Fundur stuðningsmanna Viðreiðsnar sem haldin var í dag „lýsir miklum vonbrigðum með aðgerðir ríkisstjórnarinnar varðandi umsókn Íslands um fulla aðild að Evrópusambandinu.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórnmálavettvangnum.
Þar segir einnig að sífellt sé leitað leið til að spilla fyrir möguleikum til þess að ná niðurstöðu í viðræðum við sambandið í stað þess að standa við gefin loforð um að vísa málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu. „Fundurinn skorar á Alþingi að ákveða þjóðaratkvæðagreiðslu um málið svo fljótt sem verða má. Næstu Alþingiskosningar munu snúast um það hvort þjóðin vill stjórnmálamenn sem standa við gefin loforð eða hina sem telja sig ekki bundna af þeim nema fram að kjördegi. Þess vegna er nauðsynlegt að nýtt, heiðarlegt, frjálslynt og markaðssinnað afl leiði ríkisstjórn eftir næstu kosningar til Alþingis.“
Fjársterkir aðilar sem vinna markvisst að framboði
Viðreisnarhópurinn skilgreinir sig sem nýtt frjálslynt, alþjóðasinnað stjórnmálaafl, sem staðsetur sig hægra megin við miðju. Frá því snemma á síðasta ári hefur hópur fólks unnið að því að undirbúa farveginn fyrir framboð flokksins. Hópurinn er mjög hlynntur aðild að Evrópusambandinu og margir Evrópusinnaðir fyrrum sjálfstæðismenn hafa verið áberandi í honum. Þeirra á meðal eru Benedikt Jóhannesson, Helgi Magnússon, Þorsteinn Pálsson, Þórður Magnússon, Vilhjálmur Egilsson, Sveinn Andri Sveinsson og Jórunn Frímannsdóttir svo fáeinir séu nefndir. Þá hefur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrum varaformaður Sjálfstæðisflokksins, ítrekað verið nefnd sem mögulegur forystumaður í hinu nýja framboði.
Helgi Magnússon, n, fjárfestir og
áhrifamaður innan lífeyrissjóðakerfisins,
er einn þeirra
sem hefur tengst vinnu við nýtt framboð.
Í ítalegri fréttaskýringu um hópinn, sem síðan hefur kennt sig við Viðreisn, í Kjarnanum í apríl í fyrra kom fram að hann ætli sér ekki að verða eins stefnumáls vettvangur, þrátt fyrir að það sé að myndast í kringum andstöðu við slit á viðræðum við Evrópusambandið. Þvert á móti verður lögð áhersla á að bjóða upp á stóran stefnumálapakka og breiða fylkingu fólks af fólki af báðum kynjum úr ýmsum stéttum þegar af framboði verður.
Hópurinn sem stendur að baki þessum hugmyndum er mjög fjársterkur. Hluti hans hefur styrkt Sjálfstæðisflokkinn myndarlega undanfarin ár og áratugi. Þeim styrkveitingum er nú að mestu lokið. Viðmælendur Kjarnans í fyrra sögðu að í undirbúniningi væri tvenns konar ferlar að framboði, enda skipti tímasetning öllu. Fyrri ferillinn, „Plan A“, miðar við að kosningar verði eftir að kjörtímabilinu lýkur. Sá síðari, „Plan B“, miðar við að hægt verði að setja saman og manna framboð á nokkrum vikum ef pólitíski veruleikinn verði sitjandi ríkisstjórn ofviða.