„Það kemur í sjálfu sér ekkert á óvart að Ríkisendurskoðun þurfi lengri tíma til að vinna úttektina um Íslandsbankamálið. Þetta er umfangsmikið mál og embættið eflaust fáliðað vegna sumarleyfa.“ Þetta segir þingmaður Samfylkingarinnar, Jóhann Páll Jóhannsson, við Kjarnann.
Kjarninn greindi frá því í morgun að skil á niðurstöðu stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoðunar á sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka síðastliðinn vetur muni frestast. Skýrslan átti að koma út í júní en nú er stefnt að því að skila henni fyrir verslunarmannahelgi. Kjarninn leitaði viðbragða stjórnarandstöðunnar við þeim tíðindum.
Jóhann Páll segir að Samfylkingin hafi lagt áherslu á það í þinglokasamningum að boðað yrði til þingfundar þegar úttektin lægi fyrir, og um þetta hafi samstaða náðst. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og þingheimur hljóti svo að rýna úttekt Ríkisendurskoðanda og bregðast við henni.
„En sama hvað kemur fram í úttektinni er ljóst að hún, og umfjöllun um hana, verður enginn endapunktur á málinu. Ríkisendurskoðun skoðar auðvitað þá þætti er falla að starfssviði og eftirlitshlutverki þess embættis, en eftir standa svo stóru spurningarnar um þátt fjármála- og efnahagsráðherra, hvort hann hafi lagt fullnægjandi grundvöll að ákvörðunum sínum við sölu bankans, hvort hann hafi fylgt skráðum og óskráðum reglum stjórnsýsluréttar og rækt eftirlitsskyldur sínar gagnvart Bankasýslunni með viðunandi hætti, hvort hann teljist ef til vill hafa brostið hæfi til að koma að ákvörðun um sölu á ríkiseign til föður síns og svo framvegis,“ segir hann.
Eðlilegt næsta skref að skipuð verði óháð rannsóknarnefnd
Þá telur þingmaðurinn það vera ljóst að ýmsir þættir Íslandsbankamálsins verði ekki upplýstir til fulls nema af aðila með víðtækari rannsóknarheimildir en Ríkisendurskoðun hefur.
„Í þessu samhengi má rifja upp að síðast þegar ríkisendurskoðandi rannsakaði bankasölu komst hann að þeirri niðurstöðu að við hana væri ekkert að athuga. Þegar rannsóknarnefnd Alþingis kannaði sama mál og komst að gagnstæðri niðurstöðu benti ríkisendurskoðandi réttilega á að hið sanna hefði komið í ljós vegna víðtækra rannsóknar- og eftirlitsheimilda rannsóknarnefndarinnar sem hann hafði ekki. Alþingi ætti að draga lærdóm af þessari atburðarás. Eðlilegt næsta skref eftir að úttekt Ríkisendurskoðunar liggur fyrir er að skipuð verði óháð rannsóknarnefnd á grundvelli laga um rannsóknarnefndir Alþingis til að fara yfir þetta mál.
Við Kristrún Frostadóttir bíðum auðvitað enn eftir svari við fyrirspurn um framgang málsins sem við lögðum fram 1. júní. Enn bólar ekkert á svörum þótt þingskapalög geri ráð fyrir að fyrirspurnum til skriflegs svars sé að jafnaði svarað innan 15 virkra daga,“ segir Jóhann Páll.
Seinkun kemur ekki á óvart – Skýrsla frá ríkisendurskoðanda engin hraðleið
Halldóra Mogensen þingflokksformaður Pírata segir við Kjarnann að það komi þeim ekki á óvart að vinna ríkisendurskoðanda tefjist en auðvitað sýni það svart á hvítu að upphaflegt mat ríkisstjórnarinnar og stjórnarliða að beiðni um skýrslu frá ríkisendurskoðanda væri einhvers konar hraðleið hafi ekki verið rétt.
„Orðræða stjórnarliða gegn sérstakri rannsóknarnefnd sneri að mestu leyti um hversu hægvirkt það yrði í samanburði við skýrslu ríkisendurskoðanda,“ segir hún.
Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar tekur undir með Halldóru og segir við Kjarnann að seinkunin komi í sjálfu sér ekkert á óvart – þannig séð.
„Að mínu mati þýðir þetta að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefji sína vinnu um skýrsluna þegar líður á ágústmánuð. Að hefja þá vinnu í júlímánuði finnst mér ekki ganga, ef skýrslan verður á annað borð tilbúin þá,“ segir hann.