Rúmlega 20 þúsund manns nýttu sér skattafrádrátt vegna greiðslna til félaga á almannaheillaskrá á síðasta ári. Samtals er um að ræða 416 milljónir frá tekjuskatts- og útsvarsstofni og getur endurgreiðslan numið á bilinu 130 til 192 milljónum króna, allt eftir því í hvaða skattþrepi frádrátturinn lendir.
Lög um félög til almannaheilla sem heimila skattfrádrátt allt að 350 þúsund krónum á ári vegna gjafa og framlaga til félaga sem skráð eru á almannaheillaskrá Skattsins tóku gildi 1. nóvember á síðasta ári. Endurgreiðslan nær því aðeins yfir síðustu tvo mánuði síðasta árs.
217 félög voru á almannaheillaskrá Skattsins í fyrra. Þremur umsóknum var hafnað. 403 félög eru á almannaheillaskrá Skattsins í ár en þar er einnig að finna félög sem samþykkt voru í lok síðasta árs sem gilda út árið 2022, samkvæmt upplýsingum frá Skattinum. 16 umsóknir bíða samþykktar sem stendur.
101 umsókn hafnað á þessu ári
Það sem af er þessu ári hefur 101 umsókn verið hafnað, þar af eru 45 umsóknir sem bárust í nóvember og desember í fyrra. Í svari Skattsins við fyrirspurn Kjarnans kemur fram að einhverjum þessara félaga hafi verið hafnað þar sem svar við fyrirspurn ríkisskattstjóra barst ekki. Ef svar hefur borist eftir höfnun hafa félögin sótt um aftur og þá verið samþykkt.
Heildarendurgreiðsla á síðasta ári vegna félaga á almannaheillaskrá Skattsins er ekki ljós þar sem álagning lögaðila vegna rekstrarársins 2021 liggur ekki fyrir fyrr en í lok þessa mánaðar. Ef litið er til álagningar einstaklinga vegna ársins 2021 nýttu 20.473 einstaklingar sé frádráttinn og drógu, eins og fyrr segir, 416 milljónir frá tekjuskatts- og útsvarsstofni sínum. Endurgreiðslan getur numið á bilinu 130 til 192 milljónum króna, eftir því í hvaða skattþrepi frádrátturinn lendir.
Áætlað tekjutap ríkissjóðs vegna almannaheillaskrár um 800 milljónir króna á ári
Skatturinn hefur ekki áætlað hversu há upphæðin verður í ár en í svari við fyrirspurn Kjarnans er vísað í frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld.
Þar segir að áætlað tekjutap ríkissjóðs af hækkun heimildar lögaðila til að draga frá tekjum af atvinnurekstri einstaka gjafir og framlög til tiltekinna aðila sé um 800 milljónir króna á ári og áætlað tekjutap ríkissjóðs af nýrri heimild fyrir einstaklinga til að draga frá skattskyldum tekjum sínum sambærilegar gjafir og framlög, miðað við hámarksfjárhæð 350 þúsund krónum, sé 500 milljónir króna á ári.