Fulllestaður flutningabíll spænir upp vegum á við um 10 þúsund fólksbíla. Ef farnar yrðu 164 ferðir á dag með vikur frá fyrirhugaðri námu á Mýrdalssandi til Þorlákshafnar, þar af um helming ferðanna með fullan farm, má ætla að slitið á vegunum þessa 170 kílómetra leið jafnist á við, varlega áætlað, milljón fólksbíla. Allan ársins hring.
Um þetta gríðarlega viðbótarálag á vegakerfið, sem veikt er fyrir og myndi þarfnast verulegrar styrkingar á kostnað skattgreiðenda, er m.a. fjallað í umsögn Vegagerðarinnar um umhverfismatsskýrslu um hið áformaða vikurnám við Hafursey á Mýrdalssandi. Skýrslan er unnin af verkfræðistofunni Eflu fyrir framkvæmdaaðilann EP Power Minerals. Vikurinn stendur til að nota sem íblöndunarefni í sement í Evrópu.
Umhverfisstofnun segir í sinni umsögn, sem Kjarninn fjallaði tjum í gær, að ef flutningabílarnir verði sex öxla, þ.e. með tengivagn, slíti hver og einn þeirra fulllestaður burðarlagi á við 20-30 þúsund fólksbíla. Miðað við það blasa við enn skuggalegri tölur: Slit á vegum sem jafnast á við 2-3 milljónir fólksbíla á degi hverjum. Allan ársins hring.
Því gert er ráð fyrir að eftir að fullum afköstum við vikurflutningana verður náð verði farnar 164 ferðir á dag að meðaltali yfir árið eftir þjóðveginum milli námu og hafnar. Í helmingi þeirra ferða yrði um tóman bíl að ræða, en vissulega risastóran og þungan bíl. Flutningabílar færu um leiðina á sjö mínútna fresti eða þar um bil, ýmist tómir eða með vikurfarm. Á vegi sem fer í gegnum fjóra þéttbýlisstaði, vinsæla ferðamannastaði og friðsælar sveitir.
„Aukning þungaumferðar af þeirri stærðargráðu sem hér um ræðir getur haft áhrif á samfélagslega þætti svo sem mengun, hávaða og ferðamennsku auk umferðaröryggis og niðurbrots vega,“ segir í umsögn Vegagerðarinnar um umhverfismatsskýrsluna. Þungaumferð hér á landi sé oft nærri 10 prósentum af heildarumferð á þjóðveginum. Sé gengið út frá því að svo sé á umræddum vegum í dag megi gera ráð fyrir að hlutfall þetta hækki í 15-20 prósent.
Óásættanlegt að umferðin fari í gegnum þéttbýli
Yrði vikurnámið að veruleika með öllum þessum þungaflutningum myndi því umferðin á hringveginum gjörbreytast og verða hættulegri. Ákveðin hætta fylgir ávallt blöndun á þungaumferð og umferð óvarinna vegfarenda þó svo að hraðatakmörk séu virt, bendir Vegagerðin á. Nefnir hún sérstaklega þéttbýlin í Vík, Hvolsvelli, Hellu og Selfossi í þessu sambandi. Til langs tíma telur Vegagerðin „ekki ásættanlegt að svo umfangsmikil þungaumferð sem hér um ræðir fari í gegnum þéttbýli“.
Því hér er ekki tjaldað til einnar nætur, líkt og Umhverfisstofnun kemst að orði í sinni umsögn. Miðað er við að vikurnámið standi í heila öld. Verið er að tala um hundrað ár af margfalt meiri umferð.
Á skipulagsáætlunum er gert ráð fyrir að hringvegurinn verði færður út fyrir þéttbýlið í Vík og á Selfossi og leggur Vegagerðin áherslu á að hringvegur muni í framtíðinni liggja utan við þéttbýlið á Hvolsvelli. Erfiðara er um vik að sögn stofnunarinnar að færa veginn út fyrir þéttbýlið á Hellu. Í Vík og á Selfossi þverar þjóðvegurinn í dag gönguleiðir skólabarna, er bent á í umsögninni.
Þá bendir Vegagerðin á að hringvegurinn austan Markarfljóts er um 6,5-7 metrar að breidd á köflum og því mjórri en veghönnunarreglur fyrir nýja vegi segja fyrir um. Einnig er nefnt að vegurinn um Gatnabrún í nágrenni Víkur geti verið erfiður. Hann liggur í allt að 119 metra hæð yfir sjávarmáli, á honum eru krappar beygjur og um 12 prósent halli. Þar hafa orðið alvarleg slys, m.a. þar sem flutningabílar hafa farið út af vegi.
