ÁTVR horfir til þess að opna nýja Vínbúð að Fiskislóð 10 á Granda. Þetta kemur fram á vef Fréttablaðsins í dag, en þar er haft eftir Sigrúnu Ósk Sigurðardóttur aðstoðarforstjóra ÁTVR að húsnæðið á Fiskislóð hafi verið það eina sem stóðst þær kröfur sem settar voru fram af hálfu ríkisfyrirtækisins.
Greint var frá því undir lok októbermánaðar að ÁTVR leitaði eftir nýju verslunarplássi undir nýja verslun í miðborg Reykjavíkur og sæi fyrir sér að hætta mögulega rekstri Vínbúðarinnar í Austurstræti. Fyrirætlanir fyrirtækisins, og skilyrði þess um næg bílastæði fyrir viðskiptavini, vöktu blendin viðbrögð.
Var það ekki í fyrsta sinn sem ÁTVR fékk á sig gagnrýni fyrir að færa verslanir sínar á staði þar sem handhægara er að koma á eigin bíl en gangandi eða hjólandi. Verslun ÁTVR í Austurstræti er sennilega sú eina á höfuðborgarsvæðinu þar sem fleiri viðskiptavinir koma gangandi en á bílnum.
Krafa um nóg af bílastæðum
Samkvæmt útboðslýsingunni sem sett var fram voru skilyrði ÁTVR þau að húsnæðið væri á vel skilgreindu verslunarsvæði, lægi við almenningssamgöngum, umferð að og frá því væri greið, það væri á jarðhæð, byði upp á að vöruhurð opnaðist beint á bak- eða hliðarsvæði, hefði góða aðkomu og næg bílastæði fyrir viðskiptavini og starfsfólk, helst um tuttugu slík sem mætti sérmerkja Vínbúðinni, gott aðgengi fyrir hreyfihamlaða og góða aðkomu fyrir flutningabíla, auk annars.
Fyrr í þessum mánuði var greint frá því að fjögur húsnæði hefðu verið boðin fram í útboðinu, en auk húsnæðisins við Fiskislóð sem áður hýsti útibú Íslandsbanka voru það Hallgerðargata 19-23 í Laugarnesi, Hringbraut 119-121 og Hallveigarstígur 1. Húsnæðið við Fiskislóð var það eina sem uppfyllti kröfur ÁTVR.
Ekki búið að taka ákvörðun um lokun Austurstrætis
Í frétt Fréttablaðsins er haft eftir Sigrúnu Ósk að Ríkiskaupum hafi verið falið að hafa samband við bjóðendur og kynna niðurstöðuna. Næsta skref sé svo að fara í viðræður við eigendur húsnæðisins að Fiskislóð 10 og sjá hvort samningar náist.
„Það verður ekki fyrr en niðurstaða liggur fyrir úr þeim viðræðum að ákvörðun verður tekin um opnun nýrrar Vínbúðar og þá hugsanlega lokun á Vínbúðinni í Austurstræti,“ er haft eftir Sigrúnu á vef Fréttablaðsins.