Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, hefur lagt fram breytingartillögu við frumvarp til laga um þjóðkirkjuna þar sem hann vill bæta við ákvæði um að biskup Íslands verði áfram embættismaður, en ekki starfsmaður, líkt og frumvarpið gerir ráð fyrir.
Í breytingartillögu Birgis er lagt til að eftirfarandi setningu verði bætt við 10. grein frumvarpsins: „Biskup Íslands gegnir æðsta embætti þjóðkirkjunnar og fer með yfirstjórn hennar eftir því sem kirkjuþing mælir nánar fyrir um.“
Í greinargerð sem fylgir breytingartillögunni segir Birgir að embætti biskups sé elsta embætti Íslands sem haldi hefur frá upphafi. „Saga og hefðir eru dýrmætar eignir sérhvers samfélags, rétt eins og menning þess. Hugtakið embætti í kirkjunni hefur sérstaka merkingu sem byggist á guðfræði hennar. Almennt séð er hugtakið í kirkjulegu samhengi fyrst og fremst tengt þjónustu, ábyrgð, umsjón og forystu, rétt eins og annars staðar þar sem það kemur fyrir og er að því leyti ótengt kirkjunni. Starf er aftur á móti fyrst og fremst framkvæmd verkefna sem aðrir fela starfsfólki að sinna.“
Vill auka veg kristinfræðikennslu í grunnskólum
Birgir hefur beitt sér umtalsvert fyrir aukinni fyrirferð kristni í samfélaginu síðan að hann var kosinn á þing 2017. Hann var meðal annars fyrsti flutningsmaður frumvarps um að auka veg kristinfræðikennslu í grunnskólum landsins, sem allir þingmenn Miðflokksins skrifuðu sig á auk sjálfstæðismannanna Brynjars Níelssonar og Ásmundar Friðrikssonar.
Verði frumvarpið að lögum yrði kennslan eins og var fyrir gildistöku grunnskólalaga frá árinu 2008, sem felldu hana niður. Þingmennirnir vilja að heiti námsgreinarinnar trúarbragðafræði verði breytt í kristinfræði og trúarbragðafræði og telja að nám á því sviði sé mikilvægt til skilnings, umburðarlyndis og víðsýni. „Nemendur verða að vera búnir undir að lifa í fjölbreyttu lýðræðislegu samfélagi og takast á við margvísleg úrlausnarefni sem þeirra bíða í breyttum heimi,“ segir í greinargerð sem fylgir frumvarpinu.
Á meðal þeirra raka sem þingmennirnir nota til að rökstyðja þörfina fyrir aukna áherslu á kristinfræðikennslu í skólum er að hér á landi fari innflytjendum sem komi frá ólíkum menningarheimum fjölgandi. Það auki að mati þingmannanna kröfur um umburðarlyndi og gagnkvæma virðingu. „Með vaxandi fjölgun íslenskra ríkisborgara sem eru af erlendu bergi brotnir eykst nauðsyn þess að brjóta niður múra á milli menningarheilda og trúarhópa og auka þar með umburðarlyndi. Slíkt er best gert með sérstakri fræðslu um ríkjandi trú landsins, kristni, og almennri fræðslu um trúarbrögð heimsins og þar með menningu og siði þjóða og þjóðarbrota. Til að slík fræðsla verði að gagni og nái að stuðla að alhliða þroska nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi þarf hún að ná til allra.“