Æðstu stjórnendur Landsbankans eiga stærri eignarhlut í bankanum en aðrir starfsmenn, eða allt að þrefalt meira en megnið af þeim starfsmönnum sem eiga hlut í bankanum. Þetta sýna gögn um hluthafa Landsbankans miðað við stöðuna eins og hún var, í lok árs 2014, sem Kjarninn hefur undir höndum. Þeir starfsmenn bankans sem eiga flesta hluti, af þeim sem komu til skiptanna fyrir starfsmenn miðað við samþykkt hluthafafundar bankans frá 17. júlí 2013, eru Hreiðar Bjarnason, Helgi Teitur Helgason og Árni Þór Þorbjörnsson, en þeir áttu allir 528.732 hluti í lok árs í fyrra.
Þeir eiga allir sæti í framkvæmdastjórn bankans. Hreiðar er yfirmaður fjármála, Helgi Teitur einstaklingsviðskipta og Árni Þór Þorbjörnsson fyrirtækjaviðskipta.
Steinþór Pálsson, bankastjóri, er ekki á meðal tíu stærstu hluthafa bankans en hann á 345.228 hluti í bankanum, eða um 65 prósent af eign Hreiðars, Helga Teits og Árna Þórs.
Ríkið á 98 prósent hlut í bankanum hlutur starfsmanna er um eitt prósent. Flestir af þeim 1.400 núverandi og fyrrverandi starfsmönnum bankans, sem fengu hlutabréf í bankanum, eiga á bilinu 50 þúsund til 200 þúsund hluti.
Starfsmenn eignuðust hlut
Á hluthafafundinum 17. Júlí 2013, voru staðfestar úthlutunarreglur um afhendingu hlutabréfa til starfsmanna, en með afhendingu hlutabréfanna var Landsbankinn að uppfylla þær skyldur sem samningur um fjárhagslegt uppgjör við LBI hf., það er kröfuhafa gamla Landsbankans, og íslenska ríkið, sagði til um.
Hlutabréfin sem starfsmenn fengu voru áður í eigu kröfuhafa gamla Landsbankans (LBI) og nema um einu prósenti af heildarhlutafé. Ríkið er langsamlega stærsti eigandi bankans, með um 98 prósent hlutafjár.
Starfsmenn sem fengu hlutabréf í
bankanum, gerðu það með skilyrðum, um að óheimilt væri að selja bréfin fyrr en
eftir þrjú ár frá afhendingu, en hluta þeirra má selja fyrr, komi til þess að
bankinn verði skráður á markað. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefur
sagt að það komi til álita, að selja hlut í bankanum og um leið skrá hann á
markað. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár hefur ráðherra heimild til
þess að selja tæplega þriðjungshlut í bankanum, og standa vonir til þess að
allt að 71 milljarður fáist fyrir þann hlut.
Samningur um árangurstengingu
Afhending hlutabréfanna byggist á samningi frá 15. desember 2009 en þá gerðu Landsbankinn og LBI hf. , það er kröfuhafar eða slitabú gamla Landsbankans, og Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, samning um fjárhagsuppgjör milli Landsbankans hf. og slitabússins. Með samþykki ríkisins var Landsbankanum gert að koma á árangurstengdu launakerfi fyrir starfsmenn Landsbankans hf. og setti íslenska ríkið skilyrði um að það næði til allra starfsmanna. Kerfið skyldi taka mið af verðmæti tiltekinna eignasafna stærri fyrirtækja sem lágu til grundvallar ákvörðunar á fjárhæð skilyrts skuldabréfs sem er hluti af fjárhagsuppgjörinu. Niðurstaða verðmats óháðs ytri aðila var að gefa skyldi út skilyrta skuldabréfið miðað við hámarksfjárhæð þess.
Samkvæmt þessu samkomulagi skyldi slitabúið ráðstafa af eign búsins, og þar með eign kröfuhafa, 500.000.000 hlutum, um tvö prósent af heildarhlutafé, í Landsbankanum samkvæmt úthlutunarreglum sem bankinn skyldi koma á í síðasta lagi fyrir árslok 2012. Þeim reglum var hins vegar ekki komið á fyrir þann tíma. Á hluthafafundi 27. mars 2013 var samþykkt að bankanum væri heimilt að taka við hlutabréfunum frá slitabúinu en henni fylgdi kvöð um að afhenda bæri þau starfsmönnum.
Við afhendingu hlutabréfanna var starfskjarastefnu Landsbankans fylgt, af því er sagði í tilkynningu bankans, og mið tekið af reglum Fjármálaeftirlitsins (FME) um kaupaukakerfi fjármálafyrirtækja, en afhending hlutabréfanna, eins og er í þessu tilfelli, fellur ekki undir þær, strangt til tekið. Starfsmenn eftirlitseininga fá ekki afhent hlutabréf en bankanum er hinsvegar gert samkvæmt reglum FME að tryggja þeim jafnræði í kjörum með öðrum hætti.
Afhending hlutabréfa til starfsmanna
Hlutabréfin voru afhent starfsmönnum Landsbankans og Landsbréfa, dótturfélagi bankans, sem voru fastráðnir þann 31. mars 2013 og þeim sem látið hafa af störfum vegna aldurs, örorku eða verið sagt upp í hagræðingarskyni. Fjöldi afhentra hluta til hvers og eins starfsmanns er hlutfallslegur og miðast við föst laun og þann tíma sem viðkomandi hefur starfað hjá Landsbankanum frá 15. desember 2009 til 31. mars 2013.
Mikil verðmæti
Þó heildarhluti einstakra starfsmanna í Lansbankanum sé lítill hluti af 25 milljarða heildarfjölda hluta í Landsbankanum, þá er um töluverð verðmæti að ræða. Ekki síst þar sem miklar breytingar hafa orðið á eiginfjárstöðu Landsbankans til góðs frá því hann var endurreistur. Samkvæmt síðasta birta uppgjöri var eigið fé bankans um 250 milljarðar króna og markaðshlutdeild á Íslandi mikil og stöðug. Meira en 113 þúsund einstaklingar eru í viðskiptum við bankanna, og ríflega ellefu þúsund fyrirtæki.
Sé mið tekið af gangi mála á hlutabréfamarkaði hér á landi, þar sem mikil eftirspurn hefur verið á undanförnum árum, þá er ekki útilokað að markaðsvirði Landsbankans aukist við skráningu, þó vandi sé um slíkt að spá.