Skipulagsstofnun tekur undir með Náttúrufræðistofnun Íslands og hefur ákveðið að 9,9 MW vindorkuver Orkusölunnar sem áformað er við Lagarfoss í Múlaþingi skuli fara í umhverfismat enda sé framkvæmdin líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Stærð hins áformaða vers, sem myndi telja tvær 160 metra háar vindmyllur, gerir það að verkum að framkvæmdin fór ekki sjálfkrafa í umhverfismat samkvæmt lögum. Til þess hefði verið þurft að vera 1 prósent meira að afli eða 10 MW. Áformin eru engu að síður tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar.
Við mat á því hvort tilkynningarskyld framkvæmd skuli háð umhverfismati skal taka mið af eðli framkvæmdar, svo sem stærð og umfangi hennar og samlegðar með öðrum framkvæmdum. Einnig skal taka mið af staðsetningu framkvæmdar og hversu viðkvæm þau svæði eru sem líklegt er að framkvæmd hafi áhrif á. Einnig ber að líta til álagsþols náttúrunnar, svo sem með tilliti til votlendissvæða, landslagsheilda og kjörlendis dýra.
Undanfarin misseri hefur Orkusalan, sem er alfarið í eigu opinbera hlutafélagsins Rarik, kannað möguleikann á nýtingu vindorku innan Fljótsdalshéraðs. Fyrirtækið er langt í frá það eina sem er í svipuðum pælingum því tugir vindorkuvera hafa verið rissaðir upp hér og hvar á landinu af nokkrum fjölda fyrirtækja.
„Svæði hafa verið skoðuð og kortlögð með tilliti til margra ólíkra áhrifaþátta og hefur Orkusalan nú hug á að setja upp tvær vindmyllur við Lagarfossvirkjun sem framleiða allt að 9,9 MW,“ sagði í greinargerð fyrirtækisins til Skipulagsstofnunar í haust. Markmið framkvæmdarinnar væri að öðlast reynslu og byggja upp þekkingu á rekstri vindmylla.
Myllurnar yrðu reistar á athafnasvæði Orkusölunnar við Lagarfossvirkjun í Lagarfljóti í um 2-300 metra fjarlægð austan við Lagarfossveg. Undirstöður mastranna yrðu líklega steyptar og allt að 25 metrar í þvermál. Vinnuplan við hvora vindmyllu yrði allt að 3.500 fermetrar.
Að sögn framkvæmdaraðila er vindorkan talin henta vel með vatnsaflsvirkjunum og mikill kostur sé að hafa vatnsaflið til að vinna með vindorkunni. Stutt sé í aðveitustöð svo að tengingar við dreifikerfið eru auðveldar í framkvæmd fyrir Orkusöluna. Jákvæð samlegðaráhrif séu með Lagarfossstöð og fyrirhugaðri vindorkuuppbyggingu.
Vindmyllunum verður að öllum líkindum landað á Reyðarfirði og þaðan fluttar landleiðina að Lagarfossi.
„Nú er það svo,“ sagði í umsögn Orkustofnunar um greinargerð Orkusölunnar, að vindorkuver, 10 MW eða stærri, eru alltaf háð umhverfismati, ásamt því að falla undir lög um rammaáætlun. Veltir stofnunin því upp hvort framkvæmdaaðili hafi metið kosti og galla minni eða aukinnar framleiðslugetu virkjunarkostarins. Telur hún nauðsynlegt að framkvæmdaaðilar rökstyðji betur hvernig og hvers vegna niðurstaðan hafi verið 9,9 MW virkjun.
Fyrirhuguð framkvæmd er innan svæðis sem er skilgreint sem mikilvægt fuglasvæði og hefur verið tilnefnt á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár vegna vistgerða á landi, fugla og sela. Þá er það einnig innan svæðis sem þegar er á náttúruminjaskrá.
Víðáttumikla blá, en flóar eru gjarnan nefndir blár á Austurlandi, er að finna í grennd við Lagarfossvirkjun. Blárnar á þessum slóðum eru flokkaðar sem tjarnarstararflóavist, verndargildi þeirra er mjög hátt og er vistgerðin á lista Bernarsamningsins yfir vistgerðir sem þarfnast verndar. Náttúrufræðistofnun bendir á í umsögn sinni að önnur vindmyllan myndi að líkindum standa í votlendi og því raska syðsta hluta tjarnarstararbláarinnar. „Þrátt fyrir að vindmyllustæðin tvö séu í grennd við Lagarfossvirkjun og landi hafi verið raskað þar í grennd er líklegt að stæðin muni raska heillegum vistkerfum með mjög hátt verndargildi og umtalsverðu votlendi.“
Vindmyllur geta haft verulega neikvæð áhrif á fuglalíf og telur Náttúrufræðistofnun „afar brýnt“ að vanda staðarval vel með tilliti til þess. Í niðurstöðu greinargerðar Orkusölunnar eru áhrif á fuglalíf metin óveruleg og er þar sérstaklega horft til niðurstaðna mælinga við Búrfellslund. Hins vegar minnir Náttúrufræðistofnun á, einkennist það svæði af tegundafæð og lágum þéttleika varpfugla. Úthérað sé aftur á móti á láglendi og einkennist fuglalíf þar af mikilli tegundafjölbreytni og háum varpþéttleika. Þar má finna mikinn fjölda vatnafugla sem eru meðal þeirra fuglahópa sem sérstaklega er hætt við áflugi. Má þar t.d. nefna lóma og grágæsir. „Þá er svæðið mikilvægt varpsvæði fyrir skúm, sem er á válista sem tegund í bráðri hættu, sem og kjóa, sem einnig er á válista.“ Að auki er þéttleiki vaðfugla á svæðinu hár. „Það er því mat Náttúrufræðistofnunar að ekki er hægt að yfirfæra niðurstöður mælinga við Búrfellslund yfir á Úthérað þar sem aðstæður eru gjörólíkar.“
Náttúruperlur í nágrenninu
Úthérað, er að því er fram kemur í umsögn Náttúrufræðistofnunar, eitt af stærstu, tiltölulega lítið snortnu svæðum á láglendi Íslands. Náttúruperlan Stórurð í Dyrfjöllum, sem nú er friðlýst svæði, er steinsnar frá. Myllurnar yrðu vel sýnilegar öllum þeim sem fara austur í Borgarfjörð eða í Stórurð. Töluverðar líkur séu á því að vindorkuver á Úthéraði hefði neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna.
