Eldgosið í Geldingadal við Fagradalsfjall, sem hófst á níunda tímanum í gærkvöldi, er þegar í rénun. Í myrkrinu í gær sýndist vísindamönnum gjósa á um 500-700 metra sprungu en í dagsbirtunni hefur komið í ljós að hún er um 180 metrar á lengd og hefur aldrei verið lengri en það. „Með fjöllin og dalina til samanburðar í morgun er þetta heldur minna,“ sagði Björn Oddsson, jarðvísindamaður hjá almannavörnum í viðtali við RÚV í hádeginu.
Fleiri stærðir hafa verið að skýrast eftir því sem birta tók af degi. Gas sem upp kemur var talið vera um 160 kíló á sekúndu í gær en nú er talið að magnið sé um 30 kíló. Gosið er mikið sjónarspil engu að síður og hefur dregið fjölda manns að í dag sem veldur Víði Reynissyni, yfirlögregluþjóni almannavarna nokkrum áhyggjum. „Ég er pínu með í maganum, ég verð að viðurkenna það,“ sagði hann í beinni útsendingu í hádegisfréttum úr stjórnstöðinni í Skógarhlíð. Hann segist sjást á vefmyndavélum að margt fólk sé komið á staðinn og nokkuð nálægt. Viðbúnaðarstigið var fært af neyðarstigi niður á hættustig í morgun. Svæðið er því ekki lokað en Víðir ítrekar að það geti verið stór varasamt að fara þar um. Sagði hann hraunrennslið geta „stokkið fram“ um marga metra á stuttum tíma. Það geti opnast nýjar sprungur, jafnvel í hundruð metra fjarlægð frá þeim stað sem nú gýs á.
Freysteinn Sigmundsson jarðeðlisfræðingur segir að það sem gerst hafi við Fagradalsfjall sé að op hafi komið á kvikuganginn langa sem byrjaði að myndast fyrir nokkrum vikum og að „kvikan leki upp“.
Björn Oddsson var meðal þeirra vísindamanna sem flaug yfir gosstöðvarnar í gær. Hann segir gígana sem höfðu myndast þá hafa sést vel sem og hrauntungurnar sem renna frá þeim. Nú er kvikustrókavirknin orðin mjög lítil og að lítil sem engin aska myndist. „Við verðum að hafa það í huga að meðan þessi virkni er þá er það ekki útilokað að það opnist aðrar sprungur á öðrum stöðum.“
Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur fylgist nú náið með gasmælingum vegna gossins. Hún sagði í hádegisfréttum RÚV að verið væri að endurreikna líkön um gasdreifinguna en að allt benti til þess að litlar líkur væru á því að gös myndu valda hættu í byggð og þar með talið á höfuðborgarsvæðinu þó að vindátt sé að breytast. „En,“ sagði hún, „hættan er ekki lítil eða hverfandi við gosstöðvarnar og fólk má alls ekki halda að það sjái gasið.“ Þeir gufustrókar sem sjáist séu einmitt aðallega það: Vatnsgufa. Gösin eru hins vegar ósýnileg og geta auðveldlega safnast í lægðir í landslaginu.
En hvert gæti framhaldið orðið?
Það er spurningin sem brennur á öllum en erfitt er að svara með nákvæmni. Freysteinn Sigmundsson sagði að ekki væri hægt að segja til um það á þessari stundu hvort að gosið hreinlega lognist fljótt út af. Eldgosið væri beint framhald af því sem hefði verið að eiga sér stað á Reykjanesi síðustu vikur. Magn kvikunnar sem væri að koma upp á yfirborðið væri um það bil það sama og vísindamenn telja að hafi verið að flæða inn í kvikuganginn á svæðinu. „Við verðum að bíða og sjá,“ sagði hann við RÚV í hádeginu. „Þetta getur haldið svona áfram. Það eru engar vísbendingar um að hraunrennsli sé að fara að margfaldast.“
Síðustu þrjár vikur hafa einkennst af miklum jarðskjálftum á Reykjanesi. Þetta hefur verið tímabil spennu, segir Freysteinn. Og undir niðri var að myndast átta kílómetra langur kvikugangur. En nokkrum dögum fyrir gosið dró úr skjálftavirkni. Því sé spurning hvort að spennan í jarðskorpunni hafi þegar verið losuð. Búast má við því að draga muni úr skjálftavirkni. En af þrýstingnum var nóg og þess vegna náði kvikan glóandi upp á yfirborðið.
Þegar litið er til sögunnar eru dæmi um eldgosahrinur, sannkallaða jarðelda, sem hófust með litlum gosum sem þessum. Kröflueldar eru gott dæmi um það. En endurtekin eldgos urðu svo á svæðinu næstu fimmtán árin á eftir. Þetta rifjaði Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur upp í Ríkisútvarpinu í nótt. „Þetta er bara einn kafli í langri framhaldssögu, hún er þegar orðin fimmtán mánaða löng,“ sagði hann. „Kaflarnir hafa orðið æsilegri eftir því sem fram hefur liðið eins og í góðri framhaldssögu.“