Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, var kjörinn formaður Starfsgreinasambandsins á þingi sambandsins sem nú stendur yfir. Tekur hann við formennskunni af Birni Snæbjörnssyni sem hefur verið formaður sambandsins í tíu ár.
Vilhjálmur hlaut 53,85 prósent atkvæða eða 70 af þeim 130 atkvæðum sem greidd voru. Mótframbjóðandi hann, Þórarinn G. Sverrisson, formaður stéttarfélagsins Öldunnar, fékk 60 atkvæði, eða 46,15 prósent greiddra atkvæða.
Kjarasamningsviðræður eru stærsta verkefnið fram undan að mati Vilhjálms. Samningar verða lausir í október. Í samtali við Vísi segir hann að það sé „samfélaginu til ævarandi skammar að lágmarkslaun dugi ekki fyrir nauðsynjum.“
Töluverðar deilur hafa verið innan verkalýðshreyfingarinnar undanfarið. Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, hefur til að mynda fullyrt að tillaga Vilhjálms og Ragnars Þórs Ingólfssonar formanns VR, um að draga tímabundið úr mótframlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóði í upphafi kórónuveirufaraldursins, hefði kostað launafólk tíu milljarða króna á hverjum ársfjórðungi og skilað samsvarandi upphæð til atvinnurekenda.
Bæði Vilhjálmur og Ragnar Þór sögðu sig úr miðstjórn ASÍ í vetrarlok 2020 vegna deilna um hvað skyldi gera til að bregðast við áhrifum veirufaraldursins, en báðir voru þeir tilbúnir að fallast á að að mótframlög atvinnurekenda í lífeyrissjóði yrðu lækkuð úr 11,5 prósentum niður í 8 prósent, tímabundið.
Vilhjálmur sagði í sagði í samtali við Vísi eftir að niðurstöður formannskjörsins lágu fyrir að barátta í verkalýshreyfingunni sé nauðsynleg. „Auðvitað þurfum við svo að einhenda okkur í það, þegar við höfum komist að niðurstöðu um það hvaða leiðir við viljum fara, þurfum við að taka höndum saman og fara sem ein öflug stór heild með hagsmuni verkafólks að leiðarljósi.“