Múlaþing tekur í sama streng í sinni umsögn og bendir á að ekkert sé fjallað um sýnileika vindmyllanna frá vinsælum útsýnisstað í Vatnsskarði þar sem víðsýnt sé yfir Héraðsflóa og inn til dala. Þaðan sé jafnframt upphaf gönguleiðar upp í Stórurð og mikilvægt sé að greina hvort áhrifa gæti á þessa staði.
Í svari Orkusölunnar við þessum athugasemdir segir að allir þessir staðir séu töluvert mikið ofar en hæsti punktur vindmyllanna og því myndu þær ekki bera við himinn heldur yrði horft niður á þær. Í 20-25 kílómetra fjarlægð séu vindmyllurnar einungis sýnilegar í góðu skyggni og alls ekki áberandi. Vegurinn til Borgarfjarðar eystri og upp í Stórurð sé í hvarfi og vindmyllurnar sjáist ekki allan tímann sem vegurinn er farinn. Framkvæmdaaðili geti ekki tekið undir að vindmyllurnar verði vel sýnilegar ferðamönnum á þessari leið og á þessum stöðum.
„Hér er um að ræða umtalsverða framkvæmd á viðkvæmu svæði sem er gífurlega verðmætt af náttúruminjum,“ segir í niðurlagi umsagnar Náttúrufræðistofnunar. „Það er afdráttarlaus skoðun Náttúrufræðistofnunar Íslands að fyllstu varúðar eigi að vera gætt og að framkvæmdin skuli því fara í umhverfismat.“
Færri ver á afmörkuðum stöðum
Umhverfisstofnun hefur í umsögnum við sambærileg mannvirki talið betra að staðsetja vindorkuver á núverandi orkuvinnslusvæðum þannig að innviðir sem þegar eru til staðar nýtist. Æskilegt sé að setja sem flestar vindmyllur á þau svæði í stað þess að dreifa vindorkuverum um allt land. „Umhverfisstofnun telur að forðast eigi að reisa vindmyllur á svæðum þar sem engin svo stór mannvirki eru til staðar, ófullkomnir innviðir og í sumum tilfellum þar sem vindmyllugarðar munu skerða víðerni.“
Þegar um svo stór mannvirki og vindmyllur sé að ræða sé staðsetning afgerandi hvað varðar umhverfisáhrif og þá sérstaklega sjónrænu áhrifin og áhrif á landslag.
Umhverfisstofnun taldi hins vegar ekki ástæðu til að ætla að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar við Lagarfoss myndi leiða í ljós upplýsingar sem í veigamiklum atriðum myndu breyta niðurstöðu greinargerðar Orkusölunnar „og að ekki sé ástæða til að ætla að umrædd framkvæmd muni haf umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér“.
Skipulagsstofnun bendir í ákvörðun sinni um matsskyldu á að landslag í kringum framkvæmdasvæðið einkennist af löngum sjónlengdum og mikilli víðsýni. Stórar vindmyllur séu því líklegar til að verða ráðandi þáttur í landslagi svæðisins. Með tilliti til staðsetningar, þ.á.m. nálægra verndarsvæða, telur Skipulagsstofnun líklegt að áhrif framkvæmdarinnar á landslag verði mikil.
Sjónræn áhrif framkvæmdanna munu ná yfir stórt svæði og eru líkleg til að fela í sér breytta ásýnd frá bæjum, frístundahúsum, útivistarsvæðum og ferðaleiðum. Að mati Skipulagsstofnunar eru áhrif framkvæmdarinnar á ásýnd því einnig líkleg til að verða mikil. Möguleikar á að draga úr áhrifum á landslag og ásýnd eru afar takmarkaðir.
Hvað fuglalíf varðar segir stofnunin að með hliðsjón af því að fyrirhugaðar framkvæmdir fela í sér takmarkað rask á landi megi gera ráð fyrir að bein áhrif vegna röskunar búsvæða verði takmörkuð. Aftur á móti sé óvissa um áhrif vegna árekstra fugla og um afleidd áhrif þar sem ekki liggi fyrir upplýsingar um hvernig fuglar nýta svæðið. Með hliðsjón af staðsetningu kunni þau áhrif þó að verða talsverð.
„Á grundvelli fyrirliggjandi gagna er það niðurstaða Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð framkvæmd sé líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif,“ segir í niðurstöðu stofnunarinnar. „Því skal framkvæmdin háð mati á umhverfisáhrifum.“