Margar sveppategundir hafa alla tíð verið notaðar til matar, en ekki vita allir að sumir sveppir hafa líka verið notaðir til lækninga öldum saman. Mikil hefð er fyrir notkun sveppa til lækninga í Asíu en undanfarna áratugi hafa þeir einnig náð vinsældum á Vesturlöndum og eru núna vinsælt rannsóknarefni vísindamanna. Áður fyrr voru sveppir eingöngu tíndir villtir og voru sumir þeirra sjaldgæfir og ákaflega verðmætir. Í dag eru sveppir hins vegar ræktaðir í tugþúsunda tonna tali ár hvert bæði til manneldis og í fæðubótarefni. Í þessari grein verður fjallað um þrjár tegundir sveppa sem hafa verið hvað vinsælastar undanfarin ár: reishi, shiitake og maitake. Allir eiga þeir það sameiginlegt að þykja styrkja ónæmiskerfið og hafa verið töluvert rannsakaðir í tengslum við krabbameinsmeðferðir.
Reishi (Ganoderma lucidum)
Í Kína á öldum áður þótti reishi-sveppurinn auka langlífi, en hann var sjaldgæfur og því fengu eingöngu keisarinn og hirð hans að njóta hans. Í Japan er notkun reishi samhliða annarri krabbameinsmeðferð viðurkennd af japanska heilbrigðisráðuneytinu, en reishi-sveppurinn er talinn auka áhrif hefðbundinnar lyfjameðferðar við krabbameini og draga úr aukaverkunum hennar. Reishi er einnig talinn hafa jafnvægisstillandi áhrif á ónæmiskerfið og hefur verið notaður gegn sjálfsofnæmissjúkdómum eins og liðagigt, MS og lúpus og einnig lifrarbólgu B og C, vefjagigt, HIV/AIDS og herpes vírus.
- styrkir og kemur jafnvægi á ónæmiskerfið
- langvarandi bronkítis, astmi og hósti
- styrkir hjarta- og æðakerfi
- hár blóðþrýstingur, hátt kólesteról
- styrkir og verndar lifur
- svefnleysi, stress, kvíði
- bakteríu-, sveppa- og vírusdrepandi
- hár blóðsykur
- krabbamein
Shiitake (Lentinula edodes)
Shiitake-sveppir fást bæði ferskir og þurrkaðir í matvörubúðum hérlendis. Extrakt kallaður Lenantin sem unnið er úr shiitake-sveppum og gefið er í sprautuformi er viðurkennt lyf í Japan og er notað við krabbameini, HIV og lifrarbólgu B og C. Extrakt kallað LEM er hins vegar algengt í töfluformi í Asíu og Bandaríkjum.
- hátt kólesteról
- styrkir og verndar lifur
- styrkir ónæmiskerfið
- kvef og bronktítis
- krabbamein
Maitake (Grifola frondosa)
Maitake-sveppurinn hefur þó nokkuð verið rannsakaður við krabbameini en aðallega þó í tilraunaglösum eða á dýrum. Í flestum tilfellum er verið að rannsaka einangrað efni í sveppnum sem kallast maitake-D-fraction.
- Styrkir og kemur jafnvægi á ónæmiskerfið
- Bakteríu-, sveppa- og vírusdrepandi
- Hátt kólesteról
- Hár blóðsykur
- krabbamein
Skammtar
Ýmsar tegundir af hylkjum og dufti unnu úr ofangreindum sveppum fást í heilsubúðum hérlendis. Reishi: 3-12 g af dufti á dag. 3x300 mg hylki (1:5) þrisvar á dag. Shiitake: 6-16 g af dufti á dag. 300 mg hylki þrisvar á dag. Maitake: 5-10 g af dufti á dag. 2x500 mg hylki tvisvar til þrisvar á dag.
Varúð
Þeir sem eru með ofnæmi gegn sveppum mega ekki taka ofangreinda sveppi. Í stórum skömmtum geta þessir sveppir valdið meltingartruflunum og niðurgangi. Hætta skal notkun reishi a.m.k. einni viku fyrir skurðaðgerð. Konum með miklar tíðablæðingar er ekki ráðlagt að taka stóra skammta af reishi.
Heimildir
Botanical Safety Handbook. 2013. AHPA (American Herbal Products Association). 2. útg. CRC Press, Florida, USA.
Hobbs Christopher. 1995. Medicinal Mushrooms. Botanica Press, Tennessee, USA.
Rogers Robert. 2011. The Fungal Pharmacy. North Atlantic Books, California, USA.
Tillotsson Alan Keith. 2001. The One Earth Herbal Sourcebook. Kensington Books, New York, USA.
Winston David og Kuhn.M. 2008. Herbal Therapy and Supplements. Lippincott Williams and Wilkins, PA, USA.
Greinin birtist fyrst í nýjasta Kjarnanum. Lestu hann í heild sinni hér.