Þær fréttir bárust frá Kýpur-háskóla þann 7. janúar að vísindamenn við skólann hefðu raðgreint nokkrar kórónuveirur og að í ljós hafi komið að í genamengi þeirra hefðu fundist eiginleikar bæði delta og omikron-afbrigðisins.
Veirufræðingurinn sem fór fyrir hópnum, Leondios Kostrikis, flutti þessi tíðindi í sjónvarpi á Kýpur. Afbrigðið sem vísindamennirnir töldu sig hafa greint var þegar í stað kallað deltakron og höfðu upplýsingar um uppgötvunina á þessum tímapunkti verið færðar inn í hinn opna gagnagrunn GISAID. Fréttastofa Bloomberg fékk veður af þessu og birti fyrstu frétt um málið innan við sólarhring eftir að Kýpverjar höfðu fengið að heyra af hinu nýja – og meinta – kórónuveiruafbrigði.
Það er ekkert skrítið að fréttin hafi farið á flug í fjölmiðlum um allan heim. Ómíkron-afbrigðið, sem vísindamenn í Botsvana og Suður-Afríku höfðu fyrstir allra greint í nóvember, hafði valdið ótta enda mun meira smitandi en delta-afbrigðið sem á undan hafði komið. Delta er hins vegar ekki eins smitandi, þótt smitandi sé, en veldur þeim mun alvarlegri veikindum. Að heyra svo af ofur-afbrigði með eiginleika beggja þessara veira, kallaði fram hroll hjá mörgum.
Kýpversku vísindamennirnir höfðu aðeins raðgreint 52 veirusýni sem höfðu eiginleika beggja afbrigðanna. Vísindamenn annars staðar í heiminum bentu þegar í stað á að svo fá sýni gætu ekki verið grundvöllur til að slá nokkru föstu. Nokkrir komu fram með þá kenningu að mun líklegra væri að sýnin á rannsóknarstofu Kýpur-háskóla hefðu spillst.
„Það er ekkert til sem heitir deltakron,“ skrifaði Krutika Kuppalli, sem er í tækniteymi Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar, á Twitter. „Ómíkron og delta hafa EKKI myndað ofur-afbrigði.“ Yfirmenn WHO hafa einnig sagt hið sama en bent á að fólk geti verið smitað af delta- og ómíkron-afbrigðunum samtímis.
Þá bendir Arnar Pálsson erfðafræðingur á það í nýju svari á Vísindavefnum að það sé fjarlægur möguleiki, en raunverulegur þó, að tvö eða fleiri afbrigði myndi nýtt blendingsafbrigði, með endurröðun erfðaefnis.
Okay people let’s make this a teachable moment, there is no such thing as #Deltacron (Just like there is no such thing as #Flurona) #Omicron and #Delta did NOT form a super variant
— Krutika Kuppalli, MD FIDSA (@KrutikaKuppalli) January 9, 2022
This is likely sequencing artifact (lab contamination of Omicron fragments in a Delta specimen) https://t.co/DDvM24bt9g
Vísindamenn um allan heim hafa verið hvattir til að skrá upplýsingar um raðgreiningar sínar í GISAID-gagnagrunninn. Þannig hefur tekist að fylgjast vel með þróun veirunnar og stökkbreytingum hennar. En dæmið frá Kýpur-háskóla þykir að margra mati sýna að fara verði varlega í allar yfirlýsingar og að grandskoða verði mál ofan í kjölinn, að minnsta kosti áður en greint er frá þeim opinberlega. Af nógu mörgum slæmum fréttum hefur verið að taka í faraldrinum þó að rangar upplýsingar séu ekki einnig settar í dreifingu.
Kostrikis hefur svarað þeirri gagnrýni með því að fjölmiðlar hafi mistúlkað orð hans. Hann hafi aldrei haldið því fram að nýtt blendingsafbrigði ómíkron og delta væri orðið til. Um kenningu hefði verið að ræða. Þremur sólarhringum eftir að hafa sett niðurstöður raðgreininga sinna inn í gagnagrunninn fjarlægði hann þær og sagði að frekari rannsókna á þeim væri þörf.
Mistök fyrirsjáanleg
Talsmaður GISAID segir að frá upphafi faraldursins hafi yfir 7 milljón genamengi kórónuveira verið sett inn í gagnagrunninn og að einstaka mistök við raðgreiningar ættu því ekki að koma mjög á óvart.
Raðgreiningar á „deltakron“ voru gerðar á sýnum sem tekin voru á Kýpur í desember. Kostrikis segir í samtali við vísindatímaritið Nature að kenning teymisins hefði verið sú að delta-afbrigðið hefði tekið stökkbreytingar í broddpróteininu sem svipaði til eiginleika ómíkron – eiginleika sem gera það afbrigði mun meira smitandi. Sérfræðingar annars staðar í heiminum rýndu í gögnin frá Kýpur og töldu mun líklegra að um mannleg mistök hefði verið að ræða. Sýnin hefðu spillst á rannsóknarstofunni. Blandast saman.
Slíkt er ekki óalgengt segja viðmælendur Nature og því er svo mikilvægt að fara varlega í allar ályktanir til að byrja með.
Kostrikis efast hins vegar sjálfur um að krossmengun hafi átt sér stað á rannsóknarstofunni en telur engu að síður þörf á að rannsaka alla möguleika. Kollegar hans hafa svo einhverjir bætt við að ef engin mistök hafi verið gerð á rannsóknarstofunni og raðgreiningar veirusýnanna þar með réttar, breyti það ekki því að stökkbreytingarnar sem Kýpverjarnir fundu eru alls ekki aðeins bundnar við ómíkron heldur finnast í ýmsum öðrum afbrigðum veirunnar. Deltakron sé því rangnefni.
Þótt Kostrikis hafi verið gagnrýndur fyrir að oftúlka niðurstöðurnar hefur honum verið hrósað fyrir að skrá raðgreiningarnar inn í gagnabankann. Vísindamenn mega ekki hika við slíkt, segja viðmælendur Nature, en þeir verða hins vegar að tala mjög varlega. „Allt sem við segjum getur valdið því að landamærum er lokað.“