Í vor keypti Facebook sýndarveruleikafyrirtækið Oculus Rift fyrir tvo milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur 260 milljörðum króna. Facebook er í dag metið á um 250 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 32.500 milljörðum króna.
Mark Zuckeberg, stofnandi og forstjóri Facebook, segist sannfærður um að samstarf Facebook með Palmer Luckey, stofnanda Oculus Rift, muni leiða af sér tæknibreytingu sem muni jafnast á við innreið samfélagsmiðla í líf fólks. Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við Zuckerberg í septemberhefti Vanity Fair, en einnig er rætt við Luckey.
Þar fer hann yfir stöðuna í tæknigeiranum, og hvernig hann sér samfélagsmiðla og tæknifyrirtæki þróast á næstu misserum. Hann segist hafa „veðjað“ á Oculus Rift þegar hann hafi kynnt sér tæknina og séð hversu magnaður veruleiki var kallaður fram með tækinu. Saga stofnandan, Palmers Luckey, er líka mögnuð frumkvöðlasaga, en hann fjármagnaði verkefnið í fyrstu á Kickstarter síðunni og náði sér í 2,4 milljónir Bandaríkjadala með hópfjármögnun. Þaðan fór hann í Sílikondalinn og náði í enn meira fé, áður en hann seldi fyrirtækið, fjórum árum eftir að hann sótti sér fyrst fjármagn, fyrir tvo milljarða Bandaríkjadala. „Markmiðið hjá mér er að fólk muni stíga inn í sýndarveruleika þar sem það finnur fyrir því að það sé inn í herbergi með öðru fólki, raunverulega finni fyrir því, og fái þannig að kynnast nýjum veruleika,“ segir Luckey í viðtalinu.
Zuckeberg segist sannfærður um að sýndarveruleikatæknin sem Oculus Rift byggi á muni opna augu fólks fyrir nýjum möguleikum, og þá muni fyrirtæki einnig taka þessari tækni opnum örmum.
https://www.youtube.com/watch?v=Xx6sO0Lwmr8