Afglæpavæðing neysluskammta er skref í „átt að gagnreyndri og mannúðlegri nálgun gagnvart vímuefnanotkun og vímuefnavanda með skaðaminnkandi hugmyndafræði að leiðarljósi.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í umsögn Rauða krossins um frumvarp um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, það er, um afglæpavæðingu vörslu neysluskammta. Þá styður Rauði krossinn þá stefnu að meðhöndla eigi vanda vímuefnanotenda í íslensku samfélagi í heilbrigðiskerfinu fremur en dómskerfinu.
Þetta er í fjórða sinn sem Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, fer fyrir frumvarpi um afglæpavæðingu neysluskammta. Svandís Svavarsdóttir lagði fram frumvarp um afglæpavæðingu neysluskammta í apríl 2021 og byggði það að hluta til á vinnu við og umsögnum um frumvarp Halldóru og meðflutningsfólks hennar.
Frumvarpið varð ekki að lögum en til stóð að endurflytja það með breytingum af Willum Þór Þórssyni, sem tók við sem heilbrigðisráðherra eftir kosningarnar í lok síðasta árs. Frumvarpið var hins vegar fellt niður af þingmálaskrá þings sem þá stóð yfir í mars. Í svari ráðuneytisins til Kjarnans vegna ákvörðunarinnar sagði að ráðherra hefði ákveðið að vinna að frekari útfærslu á frumvarpinu, meðal annars með því að skilgreina hugtakið neysluskammtur. Starfshópur var skipaður í febrúar um verkefnið og hefur hann ekki skilað tillögum.
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, er flutningsmaður frumvarpsins ásamt öðrum þingmönnum Pírata. Guðbrandur Einarsson, Hanna Katrín Friðriksson og Sigmar Guðmundsson, þingmenn Viðreisnar, eru einnig flutningsmenn frumvarpsins auk Loga Einarssonar og Helgu Völu Helgadóttur, þingmanna Samfylkingar.
Umræða um hugmyndafræði skaðaminnkunnar og afglæpavæðingu neysluskammta hefur aukist síðustu ár, umræða þar sem fjallað er um að ekki eigi að refsa fólki fyrir vörslu takmarkaðs magns fíkniefna til eigin nota og að efnin eigi ekki að gera upptæk hjá fullorðnu fólki.
Rauði krossinn hefur boðið upp á skaðaminnkunarúrræði hér landi frá 2009 þegar Frú Ragnheiður, öruggt neyslurými í bíl sem ekur um höfuðborgarsvæðið, tók til starfa. Í mars á þessu ári tók Ylja, fyrsta færanlega neyslurýmið til starfa, og sagði verkefnastjóri hjá Rauða krossinum í samtali við Kjarnann að opnun rýmisins endurspegli viðhorfsbreytingu á skaðaminnkun.
Veigra sér við að leita bráðaaðtoðar af ótta við að lögregla geri neysluskammta upptæka
Rauði krossinn fagnar því að aftur sé verið að leggja fram frumvarp um afglæpavæðingu neysluskammta og styður þær breytingar í löggjöfinni sem þar eru lagðar fram.
Í umsögn Rauða krossins segir að verði frumvarpið að lögum mun aðgengi jaðarsettra einstaklinga, sérstaklega þeirra sem glíma við erfiðan vímuefnavanda, að heilbrigðis-, félagslegs- og viðbragðsþjónustu aukast til muna.
Rauði krossinn telur mikilvægt að notendur vímuefna hafi greiðan aðgang að heilbrigðis- og velferðarþjónustu, án fordóma og jaðarsetningar. „Dæmi eru um að einstaklingar sem glíma við vímuefnavanda veigri sér við að hringja eftir bráðaaðstoð eða leita sér aðstoðar af ótta við að lögregla geri neysluskammta þeirra upptæka og/eða vera handtekin vegna annars ólögmæts athæfis. Getur það jafnvel átt við í bráðatilfellum eins og við ofskömmtun á vímuefnum, sem og í tilvikum heimilisofbeldis eða annarskonar ofbeldis,“ segir í umsögn Rauða krossins.
Rauði krossinn telur að bæði notendur vímuefna og starfsfólk heilbrigðis- og velferðarþjónustunnar þurfi að geta rætt opinskátt um málin án þess að eiga á hættu að nauðsynleg velferðar geti jafnframt talist refsivert athæfi, það er að segja mál tengd neyslu vímuefna og vitneskja um neysluskammta.
„Það að tryggja að ekki verði hægt að fjarlægja neysluskammta af fólki er mikilvægt öryggismál fyrir jaðarsetta einstaklinga og auðveldar einnig starfsfólki á vettvangi að þjónusta og styðja við einstaklinga sem glíma við vímuefnavanda út frá þeirra þörfum,“ segir í umsögn Rauða krossins.
Eykur skaða að taka neysluskammta af fólki sem glímir við vímuefnavanda
Rauði krossinn á Íslandi hefur fengið „ómetanlega og einstaka innsýn í stöðu og veruleika einstaklinga sem glíma við erfiðan vímuefnavanda í gegnum skaðaminnkunarverkefni félagsins,“ að því er fram kemur í umsögninni. Rauði krossinn bendir á að skjólstæðingar þessara verkefna eru allajafna verulega jaðarsettir vegna vímuefnavandans og fjölmargir þeirra glíma við heimilisleysi.
„Reynsla Rauða krossins er sú að þegar lögregla gerir neysluskammta upptæka eykst örvænting jaðarsetts einstaklings með vímuefnavanda. Þannig má leiða líkur að því að ef neysluskammtur einstaklings er gerður upptækur ýti það einstaklingnum enn frekar í átt að ólöglegu athæfi til fjármögnunar á efnum. Staða þess einstaklings verður þannig sífellt verri og vandi hans eykst. Að taka neysluskammta af fólki sem glímir við erfiðan og virkan vímuefnavanda getur aukið skaða fyrir einstaklinginn og samfélagið sömuleiðis,“ segir í umsögninni.
Á síðasta ári hafði lögregla afskipti af 781 einstaklingi vegna neysluskammta. Það eru töluvert færri en árin á undan. Síðustu ellefu ár, frá 2010-2021, hefur lögregla haft afskipti af 7.513 einstaklingum vegna vörslu neysluskammta. Flest voru tilfellin árið 2014, 1.246 talsins.
Í frumvarpinu sem nú liggur fyrir Alþingi er lagt til að ráðherra setji reglugerð þar sem kveðið er á um hvaða magn fíkniefna geti talist til eigin nota og lagt er til að miðað verði við 10 daga neysluskammt. Rauði krossinn bendir á að viðmiðið gæti verið óheppilegt þar sem um háan skammt er að ræða og lagt er til að dagafjöldi neysluskammta verði minnkaður.