Rússar lögðu það til fyrir meira en þremur árum síðan að Bashar al-Assad Sýrlandsforseti færi frá völdum, og það yrði hluti af friðarsamkomulagi í Sýrlandi.
Þetta segir Martti Ahtisaari, fyrrum forseti Finnlands og friðarverðlaunahafi Nóbels, sem tók þátt í friðarumleitunum á þessum tíma. Hann hélt fundi með erindrekum frá ríkjunum fimm sem eiga fast sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í febrúar 2012. Hann segir í viðtali við The Guardian að sendiherra Rússa, Vitaly Churkin, hafi lagt fram þriggja punkta plan, sem hafi meðal annars innihaldið tillögu að því hvernig Assad gæti stigið frá völdum á einhverjum tímapunkti eftir að friðarviðræður hefðust milli stjórnvalda og uppreisnarmanna.
En Ahtisaari segir að Bandaríkjamenn, Bretar og Frakkar hafi verið svo sannfærðir um að Assad væri alveg að missa völdin og stjórn hans myndi falla, að þeir hafi hunsað tillöguna. „Þetta var tækifæri sem tapaðist árið 2012,“ segir Ahtisaari.
Churkin sagði við Ahtisaari, að hans sögn, að það þyrfti að gera þrennt. "Eitt - við eigum ekki að vopna stjórnarandstöðuna. Tvö - við ættum að koma af stað viðræðum milli andstöðunnar og Assad nú þegar. Þrjú - við ættum að finna leið fyrir Assad til að fara frá völdum með reisn." Churkin vill ekki ræða þetta við Guardian nú, en Ahtisaari segir engum blöðum um þetta að fletta. Hann hafi meira að segja farið aftur til Churkin og spurt hann aftur. Þá hafi Churkin verið nýkominn frá Moskvu og hann hafi virst vera að leggja til þessa lausn fyrir hönd stjórnvalda í Rússlandi.
Rússar hafa stutt Assad og stjórn hans allan tímann sem borgarastyrjöld hefur varað í Sýrlandi, og sagt opinberlega að það að krefjast afsagnar hans geti ekki verið hluti af neinum friðarumleitunum.
Fulltrúar Vesturveldanna hjá Sameinuðu þjóðunum vilja ekki tjá sig um þessar fullyrðingar, en bentu á í samtali við Guardian að á þessum tímapunkti, í febrúar 2012, hafi þegar verið ár liðið af átökum. Assad hafi þá þegar látið myrða mikinn fjölda manns og stóru uppreisnarhóparnir hefðu aldrei tekið neinum tillögum þar sem Assad fengi að halda völdum.
Þegar Ahtisaari fór til New York að ræða við fulltrúana hjá SÞ var talið að um 7.500 manns hefðu látist í borgarastyrjöldinni. Í upphafi þessa árs höfðu yfir 220.000 manns látist, og fjöldinn eykst. Yfir ellefu milljónir Sýrlendinga hafa þurft að yfirgefa heimili sín.