Vítalía Lazareva fór í byrjun vikunnar í skýrslutöku hjá lögreglunni á Vesturlandi vegna kynferðisbrotakæru á hendur þeim Ara Edwald, Hreggviði Jónssyni og Þórði Má Jóhannessyni. Þetta staðfestir Kolbrún Garðarsdóttir réttargæslumaður Vítalíu í samtali við Kjarnann.
Hún segir að ferlið hafi tekið svolítið langan tíma, að misskilnings hafi gætt í upphafi og aðrir þættir haft áhrif. „En nú er búið að ganga frá því,“ segir hún.
Lögreglan mun nú rannsaka málið og taka skýrslu af vitnum og sakborningum. Kolbrún segir að ómögulegt sé að segja til um hversu langan tíma það muni taka.
Vítalía birti mynd á Twitter-síðu sinni í mars síðastliðnum þar sem sjá mátti beiðni um tíma hjá kærumóttöku lögreglunnar. Hún sagði í samtali við Kjarnann á sínum tíma að hún ætlaði ekki skilja málin eftir í lausu lofti og þetta hefði verið stórt og mikilvægt skref í rétta átt fyrir hana. „Hræðsla og óöryggi er ekki í boði fyrir mig og ég kem til með að standa upprétt og einbeita mér að réttlætinu.“
Hún skrifaði jafnframt í opinni færslu á Instagram að það hefði tekið tíma „að safna sér saman í næstu skref“ en hún væri tilbúin.
Kærðu Vítalíu fyrir tilraun til fjárkúgunar
Mennirnir þrír hafa nú kært Vítalíu og Arnar Grant fyrir tilraun til fjárkúgunar en Arnar Þór Stefánsson, lögmaður Þórðar Más, sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 í síðustu viku að hann hefði staðfestingu frá ríkislögreglustjóra fyrir því að enga kæru vegna málsins væri að finna í lögreglukerfinu Löke.
Arnar Þór sagði það geta skipt máli fyrir meðferð kærunnar sem nú hefur verið lögð fram að Vítalía hefði ekki kært þremenningana, líkt og hún hafði sagst ætla að gera.
„Það getur alveg skipt máli ef þú ert að láta að því liggja að þú ætlir að kæra og sért þolandi, en kærir svo ekki. Það er nú ekki mjög trúverðug framganga,“ sagði Arnar Þór.
Baðst afsökunar á að hafa ekki vitað betur
Vítalía brást við fréttaflutningnum og skrifaði í færslu á Twitter í kjölfarið þar sem hún sagði að hana langaði að biðjast afsökunar – afsökunar á því „að hafa brugðist öðrum þolendum“. Hún bæri jafnframt ekki ábyrgð á fréttaflutningi um málið. Hún sagðist hafa lagt fram bréf til kærumóttöku kynferðisbrota í mars síðastliðnum hjá lögreglunni.
„Ég hef alltaf haldið að það að fylla út slíkt blað með fyrirspurnum og spurningum hvað varðar kynferðisbrot þýddi „eitthvað“. Ég hef ekki mætt í skýrslutöku eins og hefur oft komið fram og hef ég aldrei sagt annað. Ég biðst afsökunar. Afsökunar á að vita ekki betur,“ skrifaði hún.
Mig langar að biðjast afsökunar, afsökunar á því að hafa brugðist öðrum þolendum og langar til að einblína á að ég get ekki tekið ábyrgð á öllum fréttaflutning.Ég lagði fram bréf til kærumóttöku kynferðisbrota sl mars hjá lögreglunni og setti mynd hér inn því til staðfestingar.
— Vítalía Lazareva (@LazarevaVitalia) June 29, 2022
Fjölmargir tjáðu sig í kommentum við færsluna þar sem fólk sýndi henni stuðning og sagði hana ekki þurfa að biðjast afsökunar á neinu.
Ferlið misjafnt milli embætta
Jónas Hallgrímur Ottósson lögreglufulltrúi rannsóknardeildar á Vesturlandi sagðist í síðustu viku eftir samráð við lögmenn embættisins í samtali við Kjarnann ekki geta tjáð sig um þetta tiltekna mál en samkvæmt heimildum Kjarnans lá málið á borði lögreglunnar á Vesturlandi í nokkurn tíma þar sem meint brot átti sér stað í bústað í Skorradal. Hann sagði við Kjarnann að ferlið eftir að brot er tilkynnt væri misjafnt milli embætta. Allajafna færu málin fyrr í gang hjá minni embættunum þar sem álagið er ekki eins mikið þar.
