Volodímír Zelenskí forseti Úkraínu mun ávarpa alþingismenn og íslensku þjóðina á morgun, föstudag, klukkan 14:00 í gegnum fjarfundabúnað við sérstaka athöfn í þingsal Alþingis.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu Alþingis í dag. Hægt verður að fylgjast með ávarpinu í sjónvarpi, á vef Alþingis og öðrum vefmiðlum.
Í tilkynningunni segir að ávarp Zelenskís sé einstakur viðburður því þetta verði í fyrsta skipti sem erlendur þjóðhöfðingi flytur ávarp í þingsal Alþingis.
Ísland frá upphafi fordæmt innrás Rússa
Birgir Ármannsson forseti Alþingis mun stýra athöfninni í sal Alþingis og tala í upphafi hennar. Þá mælir forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, nokkur orð fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Síðan tekur Zelenskí til máls. Að loknu ávarpi Zelenskís ávarpar forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, forseta Úkraínu.
Í tilkynningunni segir að Ísland hafi frá upphafi fordæmt tilefnislausa innrás Rússlands í Úkraínu og lýst yfir eindregnum stuðningi við úkraínsku þjóðina og þarlend stjórnvöld. „Ísland tekur fullan þátt í alþjóðlegum þvingunaraðgerðum gegn Rússlandi, styður við mannúðaraðgerðir Sameinuðu þjóðanna og annarra stofnana og tekur á móti fólki á flótta frá Úkraínu. Þá hefur Ísland haft milligöngu um loftflutninga búnaðar, þar á meðal hergagna, í tengslum við varnir Úkraínu. Ísland mun áfram leita leiða til þess að styðja við Úkraínu með öllum þeim ráðum sem stjórnvöldum eru tiltæk og í samræmi við þær þarfir sem uppi eru í Úkraínu,“ segir að lokum í tilkynningunni.
Forsetinn hlotið lof fyrir hugrekki
Zelenskí hefur vakið gríðarlega athygli í heimspressunni síðan stríðið braust út við innráð Rússa þann 24. febrúar síðastliðinn en hann á óvenjulega fortíð að baki af stórnmálamanni að vera. Zelenskí, sem er lögfræðingur og þekktur grínisti í heimalandi sínu Úkraínu, lék eitt sinn forseta í vinsælum sjónvarpsþáttum og tók svo við því embætti í raunveruleikanum. Hann hefur hlotið lof og dáð fyrir hugrekki sitt og föðurlandsást á umbrotatímum í Úkraínu.
Hægt er að lesa fréttaskýringu um Zelenskí hér.
Fimm Úkraínumenn koma til Íslands á dag að meðaltali
Um 5,5 milljónir manna hafa flúið frá Úkraínu til nágrannaríkja í Evópu frá því stríðið braust út og er ekki fyrirséð hvenær endalok þess verða. Hér á landi hafa tæplega 900 manns frá Úkraínu sótt um alþjóðlega vernd vegna innrásarinnar. Að meðaltali koma um fimm Úkraínumenn hingað til lands á dag.
Kjarninn greindi frá því í vikunni að um 150 atvinnurekendur hér á landi hefðu sýnt því áhuga að ráða flóttafólk til starfa en þegar hefðu verið gefin út þrjátíu atvinnuleyfi til fólks frá Úkraínu og sífellt fleiri bætast við.
Flóttamenn frá Úkraínu þurfa að fá útgefið atvinnuleyfi til að mega starfa á Íslandi þar sem þeir fá útgefið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjóðarmiða. Atvinnurekandi sem ætlar að ráða flóttamann frá Úkraínu til starfa þarf því að sækja um atvinnuleyfi og leyfið samþykkt áður en starfsmaður má hefja störf.
Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar sagði í samtali við Kjarnann að um væri að ræða störf í ferðaþjónustu, byggingariðnaði, matvælavinnslu og öldrunarþjónustu. Flest leyfin hafa farið á suðvesturhornið en einnig til Akureyrar, Dalvíkur, í Borgarfjörð, Reyðarfjörð og á fleiri staði.