Sá rekstrarkostnaður ríkissjóðs sem þarf að fjármagna á hverju ári vegna þeirra tillagna sem Samfylkingin vill innleiða eftir kosningar er um 25 milljarðar króna. Stærstu liðirnir eru stuðningurinn við barnafólk, öryrkja og eldra fólk. Beinn kostnaður af þessum tillögum þegar þær eru að fullu komnar til framkvæmda er um 20 milljarðar króna á ári hverju. Til viðbótar þurfi að auka fjármagn til heilbrigðisþjónustunnar.
Til að mæta þessu ætlar Samfylkingin að auka tekjur ríkissjóðs um sömu upphæð. Að mati sérfræðinga hennar mun stóreignaskattur, á hreinar eignir yfir 200 milljónir króna, sem flokkurinn hyggst leggja á skila hátt í 15 milljörðum króna á ári í viðbótartekjur fyrir ríkissjóð.
Þetta kemur fram í svari flokksins við fyrirspurn Kjarnans um fjármögnun á kosningastefnu hans, sem kynnt var í vikunni.
Ekkert með eignaupptöku að gera
Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur og oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, segir að stóreignaskatturinn sé leið til að nútímavæða skattkerfið fyrir komandi kynslóðir. „Ráðstöfunartekjur ungs fólks hafa vaxið mun hægar hér landi en þeirra sem eldri eru. Ef ráðstöfunartekjur eldri kynslóða vaxa hraðar en þeirra sem yngri eru fer það að skipta meira og meira máli hverjir foreldrar þínir eru. Upphafseignastaðan fer að skilgreina okkur. Foreldrar ungmenna ganga á eigin sparnað til að styðja lengur við börnin sín til að tryggja að þau komist almennilega af stað. Í því felast líka auknar fjárhagsáhyggjur þeirra sem eldri eru. Það er hættuleg þróun ef hagur einstaklings verður í auknum mæli háður hag foreldra.“
Þá ætlar Samfylkingin að sækja samtals um tíu milljarða króna á ári annars vegar með álagi á veiðigjald sem leggst á tuttugu stærstu útgerðir landsins og hins vegar með tekjum sem hljótast af auknu skattaeftirliti sem dregur úr skattaundanskotum. Með þessum nýju tekjupóstum telur flokkurinn að rekstraráætlunum hans sé fullmætt.
Á árinu 2020 voru aðrar tekjur en fjárveitingar úr ríkissjóði hjá Skattinum, yfirskattanefnd og Skattrannsóknarstjóra samtals 443 milljónir króna samkvæmt ríkisreikningi. Síðastnefnd stofnunin var ekki með neinar aðrar tekjur en fjárveitingar úr ríkissjóði. Veiðigjöld á síðasta ári voru tæplega 4,9 milljarðar króna. Því þyrftu tekjur vegna veiðigjalda og skattaeftirlits að næstum tvöfaldast til að rekstraráætlun Samfylkingarinnar sé fullfjármögnuð.
Fjárfestingakostnaður sem mun auka tekjur
Annar kostnaður sem hlýst af innleiðingu stefnumála Samfylkingarinnar flokkar flokkurinn sem fjárfestingakostnað, ekki rekstrarkostnað, þar sem um innviðafjárfestingu sé að ræða. Sá kostnaður verði fjármagnaður með lántöku en muni með tíð og tíma skila aukinni tekjusköpun og þannig vinna hratt á skuldahlutfalli ríkissjóðs. „Þetta er í fullkomnu samræmi við ráðleggingar allra alþjóðlegra stofnanna um bestu leiðina til að bæði vaxa út úr COVID ástandinu og til að byggja undir framtíðarhagvöxt. Við verðum að losa okkur við gamlar kreddur um hver gerir hvað og beita heilbrigðri skynsemi í hagstjórn. Samfylkingin er óhrædd við að leggja fram atvinnustefnu sem krefst fjárfestingar í nýjum innviðum á mörgum sviðum,“ segir Kristrún.
Kristrún segir að slíkar aðgerðir séu til þess fallnar að draga úr fasteignaverðshækkunum og þar með draga úr þrýstingi á laun og verðlag. „Langmesti þrýstingurinn á aukningu rekstrarútgjalda ríkissjóðs snýr að launum og verðlagi. Ef við náum að draga úr verðbólguþrýstingi í hagkerfinu með skynsamlegum opinberum fjárfestingum skilar það sér beint í rekstrarsparnaði ríkissjóðs. Fyrir utan að skapa aukinn stöðugleika í hagkerfinu.“
Fjárfesta í framtíðartækifærum
Í loftslagsmálum boðar Samfylkingin „nýja og miklu metnaðarfyllri“ aðgerðaáætlun, auk þess sem lagt er til að markmið um að minnsta kosti 60 prósenta samdrátt í losun Íslands fyrir árið 2030 verði fest í lög.
Að sögn Kristrúnar eru þessar aðgerðir hrein fjárfesting í tækifærum. „Ríkið eyðir tugum milljarða króna á ári hverju í menntakerfið, 30 milljörðum króna í háskólastigið sem dæmi. Við höfum komið okkur saman um að fjármagna sem samfélag menntun fólks í hátt í 20 ár af ævi fólks. Þetta er gríðarlegur kostnaður. Og á meðan fólk er í námi er það auk þess ekki á vinnumarkaði. En af þessu hlýst þekking sem nýtist til tekjusköpunar, þó þekking hafi vissulega gildi í sjálfu sér. Vandinn hér á landi er hins vegar sá að ekki nægilega mikið af störfum við hæfi hafa skapast hér. Í þessu felst gríðarleg sóun. Ein besta nýtingin á þeim rekstrarfjármunum sem varið er í menntakerfið er að fjárfesta í framtíðartækifærum fyrir ungt fólk, að byggja hér upp vistvænt samfélag sem býður upp á hátæknistörf, störf í þekkingariðnaði þar sem góð laun eru greidd.
Fjárfestingar í loftslagsvænni atvinnusköpun er þannig til þess fallin að auka framleiðni og nýta betur fjármagn sem nú þegar er veitt í rekstur ríkisins.“