Blaðamenn Kjarnans, Stundarinnar og RÚV verða ekki yfirheyrðir í upphafi vikunnar vegna meintra brota á lögum um friðhelgi einkalífsins eins og til stóð, en lögreglan hefur ákveðið að fresta yfirheyrslunum þangað til að Héraðsdómur Norðurlands Eystra úrskurði um lögmæti þeirra.
Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans og Arnar Þór Ingólfsson, blaðamaður miðilsins, hafa fengið stöðu sakbornings við rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi, sem er staðsett á Akureyri, á meintu broti á friðhelgi einkalífsins. Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður á Stundinni, og Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kveiks, eru sömuleiðis með stöðu sakbornings í málinu og höfðu einnig verið boðuð í yfirheyrslu vegna málsins.
RÚV greindi frá því fyrr í dag að Aðalsteinn hafi skilað kröfu um úrskurð um lögmæti aðgerða lögreglunnar til Héraðsdóms Norðurlands Eystra í morgun, en lögreglan fær frest til að skila greinargerð um málið. Á Twitter-síðu sinni greindi Aðalsteinn svo frá því að yfirheyrslunni gegn sér hafi verið frestað þangað til að niðurstaða fengist í málið. Arnari Þór blaðamanni Kjarnans hefur einnig verið tjáð að hann verði ekki yfirheyrður á þriðjudag, eins og til stóð.
Hörð viðbrögð við ákvörðun lögreglu
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, sagði það „óskiljanlegt og í raun mjög alvarlegt að lögreglan á Norðurlandi eystra hafi ákveðið að kalla blaðamenn til yfirheyrslu vegna þess eins að skrifaðar voru fréttir upp úr gögnum sem þeir höfðu undir höndum.“ Sömuleiðis hefur Félag fréttamanna lýst yfir áhyggjum og undrun yfir aðgerðum lögreglu.
Íslandsdeild Transparency International hefur einnig gefið út yfirlýsingu vegna málsins, en þar segir að lögreglan sendi hættuleg skilaboð út í samfélagið með ákvörðun sinni að yfirheyra blaðamenn fyrir skrif sín. Sams konar yfirlýsingar hafa einnig komið frá Drífu Snædal forseta ASÍ og stjórn Samtaka kvenna um nýja stjórnarskrá.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefur á hinn bóginn gagnrýnt fjölmiðlaumfjöllun um þessar aðgerðir. Í Facebook færslu sem hann birti í síðustu viku segir hann að svo virðist sem önnur vinnubrögð og lögmál eigi við hjá fjölmiðlum í umfjöllunum um lögreglumál þar sem blaðamenn eru undir en hjá almennum borgurum. Hann spurði einnig hvort fjölmiðlamenn væru of góðir til að mæta og svara spurningum lögreglu eins og almennir borgarar og hvernig það gæti talist alvarlegt mál að lögregla óski eftir því að þeir gefi skýrslu.
Blaðamannafélagið og Félag fréttamanna svöruðu svo þessum spurningum Bjarna í sameiginlegri yfirlýsingu. Í henni bentu fagfélögin á að vissulega væru blaða- og fréttamenn sem einstaklingar jafnir öðrum að lögum, t.d. ef þeir eru grunaðir um ölvunarakstur, fjársvik eða ofbeldisbrot. „Um störf þeirra gegnir hins vegar öðru máli. Um þau gilda önnur lög og reglur en um önnur störf, vegna hlutverks þeirra.“
Svandís Svavarsdóttir var spurð um ummæli Bjarna í morgunútvarpi Rásar 1 í vikunni, en þar sagði hún það vera „mjög þungt skref“ að blaðamenn séu komnir með réttarstöðu sakbornings. Einnig sagði hún að það skipti „gríðarlega miklu máli“ í lýðræðissamfélagi að fjölmiðlar séu kjarkaðir- „ekki síst þegar kemur að því að benda á spillingu.“
Tveir þeirra blaðamanna sem eru með stöðu sakbornings í rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra starfa á Kjarnanum.