Sænska þingið samþykkti í morgun vantrauststillögu á ríkisstjórn Stefans Löfven forsætisráðherra með nokkuð afgerandi hætti. Alls samþykktu 181 af 349 þingmönnum tillögu Svíþjóðardemókrata um vantraust á ríkisstjórnina, 109 greiddu atkvæði gegn henni go 51 þingmaður sat hjá.
Löfven mun halda blaðamannafund nú í morgunsárið og greina frá næstu skrefum, en hann hefur eina viku til að boða til nýrra kosninga takist ekki að mynda nýja starfhæfa ríkisstjórn.
Hugmyndir sænsku ríkisstjórnarinnar um að afnema leiguþak á nýbyggingum leiddi til þess að vantrauststillagan var lögð fram.
Samkvæmt umfjöllun Politico um málið fyrir helgi samdi Löfven við sænska Miðflokkinn, sem studdi minnihlutastjórn forsætisráðherrans falli, um að leiguþakið yrði afnumið fyrir nýbyggingar eftir síðustu þingkosningarnar þar í landi árið 2018. Hins vegar sagðist Vinstriflokkurinn, sem varði ríkisstjórn Löfven einnig falli, einungis hafa ætlað að verja minnihlutastjórnina ef áformin um afnám leiguþaks yrðu aldrei að veruleika.