Ríkisstjórnin skuldbindur sig einnig, í samvinnu vð Samband íslenskra sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins, til að skapa bætt skilyrði fyrir uppbyggingu á húsnæðismarkaði. Þetta er eitt af því sem nefnt er sérstaklega í fréttatilkynningu frá ríkisstjórninni vegna aðgerða sem miða að því að liðka fyrir gerð kjarasamninga á vinnumarkaði.
Meðal þess sem áformað er að gera, er að byggja 2.300 félagslegar íbúðir á tímabilinu 2016 til 2019. Með því er stuðlað að því að fjölga ódýrum og litlum íbúðum, einkum fyrir þá sem lágar tekjur hafa og teljast til efnaminni leigjenda. Þá verður „skattlagningu breytt í þeim tilgangi að lækka leiguverð og auka framboð á leigumarkaði“ segir í tilkynningu frá ríkisstjórninni. Þá er einnig frá því greint að komið verði sérstaklega til móts við þá sem kaupa sína fyrstu íbúð, en vísað er sérstaklega til þess að fólk geti nýtt séreignasparnað sinn í þeim tilgangi að liðka fyrir viðskiptum. Það úrræði er nú þegar fyrir hendi, og var hluti af leiðréttingunni svonefndu þar sem heimilt var að ráðstafa séreignasparnaði sínum inn á fasteignalán sín.
Félagslega leigukerfið verður fjármagnað með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga og með beinum vaxtaniðurgreiðslum ríkisins sem nema núvirt 30 prósent af stofnkostnaði, að því er segir í tilkynningu ríkisstjórnarinnar. „Slíkt framlag ríkis og sveitarfélga ætti að jafnaði að leiða til þess að leiga einstaklings með lágar tekjur nemi ekki hærra hlutfalli en 20 til 25 prósent af tekjum,“ segir í tilkynningunni. Ekki liggur fyrir í nákvæmisatriðum hvernig þetta verður útfært, enda þurfa sveitarfélög að samþykkja uppleggið fyrir sitt leyti, til þess að það geti orðið að veruleika.
Þá kemur fram að unnið verði að framangreindum markmiðum í samráði ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka aðila á vinnumarkaði með „hliðsjón af fyrirliggjandi vinnu stjórnvalda við umbætur á húsnæðismarkaði og hugmyndum sem komið hafa upp í samráðshópnum“ eins og orðrétt segir í tilkynningu ríkisstjórnarinnar.
Bankarnir, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn, hafa að mestu veitingu húsnæðislána á sinni könnu, en sameiginlega markaðshlutdeild þeirra hefur verið um eða yfir 90 prósent undanfarin misseri. Hámarkslán til kaupa á húsnæði er 85 prósent af kaupverði hjá bönkunum, en hjá Íbúðalánasjóði, sem hefur litla sem enga markaðshlutdeild á lánamarkaði þessi misserin, er lánað að hámarki 80 prósent af kaupverði.
Spár gera ráð fyrir töluverðri hækkun á fasteignaverði á næstu þremur árum, eða um 20 til 25 prósent að nafnvirði, samkvæmt spám.