Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur lagt fram skriflega fyrirspurn til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, þar sem hann spyr um greiðslur til LOGOS lögmannsþjónustu vegna vinnu fyrir Bankasýslu ríkisins.
Jóhann Páll vill meðal annars fá að vita hvað Bankasýslan, sem heyrir undir ráðuneyti Bjarna, greiddi fyrir vinnu við lögfræðiálit um jafnræði við sölumeðferð eignarhluta í Íslandsbanka sem dagsett er 11. maí 2022 og hvort LOGOS hafi verið látið meta hvort sölumeðferð á 22,5 prósent eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka stæðist reglur um jafnræði áður en salan fór fram. Þá vill þingmaðurinn fá að vita hvers vegna LOGOS, sem var innlendur lögfræðilegur ráðgjafi Bankasýslunnar í söluferlinu, hafi verið falið að leggja mat á lögmæti sölumeðferðarinnar sem stofan ráðlagði Bankasýslunni um og hvers vegna ekki hafi verið gætt jafnræðis gagnvart fjölmiðlum þegar lögfræðiálitið var birt 18. maí síðastliðinn. Álitið var sent á fjölmiðla klukkan sex að morgni en hafði þá þegar birst á forsíðu Morgunblaðsins auk þess sem ítarleg frétt birtist á Innherja á Vísi klukkan 06:43.
Að lokum vill Jóhann Páll fá yfirlit yfir allar greiðslur fjármála- og efnahagsráðuneytisins annars vegar og Bankasýslu ríkisins hins vegar til LOGOS frá árinu 2017 og fram til dagsins í dag.
Ráðgjafinn komst að þeirri niðurstöðu að jafnræði hefði ríkt
Í minnisblaðinu sem LOGOS vann fyrir Bankasýslu ríkisins var komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðun um takmarka þátttöku í útboði á 22,5 prósenta hlut íslenskra ríkisins við svokallaða hæfa fjárfesta án þess að gerð yrði krafa um lágmarkstilboð hafi ekki falið í sér brot gegn jafnræðisreglu. Í útboðinu var hluturinn seldur til alls 207 fjárfesta undir markaðsvirði.
Þá telur lögmannsstofan að fullnægjandi ráðstafanir hafi verið gerðar af hálfu Bankasýslunnar til að tryggja jafnt aðgengi hæfra fjárfesta að útboðinu í lagalegu tilliti og að ákvörðun hennar um að selja ekki hlut til Landsbankans og Kviku banka, sem gerðu tilboð fyrir hönd veltubóka sinna, hafi stuðst við málefnaleg sjónarmið og hafi einnig verið í samræmi við jafnræðisreglu.
LOGOS vann einnig minnisblað fyrir Bankasýslu ríkisins snemma í apríl um hvort að birta ætti lista yfir kaupendur að hlutnum. Þá var það niðurstaða LOGOS að slíkt væri óvarlegt. Fjármála- og efnahagsráðherra lagði hins vegar sjálfstætt mat á birtingu listans og komst að annarri niðurstöðu. Í tilkynningu sem birtist á vef stjórnarráðsins þegar listinn yfir þá sem fengu að kaupa í Íslandsbanka var birtur sagði að ráðuneytið hefði metið málið þannig að upplýsingar um viðskipti á milli ríkissjóðs og fjárfesta falli „ekki undir bankaleynd og með hliðsjón af mikilvægi þess að gagnsæi ríki um ráðstöfun opinberra hagsmuna hefur ráðherra ákveðið að birta yfirlitið.“
Gagnrýnendur segja söluna ekki standast lög
Mikil gagnrýni hefur verið á söluna á hlutum ríkisins í Íslandsbanka, meðal annars út frá þeim forsendum að sölufyrirkomulagið hafi ekki staðist þá kröfu um jafnræði sem gerð er í lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.
Ein þeirra sem hefur sett fram slíka gagnrýni er Sigríður Benediktsdóttir, hagfræðingur við Yale háskóla og fyrrverandi framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands, sem sagði við Kjarnann í mars að þegar takmarkaður hópur fjárfesta sé valinn til að kaupa magn bréfa sem sé svo lítið að það hefði ekki hreyft við markaðsvirði Íslandsbanka ef þeir hefur keypt á eftirmarkaði þá brjóti það í bága við 3. grein og mögulega einnig 2. grein umræddra laga. „Á grundvelli þess þarf einhver að axla ábyrgð fyrir að hafa heimilað þetta og auk þess þarf að rifta þessum viðskiptum við einstaklinga og ehf., enda eru þau ekki í samræmi við lög og kaupendum og miðlurum hefði mátt vera það ljóst sem og því stjórnvaldi sem heimilaði þetta.“ Sigríður sat í rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið sem skilaði af sér umfangsmikilli skýrslu í apríl 2010. Lögin um sölumeðferð á hlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum horfa meðal annars til ábendinga rannsóknarnefndarinnar.
Þriðja grein laganna fjallar um meginreglur við sölumeðferð. Í greininni segir: „Þegar ákvörðun er tekin um undirbúning og framkvæmd sölumeðferðar eignarhluta skal áhersla lögð á opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignarhluti. Þess skal gætt að skilyrði þau sem tilboðsgjöfum eru sett séu sanngjörn og að þeir njóti jafnræðis. Þá skal við sölu kappkosta að efla virka og eðlilega samkeppni á fjármálamarkaði.“
Segist enn sannfærðari um lögbrot
Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, er á meðal annarra sem hafa sett fram sambærilega gagnrýni og Sigríður. Hún hefur meðal annars, í grein sem hún birti á Vísi í byrjun maí með fyrirsögninni „Afgerandi vísbendingar um lögbrot“, bent á að engin ástæða hafi verið fyrir því að selja litlum fjárfestum hlut ríkisins í banka með afslætti, en minnsti fjárfestirinn keypti fyrir rúma milljón króna og alls 59 aðilar fengu að kaupa fyrir minna 30 milljónir króna.
Eftir að minnisblaðið birtist sagðist Kristrún enn sannfærðari en áður um að lögbrot hafi átt sér stað við bankasöluna. Hún sagði í stöðuuppfærslu á Facebook augljóst að minnisblaðið væri viðbragð við grein hennar frá því í byrjun maí. „Minnisblaðið á að svara röksemdarfærslunni sem birtist í grein minni um að jafnræði hafi verið brotið við söluna á bankanum. Við lestur þess kemur hins vegar í ljós að engar nýjar upplýsingar er þar að finna. Engin rök sem hafa ekki nú þegar heyrst frá Bankasýslunni og fjármálaráðherra. Aðeins rök sem einmitt þóttu ótrúverðug og ég rakti í greininni.“
Hún sagði það líka athyglisvert að Bankasýslan, sem sé opinber stofnun á fjárlögum sem hafi starfsmenn, hafi séð ástæðu til að leita til utanaðkomandi lögfræðings til að vinna minnisblað til að svara grein hennar. „Þar sem engar nýjar upplýsingar eða röksemdarfærslur koma fram. Margir hljóta að spyrja sig hvað var greitt fyrir þessa þjónustu. Ef mönnum er alvara með að fara í saumana á þessu máli þá er það ekki gert með aðkeyptum lögfræðiálitum sem bæta engu við málflutninginn og er komið með forgangi til ákveðinna fjölmiðla til forsíðubirtingar.“
Salan á hlut ríkisins í Íslandsbanka er nú til skoðunar hjá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands auk þess sem Ríkisendurskoðun er að framkvæma stjórnsýsluúttekt á ferlinu.