Myndi fjölga umferðarslysum um 6-9 á ári
Veruleg viðbótarumferð þungra ökutækja á þessum hluta Hringvegarins mun hafa neikvæð áhrif á umferðaröryggi. „Ætla má að sú aukning þungaumferðar sem tilgreind er í umhverfismatsskýrslu geti valdið því að umferðarslysum fjölgi um 6-9 á ári næstu ár. Búast má við samfélagslegum kostnaði við fjölgun slysa sem því nemur,“ segir Vegagerðin í umsögn sinni.
Þungaumferð brýtur, eðli málsins samkvæmt, vegi hraðar niður en umferð fólksbíla. Við samanburð á ökutækjum með tilliti til áhrifa á niðurbrot vega má vísa til þess að niðurbrot vegar af fulllestuðum flutningabíl samsvari niðurbroti af um 10 þúsund fólksbílum. „Ljóst er að sú aukning á þungaumferð sem hér um ræðir mun hafa umtalsverð áhrif á niðurbrot vega og flýta þyrfti bæði viðhaldsaðgerðum, endurbyggingu vega og framkvæmdum sem nú þegar eru á áætlun,“ segir í umsögninni. „Jafnframt geta endurbætur orðið dýrari en gert er ráð fyrir samkvæmt gildandi áætlunum þar sem mögulega þarf að gera auknar kröfur til breiddar burðarvega og slitlaga vegna aukinnar þungaumferðar.“
Samkvæmt reynslu Vegagerðarinnar er æskilegt að endurnýja klæðingarslitlög á stofnvegum á 6-7 ára fresti og malbiksslitlög á 10-14 ára fresti. Þá er miðað við að þungaumferð sé undir 10 prósentum. Aukin þungaumferð muni því valda því að niðurbrot veganna verður hraðara og viðhaldsþörf eykst. Bendir stofnunin á að umfang viðhalds á slitlögum sé háð fjárveitingum hverju sinni.
Samkvæmt samgönguáætlun eru á umræddri leið milli áformaðrar námu og hafnar gert ráð fyrir nokkrum stórum framkvæmdum, m.a. nýrri brú yfir Ölfusá, styrkingum og endurbótum á Þorlákshafnarvegi, kafla frá Selfossi að Skeiðavegamótum og frá Skeiðavegamótum að Hellu.
„Fyrirhuguð aukning í þungaflutningum mun líklega hafa áhrif á ofangreindar áætlanir hvað varðar val á breidd vega, uppbyggingu og val á slitlagi,“ segir Vegagerðin og bendir á að þessir þættir muni valda því að framkvæmdakostnaður verður hærri en nú er gert ráð fyrir. Mögulega þurfi að flýta framkvæmdum á samgönguáætlun og endurbyggja kafla á hringvegi sem ekki eru komnir á áætlun.
Milljarðar í aukin útgjöld ríkisins
Ætla má að kostnaður við endurbyggingu núverandi vegkafla í 9 metra breiðan veg með malbiki geti verið á bilinu 80-200 milljónir króna á hvern kílómetra af vegi. „Áætluð heildarupphæð gæti því numið allt að 7 milljörðum króna miðað við verðlag ársins,“ segir Vegagerðin. Kostnaðarauki vegna fyrirhugaðrar aukinnar þungaumferðar gæti numið 30-50 prósentum af heildarupphæðinni.
Og þá er ótalinn sá aukalegi viðhaldskostnaður sem myndi falla á ríkið.
Kostnaður vegna viðhalds slitlaga á hvern kílómetra er við núverandi aðstæður áætlaður 1-1,5 milljónir á ári. „Æskilegt væri að malbika lengri kafla fyrr en áætlanir gera ráð fyrir gangi áætlanir um þungaflutninga vegna námuvinnslunnar eftir,“ segir Vegagerðin í umsögn sinni. Gera megi ráð fyrir að kostnaður vegna viðhalds á slitlagi aukist þar sem viðhald á malbiki sé kostnaðarsamara en viðhald á klæðningu. „Viðhaldskostnaður á umræddri leið getur orðið 2,5-3,5 milljónir á ári á hvern kílómetra af vegi.“
Vegagerðin minnir á mikilvægi þess að ástand vega verði ásættanlegt fyrir fyrirhugað viðbótarálag sem vikurflutningarnir myndu skapa. „Til að tryggja viðunandi ástand vegakerfisins þyrfti að flýta framkvæmdum sem lagðar hafa verið til á samgönguáætlun, endurbyggja stærri hluta Hringvegar og auka fjármagn til viðhalds.“
Það er niðurstaða Vegagerðarinnar að áhrif framkvæmdarinnar á umferð verði verulega neikvæð en ekki nokkuð neikvæð eins og framkvæmdaaðili heldur fram í matsskýrslu sinni.