Fleiri en 100 ríki hafa ákveðið að gerast aðilar að yfirlýsingu þar sem því er heitið að hætta eyðingu skóglendis fyrir árið 2030 og byrja að snúa þróuninni við. Rúm 85 prósent skóglendis í heiminum er innan landamæra þeirra ríkja sem ætla sér að taka þátt.
Á meðal þeirra ríkja sem munu gerast aðilar að yfirlýsingunni eru sum þeirra ríkja heims sem ryðja mest skóglendi á hverju ári; Brasilía, Indónesía og Tansanía, svo nokkur séu nefnd.
Þessi skógarsamningur má segja að séu fyrstu stóru tíðindin sem borist hafa frá Cop26-ráðstefnunni í Glasgow til þessa, en þar eru nú yfir 120 þjóðarleiðtogar samankomnir til þess að ræða um loftslagsmál og hvernig efna skuli skuldbindingarnar sem fólust í Parísarsáttmálanum frá árinu 2015.
Ísland er á meðal þeirra ríkja sem taka þátt í skógarsamkomulaginu, en það felur meðal annars í sér að ríkin lýsa því yfir að þau ætli sér að vernda skóga og hraða endurreisn þeirra og beita sér fyrir sjálfbærum viðskiptaháttum sem keyri ekki áfram landeyðingu og slæma landnotkun.
2.500 milljarðar íslenskra króna
Samkvæmt fréttum erlendra miðla felur yfirlýsingin í sér að 19,2 milljörðum bandaríkjadala, jafnvirði rúmlega 2.500 milljarða íslenskra króna, verði veitt til stuðnings þessara markmiða, meðal annars til þeirra ríkja sem einsetja sér nú að hætta að eyða skógi og snúa þróun skóglendis í heiminum við.
Tólf milljarðar dala koma frá ríkisstjórnum og einkafyrirtæki koma með 7 milljarða dala að borðinu. Þá hafa yfir þrjátíu alþjóðlegar fjármálastofnanir einnig heitið því að hætta að fjárfesta í fyrirtækjum sem eru ábyrg fyrir eyðingu skóga.
Umhverfisverndarsamtök hafa sum sagt yfirlýsinguna geta orðið skref í rétta átt, en þó hefur verið bent á að yfirlýsing ríkja frá 2014, New York-yfirlýsingin um skóglendi, hafi ekki skilað tilætluðum árangri þrátt fyrir fögur fyrirheit þeirra hartnær fjörutíu ríkisstjórna sem að henni stóðu.
Fimm ára stöðumat þeirrar yfirlýsingar frá árinu 2019 leiddi í ljós að lítið benti til þess að þau ríki sem rituðu undir yfirlýsinguna væru á réttri leið.