Lilja Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins sem situr í ráðherranefnd um efnahagsmál, segir að hún vilji mögulega láta leggja á hvalrekaskatt. „Ef það er ofsagróði eða ofurhagnaður hjá einhverjum aðilum, þá eigum við að gera það. Ég er líka á þeirri skoðun að þetta ætti að eiga sér stað varðandi sjávarútveginn. Þar sem við sáum ofurhagnað í einhverjum greinum þá á að skattleggja það.“
Þetta sagði Lilja í útvarpsþættinum Sprengisandi í morgun. Áður hafði Lilja greint frá því að hún vildi hækka bankaskatt í ljósi þess að stóru bankarnir þrír: Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki högnuðust um 81,2 milljarða króna á síðasta ári og um 111 milljarða króna á eins og hálfs árs tímabili á tímum þar sem heimsfaraldur geisaði. Seðlabanki Íslands og ríkisstjórnin lögðust í ýmsar örvunaraðgerðir vegna faraldursins. Þær aðgerðir mynduðu undirstöðuna fyrir hagnað bankanna þriggja. Lilja sagðist hissa á því hvað sumir væru viðkvæmir fyrir umræðu um aukna skattlagningu þegar verið væri að tala um svona mikinn hagnað. Ef við setjum það í eitthvað samhengi þá væri hægt að reka alla framhaldsskóla landsins í þrjú ár. Það væri hægt að reka alla menninguna í tíu ár. Við erum að tala um þannig fjárhæðir.“
Sjávarútvegurinn hefur líka skilað gríðarlegum hagnaði á undanförnum árum. Samtals hagnaðist sjávarútvegurinn um 468 milljarða króna frá byrjun árs 2009 og til loka árs 2020. Frá árinu 2009 hafa sjávarútvegsfyrirtæki greitt 126,3 milljarðar króna í arð til eigenda sinna. Auk þess sátu eftir 325 milljarðar króna í eigið fé í útgerðarfyrirtækjunum um síðustu áramót. Það jókst um 28 milljarða króna í fyrra þrátt fyrir metarðgreiðslur. Hagur sjávarútvegsfyrirtækja í heild vænkaðist því um næstum 50 milljarða króna á síðasta ári.
Búin að tala við formanninn og með stuðning þingflokksins
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttir lækkaði bæði veiðigjöld og bankaskatt á síðasta kjörtímabili. Enn sem komið er hefur enginn ráðherra í ríkisstjórninni stigið fram og lýst opinberlega stuðningi við tillögur Lilju um að hækka bankaskatt eða leggja hvalrekaskatt á þá sem hagnast með af gengi banka og á sjávarútvegs.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði við vef Fréttablaðsins í gær að hann væri alfarið á móti hugmyndinni um bankaskatt.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra minntist ekkert á bankaskatt þegar rætt var við hana um hlutverk bankanna í enduruppbyggingu hérlendis eftir faraldur í hádegisfréttum RÚV á föstudag. Enn fremur sagði við vef Fréttablaðsins sama dag að Lilja hefði ekki rætt hugmyndir sínar um bankaskatt í ríkisstjórn.
Kristján Kristjánsson, umsjónarmaður Sprengisands, þráspurði Lilju í morgun hvort hún hefði stuðning innan ríkisstjórnar við áform sín. Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, var einnig gestur þáttarins. Hún sagði yfirlýsingar Lilju frábærar og að gott væri að áhrifamanneskja í ríkisstjórn talaði með þessum hætti. Kristrún vildi hins vegar sjá aðgerðir strax og vildi, líkt og Kristján, fá að vita hvort þær væru á teikniborðinu.
Aðspurð um hvar Vinstri græn og forsætisráðherrann stæði í málinu svaraði Lilja því ekki með skýrum hætti. Hún svaraði því heldur ekki hvort hækkun bankaskatts eða hvalrekaskattur hefði verið ræddur í ráðherranefnd um efnahagsmál. Lilja sagðist hins vegar vera búin að tala við formann Framsóknarflokksins, Sigurð Inga Jóhannsson, um málið og ræða það við allan þingflokkinn. „Allur þingflokkur Framsóknarflokksins styður þessa nálgun.“
Hún sagðist ætla að sækja stuðning við tillögurnar í ríkisstjórn. „Ég er í stjórnmálum til þess að breyta rétt. Ég tel að þegar það er ofurhagnaður einhvers staðar þá eigi að skattleggja hann.“