra hópi.“
Með afskekktustu svæðum Íslands
„Vonarskarð og Tungnaáröræfi eru með afskekktustu og torfærustu svæðum Íslands og fáir sem leggja þangað leið sína,“ segir í upphafi umfjöllunar um Vonarskarð á vef Vatnajökulsþjóðgarðs.
Í Vonarskarði er háhitasvæði í um 950 – 1100 metra hæð yfir sjávarmáli með óvenjulega fjölbreyttum gróðri, litskrúðugu hverasvæði og sjaldgæfum háhitalífverum með hátt verndargildi. Þar finnst einnig ein hæsta mýri landsins í yfir 900 m hæð yfir sjó. „Landslag er óvenjulegt, stórbrotið og fjölbreytt; jöklar og há fjöll, sandsléttur og áraurar, jökulár, bergvatnsár og volgar lindir og litfagrir hverir. Í Vonarskarði eru vatnaskil Skjálfandafljóts og Köldukvíslar sem rennur í Tungnaá. Um sendinn öskjubotninn renna lækir að því er virðist hlið við hlið sem síðar eiga eftir að falla til sjávar ýmist á Suður- eða Norðurlandi. Einstök náttúra Vonarskarðs, víðerni og kyrrð lætur engan ósnortinn.“