Veirur sem sóttar voru á sextán metra dýpi botns stöðuvatns í Síberíu, þar sem þær hafa legið frá því á ísöld, hafa verið endurlífgaðar á rannsóknarstofu. Vísindamenn við Aix-Marseille-háskóla í Frakklandi rannsaka veirurnar í þeim tilgangi að finna út hvað gæti beðið okkar ef sífreri á norðurslóðum þiðnar. Þeir hafa þegar borið kennsl á þrettán ólíkar veirutegundir og afbrigði úr borkjörnum sem teknir voru úr botni vatnsins. Sumar veirurnar fundust varðveittar í loðfílaskít og aðrar í hræjum Síberíu-úlfa.
Yngsta veirutegundin hefur legið frosin í Síberíu í 27 þúsund ár en sú elsta í 48.500 ár. Aldrei hefur áður tekist að endurlífga svo gamla veiru.
Óttast er að þegar hinn mikli sífreri Síberíu þiðnar, eins og vísbendingar eru um að gerist samhliða hlýnun jarðar, gætu sjúkdómar sem herjuðu á fólk og dýr í fyrndinni snúið aftur.
Veirurnar sem vísindamennirnir hafa einangrað geta smitað einfrumunga, einfaldar lífverur sem lifa í jarðvegi og vatni, og fjölgað sér í slíkum.
„En ef þessar ákveðnu veirur fortíðar haldast smitandi eftir að hafa verið frystar í svo langan tíma, þá á það líka við um aðrar veirutegundir,“ segir Jean-Michael Claverie, aðalhöfundur rannsóknarinnar, við tímaritið New Scientist. Í því hefur grein um rannsóknina verið birt en hún hefur enn ekki verið ritrýnd.
Tilraunir með endurlífgun eldgamalla veira hljómar í eyrum almennings sem töluverð áhætta. En vísindamennirnir vilja meina að rannsóknin sé þess virði til að reyna að spá fyrir um hvað gæti gerst ef sífreri Rússlands og víðar á norðurslóðum þiðnar. Í honum leynist fjöldi frosinna lífvera. Og ef hægt er að endurlífga þær á rannsóknarstofum gætu náttúrulegir ferlar mögulega gert það líka.
Rannsóknin er enn á fyrstu stigum og enn á eftir að reyna ýmislegt áður en hægt er að slá nokkru föstu með fullri vissu, segja vísindamennirnir. Þeir vonast til þess að niðurstöður þeirra geti komið að gagni við þróun bóluefna og viðbragða þegar og ef fornar veirur fara aftur á kreik samhliða loftslagsbreytingum.
Nýleg rannsókn þykir sýna að sífreri á kanadíska heimskautasvæðinu þiðni 70 árum fyrr en áður var talið. Vísindamenn telja þetta vísbendingu um aukinn hraða loftslagsbreytinga.
Þegar sífreri þiðnar er m.a. hætta á að mikið magn gastegunda, til að mynda metans, sem bundnar eru í sífreranum losni út í andrúmsloftið og hækki enn frekar hitastig, sem leiðir til enn frekari þiðnunar.
Hörfar hratt með breyttu loftslagi
Sífreri (e. permafrost) myndast þar sem frost helst allan ársins hring í yfirborðslagi jarðar, hvort sem það er í jarðvegi, setlögum eða bergi. Sífreri getur verið allt frá nokkrum sentímetrum upp í hundruð metra á þykkt. Á sumrin þiðnar landið ofan frá og er sá hluti kallaður virka lagið.
Sífreri finnst einkum á heimskauta- og háfjallasvæðum jarðar. Útbreiðsla hans er háð veðurfari en sífrerinn hörfar hratt þegar loftslag hlýnar, líkt og nú er. Við það verða miklar breytingar í yfirborðslögum jarðarinnar. Fjallshlíðar verða óstöðugar og líkur á skriðuföllum aukast en önnur afleiðing er að við bráðnunina losna úr sífreranum gróðurhúsalofttegundir svo sem koldíoxíð (CO2) og metangas (CH4).