Vodafone hagnaðist um 300 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi og nam hagnaðaraukningin 43 prósentum frá sama tímabili í fyrra, og sé fyrri helmingur ársins skoðaður í heild jókst hagnaðurinn um 56 prósent.
Í árshlutareikningi fyrirtækisins kemur enn fremur fram að sjö aðskilin mál séu nú í gangi sem tengjast fyrirtækinu, þar á meðal eru mál sem tengjast innbroti í tölvukerfi fyrirtækisins í nóvember 2013, þegar persónuleg gögn um viðskiptavini komust í almenna umferð á netinu. Þessi mál eru ýmist á borði dómstóla eða eftirlitsstofnana.
Yfirlit yfir málin, eins og um þau er fjallað í árshlutareikningi Vodafone, sem birtur var í dag, má sjá hér að neðan.
Auglýsing
Fjarskipti hf. gegn Póst- og fjarskiptastofnun
Á tímabilinu stefndu Fjarskipti hf. Póst- og fjarskiptastofnun („PFS“) og gerðu þá dómkröfu að ógiltur verði með dómi úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli nr. 3/2014 frá 11. október 2014. Úrskurðurinn sem stefnandi leitar ógildingar á felur í sér að sms-þjónusta á „Mínum síðum“ á vodafone.is falli undir gildissvið fjarskiptalaga og þar með lögsögu PFS. Verði fallist á dómskröfu Fjarskipta hf. í málinu kann það að hafa áhrif á niðurstöður dómsmála sem einstaklingar hafa höfðað á hendur félaginu vegna innbrots í tölvukerfi þess. Allt að einu er óvissa um áhrif á rekstur og efnahag félagsins og engin skuldbinding hefur verið færð.
Stefnur vegna innbrots í tölvukerfi
Á tímabilinu voru þingfestar sex stefnur á hendur félaginu þar sem gerðar eru kröfur um bætur vegna tjóns sem einstaklingar telja sig hafa orðið fyrir vegna innbrotsþjófnaðar erlends tölvuhakkara á heimasíðu Vodafone í nóvember 2013 og í kjölfarið dreifingu þjófsins og annarra á hinum stolnu gögnum. Samanlögð stefnufjárhæð er 113 millj. kr., auk vaxta og málskostnaðar. Komist dómstólar að þeirri niðurstöðu að Fjarskipti hf. sé bótaskylt vegna innbrotsins, er það mat félagsins að fjárhæðir í þeim málum sem um teflir hafi óveruleg áhrif á rekstur og efnahag félagins og engin skuldbinding verið færð.
Síminn hf. krefur Fjarskipti hf. um skaðabætur
Fjarskiptum hf. barst á tímabilinu krafa frá Símanum um skaðabætur vegna meintrar ólögmætrar notkunar á vörumerkinu Tímaflakk. Krafan er að fjárhæð 400 millj. kr. Fjarskipti hf. telja ekki grundvöll fyrir kröfunni. Ágreiningur er um skráningu Símans á vörumerkinu sem ekki hefur verið til lykta leiddur og hefur Fjarskipti hf. áfrýjað til áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar. Auk þess telur Fjarskipti hf. fjárhæð bótakröfunnar í engu samræmi við málsatvik og dómafordæmi.
Fjarskipti hf. gegn Tali (nú 365 miðlum)
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 17. desember 2014 var frávísunarkrafa Tals tekin til greina m.a. á þeirri forsendu að hluti ágreiningsins heyri undir gerðardóm en ekki almenna dómstóla. Þann 31. mars 2015 birti félagið stefnu á hendur 365 miðlum ehf. er lýtur að þeim hluta málsins sem heyrir undir almenna dómstóla. Málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þann 9. apríl 2015. Stefnufjárhæð er um 44 millj.kr., auk vaxta og málskostnaðar. Höfðun máls fyrir gerðardómi er í undirbúningi vegna þeirra krafna sem eftir standa af framangreindum viðskiptum sem nema um 67 millj. kr. auk vaxta. Nánari er fjallað um neðangreind mál í skýringum 35 og 36 með ársreikningi 2014. Hér er aðeins fjallað um þær breytingar sem átt hafa sér stað á árinu 2015. Rétt er að taka fram að óvissa ríkir áfram um efnislega niðurstöðu dómsmálsins, sem og fyrirhugaðrar gerðardómsmeðferðar. Verði 365 miðlar ehf. að endingu dæmdir til greiðslu á framangreindri kröfu Fjarskipta hf. mun það hafa óveruleg áhrif á rekstur og efnahag Fjarskipta hf.
Niðurstaða ESA í ríkisstyrkjamáli
Þann 30. júní síðastliðin, birtist fréttatilkynning á vef Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), þar sem stofnunin kynnti niðurstöðu sína í ríkisstyrkjamáli þar sem Fjarskipti hf. hafði verið málshefjandi. Áður hefur verið greint frá umræddri kvörtun í skráningarlýsingu Fjarskipta hf. í aðdraganda þess að hlutabréf félagsins voru tekin til skráningar í Kauphöll. Eftirlitsstofnun EFTA hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að samningurinn samræmist EES reglum á sviði ríkisaðstoðar. Hefur þessi niðurstaða ekki fjárhagsleg áhrif fyrir Fjarskipti hf. og engin áhrif á rekstur né efnahag, samanber einnig hliðstætt mat í fyrrgreindri skráningarlýsingu á líklegum áhrifum ef þetta yrði niðurstaðan.
Farsímadreifikerfi Fjarskipta hf. og Nova ehf. rekin sameiginlega
Eins og fram kom í fréttatilkynningu Fjarskipta hf. þann 30. júní 2015 veitti Samkeppniseftirlitið samþykki sitt fyrir rekstri samrekstrarfélags Vodafone og Nova ("félögin"), að vissum skilyrðum uppfylltum. Félögin vinna enn að útfærslu samstarfsins á grundvelli fyrirmæla í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.
Áfrýjun Símans á ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 14/2015
Síminn áfrýjaði í júní 2015 ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 14/2015 en með ákvörðuninni hafði Samkeppniseftirlitið heimilað Nova ehf. og Fjarskiptum hf. að eiga í sameiningu félag sem myndi annast rekstur á tilteknum dreifikerfum fyrir farsímaþjónustu. Í málinu hefur Síminn farið fram á að sett verði frekari skilyrði fyrir samstarfinu en gert var með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 14/2015. Lýtur ágreiningurinn fyrst og fremst að því hvort skilyrðin séu fullnægjandi en ekki að því hvort ástæða sé til ógildingar ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins í heild sinni.