Vísitala neysluverðs, sem mælir verðbólgu, hækkaði um 0,77 prósent í maí. Tólf mánaða hækkun hennar mælist nú 7,6 prósent en ársverðbólgan mældist 7,2 prósent í síðasta mánuði. Án húsnæðisliðarins væri verðbólgan 5,5 prósent.
Í tilkynningu á vef Hagstofu Íslands segir að verð á mat og drykk hafi hækkað um 0,9 prósent í síðasta mánuði, kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði hafi hækkað um 2,3 prósent og verð á nýjum bílum um 2,1 prósent. Þá hafi verð á bensíni og olíu hækkað um 2,9 prósent en verð á flugfargjöldum lækkaði um 6,9 prósent.
Í þjóðhagsspá Greiningar Íslandsbanka, sem birt var fyrr í mánuðinum, var því spáð að verðbólgan myndi fara í 8,4 prósent í lok sumars en fara svo lækkandi.
Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor og ytri meðlimur í peningastefnunefnd Seðlabankans, skrifaði grein í Vísbendingu fyrr í maímánuði þar sem hann sagði að á næstu mánuðum væri „nauðsynlegt að virkir vextir Seðlabankans hækki nægilega mikið til þess að raunvextir hans verði jákvæðir að nýju“, sem þýðir að stýrivextir bankans þyrftu að verða hærri en mæld verðbólga í landinu.
Í greininni benti hann á að raunvextir væru neikvæðir og þótt afborganir af lánum hækki samhliða hærra vaxtastigi þá sé raunvirði óverðtryggðra lána að lækka um rúmlega sjö prósent á ári við þessar aðstæður. „Hækkandi verðbólguvæntingar gætu valdið því að krafist verði hærri launa í haust til þess að bæta launafólki upp bæði verðbólgu þessa árs og væntanlega verðbólgu á næsta ári. Þessar launahækkanir fara síðan út í verðlag sem kallar á enn aðrar launahækkanir. Slík víxlverkun launa og verðlags getur varað í áraraðir. Þegar svo seðlabankar reyna ná tökum á verðbólgunni þá krefst slíkt atvinnuleysis með tilheyrandi hörmungum fyrir þá sem fyrir því verða.“