Píratar hafa krafist þess að Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra, Stefán Eiríksson fráfarandi lögreglustjóri og Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari verði kölluð fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis vegna meintra afskipta ráðherra af lögreglurannsókn á lekamálinu svokallaða. Ekki liggur fyrir hvort Pírötum verður að ósk sinni, en það mun ráðast eftir næsta fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem enn hefur ekki verið dagsettur.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata og annar varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, staðfestir í samtali við Kjarnann að hún muni krefjast þess á næsta fundi nefndarinnar að fundir með þremenningum verði opnir almenningi og fjölmiðlum, ef af þeim verður.
Fastanefndum Alþingis er í sjálfsvald sett hvort nefndarfundir eru opnir almenningi og þá fjölmiðlum sömuleiðis. Síðan árið 2008 hafa verið haldnir fjölmargir opnir nefndarfundir, eða frá því að störfum Alþingis var breytt það ár.
Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, segir það mjög vel koma til greina að fundir nefndarinnar með þremenningunum verði opnir almenningi. En aðrir aðilar séu með málið til umfjöllunar, embætti ríkissaksóknara og embætti umboðsmanns Alþingis auk lögreglunnar og hljóti málsmeðferð í stjórnskipunar- og efitrlitsnenfnd Alþingis að taka mið af framvindunni hjá þeim. Hann vill að öðru leyti ekki tjá sig um lekamálið.
Meirihluti viðkomandi þingnefndar þarf að samþykkja að þingfundir séu opnir almenningi. Í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis eru níu nefndarmenn. Auk Ögmundar og Birgittu eiga sæti í nefndinni; Brynjar Níelsson, sem jafnframt er varaformaður nefndarinnar, og Pétur H. Blöndal þingmenn Sjálfstæðisflokks, Karl Garðarsson, Sigrún Magnúsdóttir og Willum Þór Þórsson frá Framsóknarflokki, og Helgi Hjörvar og Valgerður Bjarnadóttir þingmenn Samfylkingarinnar.