Rúmlega átta af hverjum tíu landsmönnum, alls 83 prósent aðspurðra, segjast óánægð með fyrirkomulag á sölu á 22,5 prósent hlut ríkisins í Íslandsbanka þann 22. mars síðastliðinn, samkvæmt nýrri könnun Prósents fyrir Fréttablaðið. Af þessum hópi eru 70 prósent mjög óánægð með hvernig til tókst við söluna. Alls telja 80 prósent að setja eigi upp rannsóknarnefnd Alþingis til að rannsaka söluna.
Þann 22. mars var ofangreindur hlutur seldur í lokuðu útboði með tilboðsfyrirkomulagi og 2,25 milljarða króna afslætti frá markaðsvirði til 207 fjárfesta. Salan hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að litlum fjárfestum, sem keyptu fyrir lágar upphæðir, hafi verið hleypt að í útboðinu, að starfsmenn og eigendur söluráðgjafa hafi keypt og að jafnræðis hafi ekki verið gætt þegar valdir voru þátttakendur úr hópi skilgreindra fagfjárfesta.
Í könnun Prósents kemur fram að einungis sjö prósent aðspurðra eru ánægð með hvernig til tókst og þar af einungis þrjú prósent mjög ánægð. Athygli vekur að nánast allir hópar samfélagsins virðast jafn óánægðir með söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Í Fréttablaðinu í dag segir að það sé nánast enginn marktækur munur er á afstöðu fólks er kemur að kyni, aldri, búsetu, tekjum eða menntun.
Um var að ræða netkönnun Prósents sem var gerð 13. til 19. apríl. Úrtakið var 2.150 manns, 18 ára og eldri og svarhlutfall var 50,3 prósent.
Formenn stjórnarflokkanna þriggja komu sér saman um það í byrjun viku að leggja niður Bankasýslu ríkisins til að bregðast við þeirri miklu óánægju sem verið hefur í samfélaginu með sölufyrirkomulagið. Þá fól Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Ríkisendurskoðun að rannsaka söluna og sú stofnun á að skila stjórnsýsluúttekt í júní. Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands rannsakar auk þess þátt söluráðgjafana fimm í útboðinu, sérstaklega hvort skilgreining þeirra á hæfi fagfjárfesta standist ekki skoðun og kaup starfsmanna og eigenda söluráðgjafa í útboðinu. Bankasýsla ríkisins greindi frá því í gær að hún myndi halda eftir söluþóknun til ráðgjafanna þar til það skýrist hvort þeir hafi gerst brotlegir, en alls eiga allir ráðgjafar að fá um 700 milljónir króna í þóknun fyrir sína aðkomu að útboðinu. Í Morgunblaðinu í dag er greint frá því að titrings gæti á meðal söluráðgjafa þar sem neikvæð niðurstaða í rannsókn á þeim gæti leitt til þess að fyrirtækin missi starfsleyfi.