„Góðan dag, þetta er Volodomír Zelenskí í Kænugarði,“ sagði Zelenskí á íslensku í upphafi ávarps sem hann flutti á Alþingi í dag. Stundin var söguleg en þetta er í fyrsta skipti sem erlendur þjóðhöfðingi ávarpar Alþingi Íslendinga.
„Nú er Úkraína þolandi árása frá Rússum. Þetta er stríð sem við verðum að berjast gegn, þeir vilja ná landi okkar. Úkraína er sögð ekki hafa neinn rétt til sjálfstæðis, þeir geta ekki hugsað sér umræðu um okkar menningu, en við erum með meira 1000 ára sögu,“ sagði Zelenskí sem talaði mikið um tengsl Úkraínu og Íslands, sem ná langt aftur.
„Ég veit hvernig þið búið og hugsið á Íslandi. Það er sláandi hvernig þið hafið tekið á málum og hvernig allt er gert til að fólk geti lifað ánægjulegu lífi í lýðræði. Að lifa í raunverulegu frjálsræði, það er menning,“ sagði Zelenskí.
„Engin viðskipti við einræðið“
Hann sagði Rússa ekki aðeins ætla sér að taka landið af úkraínsku þjóðinni heldur ætli þeir sér að taka allt sem henni tilheyrir.
Zelenskí kvaðst þó bjartsýnn að innan tíðar muni enduruppbygging í Úkraínu hefjast. „Við bjóðum vinum okkur að taka þátt í baráttunni um enduruppbyggingu þegar þar að kemur.Ég er sannfærður um að fljótlega komi að því að við hefjumst handa við uppbygginuna. En áður en að því kemur verðum við að vinna þetta stríð. “
Zelenskí þakkaði Íslendingum fyrir stuðninginn hingað til og hvatti landsmenn til áframhaldandi stuðning. Þá brýndi hann fyrir nauðsyn þess að hætta að kaupa olíu frá Rússlandi og slíta á öll fjármálatengsl við Rússland. „Engin viðskipti við einræðið,“ sagði Zelenskí. Hann sagði stærð eða smæð ríkis ekki skipta máli, framlag hvers og eins skiptir máli.
Að lokinni ræðu sinni risu Alþingismenn úr sætum sínum og klöppuðu Zelenskí lof í lófa. Þetta er í fyrsta skipti sem erlendur þjóðhöfðingi ávarpar Alþingi Íslendinga.
Guðni ávarpaði Zelenskí á úkraínsku
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ávarpaði Zelenskí, þingmenn og þjóðina áður en Zelenskí tók til máls.
„Fyrir hönd Íslendinga sendi ég þér og úkraínsku þjóðinni allri samstöðu- og stuðningskveðjur á þessum erfiðu tímum. Við dáumst mjög að styrk ykkar og þjóðaranda, andspænis ofbeldi hins rússneska innrásarhers,“ sagði Guðni meðal annars.
Þá ávarpaði hann Zelenskí á úkraínsku þar sem hann sagði Íslendinga standa með öllum þeim sem leita friðar. „Við stöndum með þeim sem þurfa að verjast ofbeldi. Við stöndum með þeim sem vilja búa í frjálsu lýðræðissamfélagi,“ sagði Guðni, á móðurmáli Zelenskí.
Þá sagði hann landa Zelenskí alla velkomna hingað til lands þar sem þau muni njóta skjóls svo lengi sem þau þurfa. „Þótt höf og lönd aðskilji okkur eigum við sameiginleg gildi. Við eigum sömu vonir og eigum þann sama rétt að njóta frelsis, að lifa við frið, að sjá samfélög okkar blómstra,“ sagði Guðni, sem lauk orðum sínum á að ítreka stuðning Íslands við Úkraínu.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þakkaði Zelenskí fyrir kröftug og hjartnæm orð. Hún fullvissaði Zelenskí um að íslensk stjórnvöld séu reiðubúin til þess að gera allt sem í þeirra valdi stendur itl þess að hjálpa úkraínsku þjóðinni á þessum erfiðu tímum.
„Hugsanir okkar eru hjá úkraínsku þjóðinni – skyldur okkar eru hjá ykkur. Á þessu háskalega augnabliki, þar sem Úkraínumenn berjast fyrir lífi sínu, stöndum við með ykkur og styðjum – í nafni frelsis, manngæsku og friðar,“ sagði Katrín.
Katrín ítrekaði stuðning íslenskra stjórnvalda við þær refsiaðgerðir sem Evrópusambandið hefur beitt. „Sem herlaus þjóð hefur stuðningur Íslands einkum verið borgaralegur. Við höfum veitt mannúðaraðstoð og fjárhagslega aðstoð og höfum skuldbundið okkur til að gera enn betur.“
Að loknu ávarpi Katrínar bað Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, þingmenn að rísa úr sætum og heiðra þannig úkraínsku þjóðina.