„Hjarðhegðun er varasöm og mér bregður þegar ég verð hennar var,“ skrifar Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, í þriðju og síðustu grein sinni í greinaröð um orkumál sem hann hefur birt á Vísi. Umfjöllunarefni þessarar þriðju greinar forstjórans eru öll þau áform sem uppi eru um beislun vindorku vítt og breytt um landið. Hann rifjar fyrst upp fiskeldisævintýrið við lok síðustu aldar, og að slíkar stöðvar hafi verið vel á annað hundrað í lok níunda áratugarins. „Sennilega áttu þær flestar sameiginlegt að verða gjaldþrota.“
Svipað megi segja um loðdýraræktina. Búin voru eitt sinn tæplega 200 en eru nú tíu. „Eitt sinn fengum við þá grillu í höfuðið að Ísland gæti orðið alþjóðleg fjármálamiðstöð,“ skrifar Bjarni í þessari upprifjun sinni. „Það ævintýri endaði næstum með gjaldþroti þjóðarinnar.“ Og, bætir hann við, „nú eru það vindmyllur.“
Á vef Orkustofnunar eru talin fram um 30 svæði hvar fyrirtæki hafa sýnt áhuga á reisa vindmyllur. Fyrirtækin eru norsk, dönsk og frönsk en líka íslensk.
Bjarni segir að gera megi ráð fyrir ákveðnum lágmarksfjölda á hverju svæði til að ná hagkvæmni, segjum 30. Það geri hátt í þúsund vindmyllur samanlagt. „Verði þessi sýn að veruleika ættum við engu umhverfisslysi til að jafna úr Íslandssögunni. Hér væri reyndar ekki um slys að ræða, því myllurnar yrðu reistar af ásetningi, með fullri vitneskju um hin víðtæku umhverfisáhrif.“
Vindmyllutækninni fleygir fram. Þriggja megavatta vindmylla er um 100 metrar á hæð og með spaða í hæstu stöðu myndi hún samsvara tveimur Hallgrímskirkjuturnum á hæð. Líklegt er að hver milla verði 4-5 megavött að afli þegar að því kemur að reisa þær. Stærri myllur rísa hærra, bendir Bjarni á, og 5 MW mylla er ekki undir 200 metrum. „Það yrðu þá hæstu mannvirki á Íslandi, að mastrinu á Gufuskálum einu undanskildu.“
Hann minnir á að ferðaþjónustan hafi skákað öðrum útflutningsgreinum okkar í öflun gjaldeyris. „Hver vill skoða lítið land með 1.000 vindmyllum á „ósnortnum víðernum“? Getur verið að orkufyrirtæki vilji valta yfir ferðaþjónustuna með þessum hætti? Ég trúi því ekki.“
Bjarni segir að byggja verði upp atvinnulífið á gagnkvæmri virðingu og skilningi milli atvinnuvega, „annars fer allt í hund og kött“.
Þá minnir hann á takmarkanir vindorkuvera. „Hvernig á að nota raforku sem er bara tiltæk hálft árið og enginn veit fyrirfram hvort logn verður á morgun?“ spyr hann. Hugsanlega til þess að framleiða vetni, svarar hann þessari spurningu sinni. Framleiðsla vetnis krefjist mikillar fjárfestingar, bæði í tækjabúnaði og í geymslu þess vetnis sem framleitt er meðan vindurinn blæs.
Er hægt að fá rafmagn annars staðar frá fyrir viðskiptavini vindrafmagns í logni? Hæpið sé að hægt verði að fá rafmagn annars staðar frá fyrir viðskiptavini vindrafmagns þegar vindar blása ekki. Vatnsafl sé langbesti kosturinn til að spila á móti vindorku. Um þrír fjórðu hlutar þess rafmagns sem framleitt er í landinu komi úr vatnsaflinu, um 15 teravattstundir (TWst) á ári af 20 í heildina. „1.000 vindmyllur myndu framleiða nálægt 15 TWst á ári. Allt vatnsafl í landinu myndi því vart duga til að sjá viðskiptavinum vindorkunnar fyrir rafmagni í logni.“
Bjarni spyr svo: En hvenær eigum við að virkja vindinn og hvar?
„Í fyrsta lagi eigum við að anda með nefinu. Okkur liggur ekki svona mikið á. Vinnum verkið stig af stigi og látum reynsluna af fyrstu vindmyllugörðunum leiða okkur áfram.“ Best sé að virkja á röskuðum svæðum, til dæmis við þær virkjanir sem fyrir eru, þar sem flutningskerfi Landsnets sé ennfremur nálægt.
„Það fyrirtæki sem mér sýnis hafa undirbúið sig af mestri kostgæfni fyrir vindorkuna er Landsvirkjun,“ skrifar Bjarni. Fyrirtækið hefur rekið tilraunavindmyllur um árabil á svokölluðu Hafi upp af Búrfelli. „Mér finnst líklegt að Orkuveita Reykjavíkur muni reisa vindmyllur við virkjanir sínar á Hellisheiði og á Nesjavöllum. Undirbúningsrannsóknir eru hins vegar of skammt á veg komnar til að taka ákvörðun.“
Alvöru samráð
Lykilþáttur við undirbúning vindmyllugarða er samráð, að mati Bjarna. „Og þá er ég að tala um alvöru samráð, ekki einhliða upplýsingar.“ Samráð við heimafólk, landeigendur, sveitarfélögin, náttúruverndarsamtök og aðra hagaðila. „Hver vill eiga og reka vindmyllugarð við ramma andúð heimafólks?“
Bjarni vill að farið verði varlega í alla ákvörðunartöku og að ekki verði rasað um ráð fram. „Við eigum ekki Ísland en við fáum að njóta þess meðan við lifum, hvert fyrir sig. Stórfelld spjöll á náttúru landsins, sem verða fyrir flumbrugang í virkjun rafmagns, verða ekki aftur tekin.“