Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir stefnubreytingu hafa orðið í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn í dag þegar afléttingaráætlun stjónvalda var kynnt. Í stað þess að styðjast við aðferðafræði temprunar líkt og gert hefur verið síðustu tvö ár er stefnan að opna samfélagið. „Sem er auðvitað búið að vera lokamarkmiðið allan tímann,“ sagði Katrín í blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í Safnahúsinu í dag.
Viðhorf forsætisráðherra frá því síðasta haust hefur greinilega breyst en í kosningaprófi RÚV síðasta haust tók Katrín ekki vel undir þá fullyrðingu að leyfa ætti kórónuveirunni að ganga án sóttvarnatakmarkana. Á sama tíma hefur staða faraldursins breyst en ein af megin rökum sóttvarnalæknis við að hefja afléttingaráætlun er að þó svo að ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar sé mun meira smitandi en önnur afbrigði er minna um alvarleg veikindi.
Katrín kvaðst vera 15 prósent sammála fullyrðingunni síðasta haust. Ef svör allra ráðherra eru borin saman má merkja greinilegan mun á afstöðu þáverandi og núverandi heilbrigðisráðherra. Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra í síðustu ríkisstjórn, var algjörlega ósammála fullyrðingunni um að leyfa ætti veirunni að ganga án sóttvarnatakmarkanna en Willum Þór Þórsson, núverandi heilbrigðisráðherra, var 89 prósent sammála fullyrðingunni.
- Willum Þór Þórsson: 89%
- Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir: 100%
- Katrínt Jakobsdóttir: 15%
- Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir: 63%
- Guðlaugur Þór Þórðarson: 72%
- Guðmundur Ingi Guðbrandsson: 0%
- Svandís Svavarsdóttir: 0%
- Sigurður Ingi Jóhannsson: 14%
- Lilja Alfreðsdóttir: 66%
- Ásmundur Einar Daðason: 29%
Hvorki Bjarni Benediktsson né Jón Gunnarsson, þingmenn Sjálfstæðisdlokksins og ráðherrar í núverandi ríkisstjórn, svöruðu kosningaprófi RÚV í haust.
Af svörunum að dæma gætti meira samæmis í svörum ráðherra Vinstri grænna en hinna ríkisstjórnarflokkanna tveggja. Áslaug Arna, þáverandi dómsmálaráðherra, var hlynntust fullyrðingunni um að láta veiruna ganga án sóttvarnatakmarkanna en Guðmundur Ingi og Svandís alfarið ósammála fullyrðingunni. Næst á eftir þeim kom Sigurður Ingi og þar á eftir forsætisráðherra.
Hvað sem því líður er staðreyndin sú að afléttingaráætlun stjórnvalda hefst á miðnætti og ef allt gengur að óskum verða allar sóttvarnatakmarkanir afléttar 14. mars, rúmum tveimur árum eftir að faraldurinn braust fyrst út.