„Við reynum alltaf að vinna með mál með brotaþola í huga þannig að ferlið verði ekki mjög mannfjandsamlegt. Þetta er alltaf erfitt og það eru miklar tilfinningar í gangi. Við reyndum sem sagt að sigla þessu eins þægilega í gegn eins og hugsast getur,“ sagði hann.
Hægt að panta tíma í gegnum tölvupóst, símleiðis eða með því að fylla út eyðublað
Á vefsíðu kærumóttöku lögreglunnar kemur fram að ef einhver vill leggja fram kæru vegna brots sé hægt að panta tíma með því að senda þeim tölvupóst, með því að hringja í síma 444-1000 eða senda þeim beiðni í gegnum sérstaka vefsíðu. Ef brotið er nýafstaðið eða ennþá yfirstandandi þurfi ávallt að hringja í 112.
Í skeytinu eða símtalinu þarf að koma fram nafn, kennitala, heimilisfang, sími, kæruefnið, hvað gerðist, hvenær gerðist það, hvar gerðist það, hvaða tími hentar best til að koma á lögreglustöð og hvaða lögreglustöð er best að koma á. Jafnframt hvort viðkomandi þurfi aðstoð túlks.
„Gott er að taka fram að við reynum að koma til móts við alla hvað varðar tímasetningu, en því miður er það ekki alltaf hægt. Ef það er ekki hægt þá er sá tími gefinn upp sem er laus og viðkomandi beðinn um að staðfesta hann. Í svarskeyti okkar koma einnig fram aðrar upplýsingar sem snúa að væntanlega kæruefni, t.d. hvaða gögn þurfi að hafa meðferðis,“ segir á vefsíðu lögreglunnar.
Málið komst í hámæli í janúar
Kjarninn fjallaði um málið í byrjun janúar en Vítalía steig fram og greindi frá meintu ofbeldi í viðtali hjá Eddu Falak í Eigin konum þann 4. janúar síðastliðinn.
Aðdragandinn var sá að seint í október birti Vítalía frásögn á samfélagsmiðlinum Instagram. Frásögnin var af kynferðisofbeldi sem hún sagði sig hafa orðið fyrir af hendi þriggja manna. Í frásögninni lýsti konan því ofbeldi sem hún sagði mennina hafa beitt sig í heitum potti og í sumarbústað, aðdraganda þess að hún hefði endað með þeim þennan dag og í lok hennar nefndi hún þá alla þrjá með nafni, þá Ara Edwald, þáverandi forstjóra Ísey Skyr, Hreggvið Jónsson, þáverandi stjórnarformann og aðaleiganda Veritas, og Þórð Má Jóhannesson, þáverandi stjórnarformann Festi.
Auk þess nefndi hún á nafn giftan mann, einkaþjálfarann Arnar Grant, sem hún átti í ástarsambandi við og fékk hana til að koma á þann stað sem meint brot fóru fram.
Færslan var síðar tekin niður af Instagram en hluti hennar er enn aðgengilegur á Twitter-síðu Vítalíu. Þar voru nöfn mannanna hins vegar ekki birt. Þar segir meðal annars að henni hafi verið ráðið frá „því að segja frá og leita lengra vegna þess að aðilar þessir eru valdamiklir í samfélaginu og allir fjölskyldumenn“.
Vildu engu svara
Skjáskot af frásögn Vítalíu fóru sem eldur í sinu um íslenskt samfélag. Í stórum hópum var fátt annað rætt í margar vikur á eftir en hvar þetta mál stæði. Ekkert var hins vegar fjallað um málið í fjölmiðlum, þrátt haft hafi verið samband við mennina fjóra, meðal annars frá blaðamanni Kjarnans. Viðbrögðin voru engin. Þeir svöruðu ekki.
Málið tók á sig nýja mynd þegar Vítalía steig fram hjá Eddu og greindi frá meintu ofbeldi.
Allir þrír stigu til hliðar úr ábyrgðarstöðum eftir að fjölmiðlaumfjöllun um málið birtist. Eini sem hefur tjáð sig opinberlega er Hreggviður Jónsson en hann sagði í yfirlýsingu sinni: „Ég harma að hafa ekki stigið út úr aðstæðum sem ung kona hefur skýrt frá og fjallað hefur verið um í sumum fjölmiðlum. Það er afar þungbært að heyra um hennar reynslu.“
Hreggviður sagðist jafnframt líta þetta mál alvarlegum augum og þrátt fyrir að hann hefði „ekki gerst brotlegur við lög“ þá myndi hann stíga til hliðar úr stjórn Veritas og stjórnum tengdra fyrirtækja „til að raska ekki þeirra mikilvægu starfsemi“.