Willem Buiter, aðalhagfræðingur Citigroup, segir að kínverska hagkerfið sé á leið inn í kreppu og stjórnvöld í landinu séu of sein að bregðast við veikleikamerkjum. Þá séu opinberar hagtölur í landinu óáreiðanlegar og útlitið fyrir hagvöxt sé ekki eins og af er látið. Spár Kínverja geri ráð fyrir sjö prósent hagvexti á þessu ári en reyndin sé sú að hann verði þá um 4,5 prósent, miðað hefðbundna mælikvarða í öðrum löndum.
Þetta kom fram á fundi í New York í gær, þar sem Buiter ræddi um stöðu mála í Kína við sérfræðinga í alþjóðastjórnmálum og í fjármálageiranum. Buiter er Íslendingum kunnur, en hann sagði meðal annars á fundi í Hörpu, sem Seðlabanki Íslands, stjórnvöld og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stóðu fyrir, í október 2011, að hann hefði hvergi séð „viðlíka múgheimsku“ og var á Íslandi fyrir hrun fjármálakerfisins.
Buiter, sem um tíma átti sæti í ráðgjafaráði Seðlabanka Bretlands, Englandsbanka (Bank Of England), segir að vandamálin í Kína séu rétt að byrja, og að greiningar á hagtölum bentu til þess að kínversk stjórnvöldu væru ekki að koma fram með rétt mat á stöðu mála. Ellefu hagfræðingar, sem greindu stöðu mála í Kína, komust að því að hagvöxtur í landinu á fyrri hluta ársins hefði ekki verið rúmlega sjö prósent eins og opinberlega kom fram heldur 6,3 prósent að hámarki. Í jafn risavöxnu hagkerfi og Kína þá munar mikið um hvert prósentustig í útreikningum sem þessum.
Buiter sagði enn fremur að inngrip stjórnvalda í Kína, meðal annars til þess að halda uppi verði á hlutabréfum, væru ekki trúverðug og að búast mætti við frekari vandamálum í landinu á næstu misserum, að því er segir í umfjöllun Bloomberg.
Citi economist Buiter: China sliding into recession ... likely drag global economy with it http://t.co/NYmFG8BEfR
— ForexLive (@ForexLive) August 28, 2015