Viðreisn hefur kynnt stefnu sína fyrir komandi borgarstjórnarkosningar, sem sett er fram undir slagorðinu „Skýr sýn fyrir Reykjavík“.
Eftir að hafa fengið 8,2 prósent atkvæða og tvo borgarfulltrúa kjörna í kosningunum árið 2018 hefur Viðreisn nú verið að mælast ögn minni í nýlegum skoðanakönnunum, eftir fjögurra ára setu í meirihluta borgarstjórnar. Í síðustu kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar var flokkurinn með 6,7 prósenta fylgi en mældist svo reyndar öllu sprækari og með 9 prósent fylgi í nýjustu könnun Maskínu, sem birt var í gær.
Kjarninn kynnti sér heildarstefnu Viðreisnar í Reykjavík, um tuttugu blaðsíðna plagg sem samþykkt var á málefnaþingi flokksins í Reykjavík 2. apríl og tók saman það sem flokkurinn setur á oddinn fyrir komandi kosningar.
Þéttari borg og stærra Kjalarnes
Hvað þróun byggðarinnar í borginni varðar vill Viðreisn horfa inn á við. Flokkurinn vill hefja uppbyggingu nýja hverfisins við Ártúnshöfða og ljúka skipulagi vegna fyrstu áfanga Keldnalands að undangenginni hugmyndasamkeppni.
Viðreisn vill einnig að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýri og að þar rísi þétt, blönduð byggð. Flokkurinn segir að hefja eigi uppbyggingu í Skerjafirði og öðrum svæðum í Vatnsmýri sem fyrst.
Í stefnu flokksins er einnig talað um að skoða megi stækkun núverandi hverfa til þess að nýta betur þá innviði sem fyrir eru. Dæmi um þetta segir Viðreisn að geti verið „uppbygging á Skeifusvæðinu, við Kringluna og í Úlfarsárdal“ og svo segir einnig í í stefnu flokksins að þéttbýlið á Kjalarnesi megi stækka „til að það geti verið sjálfbært og borið verslun og öfluga nærþjónustu“.
Í húsnæðismálum segir flokkurinn að lóðaúthlutanir skuli tryggja framboð og jafna sveiflu á húsnæðismarkaði og að á næstu árum verði tryggðar lóðir fyrir minnst 2.000 íbúðir á ári. Viðreisn segir að huga skuli að „þörfum ungs fólks og fyrstu kaupenda“ og lækka kostnað við nýbyggingar „með einföldun regluverks og með því að minnka þörf fyrir dýr bílastæði.“
Flokkurinn segist einnig vilja „endurskoða“ samningsmarkmið borgarinnar um fjölda leiguíbúða á hverri lóð og segir að sameina ætti innviðagjöld gatnagerðargjöldum og auka gagnsæi við innheimtu þeirra.
Nagladekkjaskattur til sveitarfélaga
Í samgöngumálum styður Viðreisn Borgarlínu og vill að hún verði í „hæsta gæðaflokki“. Flokkurinn telur að leggja skuli áherslu á hátt þjónustustig almenningssamgangna fremur en að gera þær ókeypis.
Einnig styður Viðreisn stækkun gjaldskyldra bílastæðasvæða og lengingu gjaldskyldutíma. Á hinn boginn segir Viðreisn að liðka þurfi fyrir fjölgun deilibíla með tímabundnum bílastæðafríðindum.
Í málefnaskrá Viðreisnar segir einnig að Miklabraut skuli setja í stokk upp að Grensásvegi, að leggja skuli Sundabraut fyrir alla samgöngumáta og draga úr notkun nagladekkja, með því að ríkið innheimti af þeim skatt og útdeili tekjunum til sveitarfélaga. Flokkurinn vill einnig að frítt verði í strætó á svokölluðum gráum dögum, þegar útlit er fyrir slæm loftgæði í borginni.
Skoða megi sölu á samkeppniseiningum Orkuveitunnar
Viðreisn fjallar nokkuð um einkavæðingu og útvistun verkefna hjá fyrirtækjum í eigu borgarinnar í stefnu sinni í Reykjavík.
