Andrúmsloftið í Kúrdistan er spennuþrungið. „Fólk sýnir mikla samstöðu, bæði í orði og verki, og það hefur verið mótmælt í mörgum héruðum Kúrdistans. Þetta snertir alla Kúrda, Jina Amini var Kúrdi og mótmælin hófust meðal Kúrda í Íran. Allir Kúrdar vilja því leggja baráttunni lið, þrátt fyrir að við séum hinum megin við landamærin,“ segir Lenya Rún Taha Karim, varaþingmaður Pírata, í samtali við Kjarnann.
Lenya er stödd í Kúrdistan þar sem hún hefur verið í heimsókn hjá fjölskyldu og vinum um tíma. Hún stefndi að því að koma til Íslands í síðustu viku en ákvað að dvelja lengur til að fylgja eftir viðbrögðunum vegna andláts Amini, 22 ára konu sem lést í haldi írönsku siðgæðislögreglunnar fyrir tíu dögum, þremur dögum eftir að hún var handtekin fyrir meint brot á reglum um að bera slæðu.
For a nation whose people have overcome ethnic genocide, a chemical bombing and truly shit behavior from neighboring countries since we can remember - stripping away someone’s Kurdish identity after they’ve sparked a nationwide revolution is disrespectful and harmful. https://t.co/x0H8E4UAMP
— Lenya Rún (@Lenyarun) September 25, 2022
Mótmælin hófust í Kúrdistan, heimahéraði Amini, þar sem konur tóku sig saman og brenndu slæður sínar. Mótmælin breiddust fljótt út og nú er mótmælt í að minnsta kosti 80 borgum í 31 héraði í Íran. Samstöðumótmæli hafa auk þess verið í fjölda borga, til að mynda Boston, París og Reykjavík. Mótmælendur eru á öllum aldri, konur jafnt sem karlar, en það sem er ef til vill nýtt við mótmælin nú er að þau eru leidd af konum af öllum kynslóðum og hafa stjórnmálaskýrendur fullyrt að um feminíska byltingu sé að ræða, byltingu þar sem krafan snýst um frelsi til að velja.
Alþjóðasamfélagið oft ragt við að taka undir kvenréttindabaráttu í Mið-Austurlöndum
Lenya hefur vakið athygli á ýmsu sem tengist mótmælunum og því sem er að eiga sér stað í Íran á Twitter, til að mynda að um feminíska byltingu, eða öllu heldur stríð, sé að ræða. En Lenya spyr:. „Hvar eru allir femínistarnir? Hvar er alþjóðlega samfélagið? Hvar er stjórnmálafólkið?“
Spurð nánar út í hvað hún eigi við með þessum spurningum segir Lenya alþjóðasamfélagið vera oft ragt við að taka undir kvenréttindabaráttu í Mið-Austurlöndum af ótta við að vera stimplað fordómafullt eða íslamófóbískt.
„Það þarf auðvitað að passa að þetta fari ekki út í hatur og alhæfingar en þessi bylting snýst um réttinn og frelsið til að velja. Að konur fái sjálfar að ákveða hvort þær beri hijab eða ekki. Alþjóðasamfélagið og feminístar ættu óhrædd að geta tekið undir þá kröfu,“ segir hún.
Stærsta femíniska stríðið sem ég hef orðið vitni af er í gangi í Íran akkúrat núna eftir að kúrdísk kona var drepin af lögreglunni því það sást í hárið hennar. Hvar eru allir femínistarnir? Hvar er alþjóðlega samfélagið? Hvar er stjórnmálafólkið? #مهسا_اميني https://t.co/QbmEplFAD5
— Lenya Rún (@Lenyarun) September 21, 2022
„Fallega sorglegt“
Lenya var búsett í Kúrdistan frá 2013 til 2016 og var þar í heimsókn þegar fregnir af dauðsfalli Jina bárust. Hún átti bókað flug til Íslands síðasta miðvikudag en ákvað að vera um kyrrt. Hún þurfti að hugsa sig vel um en ákveðið atvik varð til þess að ákvörðunin var í raun og veru einföld. „Það sem endanlega sannfærði mig um að fresta heimferðinni var þegar ég sá myndband af Kúrdum í Íran að mótmæla með því að syngja vögguvísu sem mamma söng fyrir mig þegar ég var yngri. Vögguvísan var sungin og skrifuð eftir að efnavopnsárásin á heimabæinn hennar mömmu átti sér stað árið 1988 og drap 6000 manns,“ segir Lenya.
Kurds in Rojhilat singing a lullaby that was written as a response to the Halabja Chemical Attack. They've gathered to protest against Iran's morality police killing Jina Mahsa Amini.
— Adan Anwar (@AdanAnwar15) September 20, 2022
The lyrics are: "Don’t leave me alone here by myself tonight, The horrors will bury me alive”. pic.twitter.com/QM4gXsQigW
Hún segir það „fallega sorglegt“ að baráttusöngurinn nú sé sá sami og var sunginn fyrir nærri 25 árum í öðrum hluta í Kúrdistan. Sami baráttusöngur og fjölskylda hennar söng eftir að hún lifði af.
Forræðishyggja yfir klæðnaði og líkömum kvenna
Mótmælin hafa farið stigmagnandi. Íranskir Kúrdar áttu upptökin að mótmælunum og í dag er tíundi dagurinn í röð sem mótmælendur þyrpast út á götur fjölmargra borga í Íran. Konur hafa brennt slæður sínar og klippt hár sitt til að undirstrika mannréttindabrotin sem konur í Íran búa við. En rætur mótmælanna eru dýpri.
„Ég met stöðuna þannig að íbúar í Íran séu hreinlega komin með nóg af núverandi ríkisstjórn þeirra. Forræðishyggjan yfir klæðnaði og líkömum kvenna er auðvitað stærsti hlutinn af þessu en sagan hefur sýnt að lagasetning byggð á trúarbrögðum skili ekki árangri, þvert á móti, þá hefur það leitt til jaðarsetningar, átaka og byltingar að lokum. Þetta birtist okkur núna í öfgafullum viðbrögðum yfirvalda við því að það hafi sést í hár konu og hinnar skiljanlegu reiði í framhaldinu,“ segir Lenya.
Vonar að mótmælin leiði til farsælla breytinga fyrir íbúa Írans
Erfitt er að segja til um hvernig framhaldið verður að sögn Lenyu en að óhjákvæmilegt sé að bera mótmælin nú saman við mótmæli sem urðu árið 2019 þegar stjórnvöldum var mótmælt, þá fyrir slæmt efnahagsástand og hækkandi olíuverð.
„Þá var einnig gripið til þess að rjúfa netsamband íbúa Írans og loka fyrir aðgang að nokkrum samskiptaforritum en talið er að tæplega 1500 manns hafi dáið í þeim mótmælum. Það væri óskandi að þessi mótmæli þróist ekki með jafn hörmulegum hætti en það er ekki að sjá á þessari stundu að þau séu renna út í sandinn.“
Lenya vonast til þess að fjölmiðlar haldi áfram að sýna mótmælunum áhuga og athygli. „Vonandi helst kastljós fjölmiðlanna á þessum atburðum, alþjóðasamfélagið gleymi ekki fólkinu sem berst nú fyrir réttindum sínum og að mótmælin leiði til farsælla breytinga fyrir íbúa Írans.“