Fjölmiðlafyrirtækið Torg tapaði 240 milljónum króna á síðasta ári, að því er fram kemur í frétt Fréttablaðsins í dag. Torg gefur út Fréttablaðið, sem og vefmiðlana dv.is, eyjan.is, pressan.is, 433.is, hringbraut.is og frettabladid.is. Fyrirtækið rekur enn fremur sjónvarpsstöðina Hringbraut. Árið áður var endanlegt tap Torgs 599 milljónir króna og því tapaði það samtals 839 milljónum króna á tveimur árum. Þá er búið að gera ráð fyrir 146 milljónum króna sem Torg fékk í rekstrarstyrk úr ríkissjóði á árunum 2020 og 2021.
Þegar endanlegu tapi ársins 2019 er bætt við nemur tapið á þriggja ára tímabili rúmum milljarði króna.
Í frétt Fréttablaðsins segir að taprekstur síðustu tveggja ára megi rekja til veiruvandans sem hafi komið illa við tekjuhlið rekstursins. Þar segir einnig að Torg skuldi engin önnur vaxtaberandi lán en bankalán til þriggja ára að fjárhæð 180 milljónir króna.Tapinu hafi verið mætt með nýju hlutafé upp á 900 milljónir króna sem komið hefur frá stærsta hluthafa Torgs, Helga Magnússyni.
Í ársreikningi fyrir árið 2020 má sjá að rekstrartap var mun hærra en endanlegt tap. Á árunum 2019 og 2020 var milljarðs króna tap af reglulegri starfsemi fyrirtækisins. Munurinn á rekstrartapi ársins 2020 og endanlegu tapi fólst aðallega í því að tekjuskattsinneign sem skapaðist vegna taps, alls upp á 150 milljónir króna, var tekjufærð. Þar sagði einnig að heildarskuldir félagsins í árslok 2020 hafi verið um 1,5 milljarðar króna.
Helgi Magnússon á nánast allt fyrirtækið
Torg er í eigu tveggja félaga, Hofgarða ehf. og HFB-77 ehf. Eigandi fyrrnefnda félagsins er fjárfestirinn Helgi Magnússon og hann á 82 prósent í því síðarnefnda. Helgi er auk þess stjórnarformaður Torgs. Aðrir eigendur þess eru Sigurður Arngrímsson, fyrrverandi aðaleigandi Hringbrautar og viðskiptafélagi Helga til margra ára, Jón G. Þórisson, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins, og Guðmundur Örn Jóhannsson, fyrrverandi sjónvarpsstjóri Hringbrautar og nú framkvæmdastjóri sölu, markaðsmála og dagskrárgerðar hjá Torgi. Hlutur annarra en Helga er hverfandi.
Hlutafé í Torgi var svo aukið um 600 milljónir króna í lok árs 2020 og aftur um 300 milljónir króna um síðustu áramót. Með nýju hlutafjáraukningunni er ljóst að settir hafa verið 1,5 milljarðar króna í kaup á Torgi og hlutafjáraukningar frá því að Helgi og samstarfsmenn hans komu að rekstrinum fyrir tæplega þremur árum síðan.
Fór undir 30 prósent lestur í fyrsta sinn í byrjun árs
Flaggskipið í útgáfu Torgs er Fréttablaðið. Útgáfudögum þess var fækkað úr sex í fimm á viku á árinu 2020 þegar hætt var með mánudagsútgáfu blaðsins. Auk þess hefur dreifing fríblaðsins dregist saman úr 80 í 75 þúsund eintök á dag.
Lestur Fréttablaðsins mældist 30 prósent í febrúar 2022. Hann hefur dalað jafnt og þétt undanfarin ár en í apríl 2007 var hann 65,2 prósent og hélst yfir 50 prósent þangað til í desember 2015. Síðsumars 2018 fór lesturinn svo undir 40 prósent í fyrsta sinn og í janúar 2022 fór hann í fyrsta sinn undir 30 prósent. Frá byrjun árs 2018 hefur lestur Fréttablaðsins aukist á milli mánaða í sjö skipti en dalað 41 sinnum.
Í aldurshópnum 18 til 49 ára mælist lesturinn nú 21,2 prósent og er nú um þriðjungur þess sem hann var fyrir tólf árum.
Renndu tveimur fjölmiðlafyrirtækjum í miklum taprekstri inn í Torg
Í frétt Fréttablaðsins um rekstrarafkomu Torgs í dag segir að á árunum 2020 og 2021 hafi verið unnið að sameiningu þriggja fyrirtækja: Torgs, DV og sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar. Vinnu vegna sameiningarinnar sé nú að fullu lokið.
Búið var að sökkva umtalsverðum fjármunum í bæði DV og Hringbraut áður en þeim var rennt saman við Torg.
Torg gekk frá kaupum á DV og tengdum miðlum frá Frjálsri fjölmiðlun, félags sem skráð er í eigu Sigurðar G. Guðjónssonar en var alla tíð fjármagnað með vaxtalausum lánum frá fjárfestingafélagi Björgólfs Thors Björgólfssonar, á árinu 2020. Frá því að Frjáls fjölmiðlun eignaðist miðlanna haustið 2017 og þangað til að þeir voru seldir til Torgs í apríl 2020 tapaði útgáfufélagið um 745 milljónum króna. Torg greiddi samt sem áður 300 milljónir króna fyrir miðlanna en samkvæmt ársreikningi voru 100 milljónir króna greiddar með fjármunum úr rekstrinum og 200 milljónir króna með nýjum langtímalánum. Frjáls fjölmiðlun virðist hafa lánað að minnsta kosti 150 milljónir króna af þeirri upphæð í formi seljendaláns, en eina fastafjármunaeign þess félags er skuldabréf upp á þá tölu sem varð til á árinu 2020.
Samruni Torgs og Hringbrautar á árinu 2019 bjargaði síðarnefnda félaginu frá gjaldþroti, samkvæmt því sem kom fram í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, sem heimilaði samrunann á þeim forsendum að ef ekki kæmi til hans, þá myndi rekstur Hringbrautar leggjast af. Samtals tapaði móðurfélag Hringbrautar 191 milljón króna á árunum 2016 til 2019.
Kjarninn er á meðal þeirra fjölmiðla sem þiggja rekstrarstyrki úr ríkissjóði og fékk 14,4 milljónir króna við síðustu úthlutun. Þau fyrirtæki sem hér eru til umfjöllunar eru samkeppnisaðilar Kjarnans.