Sílósíbin, virka efnið í ofskynjunarsveppum, skilaði árangri við að hjálpa ofdrykkjufólki að draga úr áfengisneyslu eða hætta alfarið, í klínískri rannsókn sem framkvæmd var í Bandaríkjunum.
Niðurstöðurnar voru birtar á miðvikudag í JAMA, fræðatímariti bandarísku læknasamtakanna, og hafa vakið töluverða athygli.
Rannsakendurnir gerðu tilraun á hópi alls 93 einstaklinga sem þjást af áfengissýki. Hún fór þannig fram að þátttakendum var boðin 12 vikna samtalsmeðferð við áfengissýkinni og í vikum 4 og 8, með mánaðar millibili, var þáttakendunum ýmist gefið tiltölulega stór skammtur af sílósíbin (25-40 milligrömm á hver 70 kíló líkamsþyngdar) eða lyfleysa í töfluformi í löngum hugleiðslutíma.
Eftir að hafa innbyrt ofskynjunarefnið eða lyfleysuna var þátttakendum gert að leggjast á sófa, með augun hulin og hlusta á tónlist í heyrnartólum.
Næstum helmingurinn hafði hætt að drekka
Niðurstöðurnar voru þær að 32 vikum eftir að fyrri lyfjagjöfin fór fram hafði þeim einstaklingum sem fengu sílósíbin gengið betur að losna undan áfengisbölinu.
Á þeim tíma sem liðinn var frá fyrri hugleiðslutímanum höfðu þeir 49 einstaklingar sem fengu sílósíbin drukkið mikið áfengi 9,7 prósent daganna, en þeir 43 sem fengu lyfleysuna og voru í samanburðarhópnum drukku mikið 23,6 prósent daganna að meðaltali.
Næstum helmingur þeirra sem fengu ofskynjunarefnið höfðu alfarið náð að hætta að drekka, miðað við 24 prósent þeirra sem voru í samanburðarhópnum og fengu lyfleysuna meðfram samtalsmeðferðinni.
Samkvæmt rannsakendum er þörf á frekari rannsóknum á þessu, til þess að sjá hvort áhrifin séu langvarandi og hvort sömu áhrif verði sýnileg ef stærri hópur tekur þátt í rannsókn á virkni sílósíbin í þessum tilgangi.
Lítið er vitað um það nákvæmlega af hverju sílósíbín veldur þessum áhrifum, en þó er talið að virkni sílósíbín auki tengingar í heilanum, að minnsta kosti til skamms tíma.
Í frétt Associated Press um rannsóknina er haft eftir lækninum Michael Bogenschutz, sem leiðir rannsóknardeild ofskynjunarlyfja við New York-háskóla (NYU) og var í forsvari fyrir þessa klínísku rannsókn, að nýjar tengingar verði til í heilanum við inntöku sílósíbín.
Kenning hans sem rannsakenda er sú, að ef samtalsmeðferð sé beitt á sama tíma og þessar nýju tengingar í heilanum eru virkar, gæti verið hægt að venja heilann af slæmum ávönum og móta nýjar venjur og viðhorf – jafnvel til frambúðar.
Ólöglegir víðast hvar en vöxtur í rannsóknum
Ofskynjunarsveppir eru ólöglegir víðast hvar. Hér á landi falla þeir undir lög um ávana- og fíkniefni og neysla þeirra bönnuð með öllu.
Á undanförnum árum og áratugum hafa þó margvíslegar rannsóknir farið fram á gildi virka efnisins sílósíbín til meðhöndlunar á ýmsum þeim kvillum sem hrjá mannkynið, til dæmis geðrænum vandamálum á borð við kvíða og þunglyndi og svo fíknisjúkdómum.
Háskólar erlendis hafa margir sett upp sérstakar rannsóknardeildir til þess að skoða kosti ofskynjunarefna í lækningaskyni og margir sérfræðingar í geðlækningum binda vonir við að geta farið að nýta slík efni í meðferðum sínum á næstu árum.