Ríkisstjórn El Salvador mun hefjast handa við að byggja nýja borg í landinu á næsta ári sem verður laus við alla tekju- og eignarskatta og verður kennd við rafmyntina Bitcoin. Þessu lýsti forseti landsins, Nayib Bukele, yfir á laugardaginn á hátíð sem helguð var rafmyntinni.
Hátíðin, sem haldin var í tilefni þess að tveir mánuðir séu liðnir síðan að Bitcoin varð að þjóðargjaldmiðli El Salvador, stóð yfir alla síðustu vikuna. Á lokakvöldi hennar kynnti Bukele frá áformum sínum, sem hann segir munu verða fjármögnuð með útboði ríkisskuldabréfa að andvirði eins milljarðs Bandaríkjadala. Samkvæmt ríkisstjórn landsins munu framkvæmdir hefjast 60 dögum eftir útboðið.
Samkvæmt umfjöllun Financial Times um málið mun borgin og innviðir hennar einungis verða fjármagnaðir með umræddu skuldabréfaútboði, auk söluskatta. Tekjur og eignir borgarbúa muni hins vegar vera algjörlega skattfrjálsar.
Borgin mun vera staðsett í austurhluta landsins, nálægt eldfjallinu Conchagua. Samkvæmt Bukele mun eldfjallið verða orkugjafi fyrir borgina, auk þess sem hægt verði að nota eldfjallaorkuna í rafmyntavinnslu.
Vinsæll en með einræðistilburði
Bukele, sem er fertugur og fyrrum borgarstjóri höfuðborgarinnar San Salvador, tók við sem forseti El Salvador fyrir tveimur árum síðan. Hann nýtur gríðarlegra vinsælda í landinu ef marka má skoðanakannanir, en þær sýna að hann hefur stuðning rúmlega 80 prósenta landsmanna.
Hins vegar greinir Financial Times frá andlýðræðislegum tilburðum forsetans, en hann hefur styrkt völdin sín með því að reka alla dómara sem eru yfir sextugu og með því að skipta út fimm dómurum í hæstarétti landsins.