Flokkurinn segir að ljúka skuli við sölu Malbikunarstöðvarinnar Höfða og jafnframt að skoða megi „sölu á þeim einingum Orkuveitunnar sem starfa á samkeppnismarkaði“ en á meðal dótturfyrirtækja Orkuveitunnar sem starfa á samkeppnismarkaði er raforkusalinn Orka náttúrunnar og Ljósleiðarinn, sem áður hét Gagnaveita Reykjavíkur.
Þá segir flokkurinn að það ætti að skoða „að selja eða bjóða út valda þætti í rekstri Sorpu“ og að nýja sorpbrennslustöð ætti að reisa í samstarfi við einkaaðila. Viðreisn vill einnig „bjóða ætti út stærri hlut í akstri Strætó“ og telur flokkurinn að borgin ætti að selja bílastæðahús eða þá bjóða rekstur þeirra út „til að tryggja samkeppni og stuðla að eðlilegri verðmyndum“. Viðreisn telur einnig að færa mætti innheimtu bílastæðagjalda alfarið í hendur einkaaðila.
Viðreisn vill einnig að matarþjónusta hjá borginni verði boðin út í skrefum og segir einnig „mikil tækifæri felast í auknu samstarfi við einkaaðila sem starfa að velferðarmálum,“ til dæmis hjúkrunarheimili, vinnustaði fatlaðs fólks og nýsköpunarfyrirtæki í velferðartækni.
Starfsfólki fjölgi ekki nema í grunnþjónustu
Í stefnu Viðreisnar segir að stefna skuli að hallalausum rekstri borgarsjóðs frá árinu 2024. Þá segir Viðreisn að skuldaviðmið samstæðu borgarinnar, að meðtalinni Orkuveitu Reykjavíkur, skuli fara undir 150 prósent frá og með árinu 2027.
Til þess að ná þessu fram segir Viðreisn að halda skuli áfram hagræðingarkörfu upp á 1-2 prósent á næsta kjörtímabili, meðal annars með hjálp stafrænnar umbreytingar borgarinnar. Viðreisn segir einnig að það ætti ekki að fjölga starfsfólki borgarinnar nema í grunnþjónustu, og þá í takt við fólksfjölgun.
Flokkurinn vill einnig stefna að því að lækka fasteignaskatt á atvinnuhúsnæði í borginni, niður í 1,55 prósent. Á kjörtímabilinu hefur skatturinn verið lækkaður í skrefum úr 1,65 prósenti niður í 1,60 prósent.
Gjaldfrjálsan sex tíma á leikskóla fyrir 5 ára börn
Í skólamálum segist Viðreisn styðja „valfrelsi í menntakerfinu og fjölbreytt rekstrarform menntastofnana“. Flokkurinn leggur áherslu á að sjálfstætt starfandi grunnskólar fái sama framlag og borgarreknir skólar með hverjum nemanda, gegn því að sjálfstætt starfandi skólarnir innheimti ekki skólagjöld.
Hvað varðar leikskóla segist Viðreisn stefna að því að öll börn fái pláss á leikskóla við 12 mánaða aldur. Viðreisn segist einnig vilja „hefja samtal við ríkið og samband sveitarfélaga“ um að 5 ára börn fái 6 klukkustundir á dag á leikskóla endurgjaldslaust. Þetta segir Viðreisn styðja við jafna þátttöku á vinnumarkaði, treysta skóla leikskólans sem fyrsta skólastigsins og ýta undir félagslega blöndun með því að fækka börnum sem ekki sækja leikskóla.
Viðreisn segir að hlúa þurfi að sjálfstætt starfandi leikskólum og vill flokkurinn einnig að „vinnustaðir geti rekið eigin leikskóla“. Flokkurinn vill styðja við alla leikskóla sem gera tilraunir með sveigjanlegri opnunartíma og sumaropnun, „án þess að það bitni á faglegu starfi með börnunum“.
Kjarninn mun halda áfram að fjalla um framlögð stefnumál flokka í Reykjavík á næstu dögum.