Ég hef dálítið gaman af því að fylgjast með þjóðfélagsumræðunni. Úr fjarlægð, það er að segja. Ef ég læsi hvern og einn einasta pistil sem væri skrifaður væri ég fyrir löngu genginn í sjóinn. Ég les þetta fæst, nema mína eigin pistla, af illri nauðsyn (og Pawel auðvitað). En þegar ég segist hafa gaman af því að fylgjast með umræðunni úr fjarlægð á ég við að ég hef gaman af þeim mynstrum sem myndast, aftur og aftur. Ég held að það væri ekkert svakalega mikið mál að búa til forrit sem myndi herma eftir umræðunni á Íslandi.
Það gæti verið verðugt verkefni fyrir CCP. Hver myndi ekki vilja vera Jónas Kristjánsson eða Már Wolfgang Mixa í slíkum leik, í kjallaranum heima hjá foreldrum sínum (það er mín hugmynd um alla sem spila tölvuleiki að þeir séu staddir þar), allan daginn? „Konráð minn, það er kominn matur.“ – „Ég kem eftir smástund, mamma, ég er að skrifa um hvernig bananalýðveldið færir út kvíarnar, ráðherra lýgur að Alþingi, að aðstoðarmenn hennar hafa réttarstöðu grunaðra, forsætisráðherra hefur tékkhefti í vasanum og gefur peninga þótt Ríkisendurskoðun mótmæli og hvernig Alþingi hunzar niðurstöðu þjóðaratkvæðis um stjórnarskrá og setur málið í salt*, og egillh_mayounnandi er svo að fara að taka undir með mér.“
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_07_03/76[/embed]
Eitt mynstrið sem spilast aftur og aftur hefst með því að einhver segir eitthvað. Það kann að vera umdeilt hvort sem það er hárrétt, vanhugsað eða hreinlega algjör vitleysa. Svo segja fjölmiðlar frá þessum ummælum. Þeir sem hafa einhvern tímann þekkt til einhvers þess sem hefur komið fram í fjölmiðlum vita að fjölmiðlamenn eru mannlegir og geta gert mistök. Ég segi fyrir mitt leyti að í þeim fréttum sem hafa birst um það sem ég þekki vel hefur alltaf verið að minnsta kosti ein staðreyndavilla. Villurnar eru vitaskuld misstórar en það getur komið fyrir að farið sé með rangt mál.
Næsta skref er að fólkið á Facebook, bloggherinn og virkir í athugasemdum fara að tjá sig um ummælin. Það má ganga út frá því að sú umræða sé yfir allan skalann í smekklegheitum. Sumir eru málefnalegir, aðrir málefnalegir með dass af skítkasti, og enn aðrir draga ekkert af sér í ósmekklegheitum og sparðadreifingu. Það er eins og gengur og gerist.
Einhverjir hafa talað um að sprengingin sem varð með tilkomu Moggabloggsins og síðar virkra í athugasemdum hafi verið af hinu slæma. Ég er ósammála því, út af fyrir sig. Það er fínt að fá asnana upp á yfirborðið, þó að asnagangurinn sé vissulega asnalegur. Ég held að það sé mikilvægur þáttur í þróun mannskepnunnar að hún fái að láta aðra vita hvað hún er asnaleg, því þá er líklegra en ella að hún hætti asnaskapnum. Fólk var asnar áður en internetið kom til sögunnar.Núna er það bara á yfirborðinu og við getum fengist við það.
Þriðja skrefið er að sá sem viðhafði hin upprunalegu ummæli tekur aftur til máls. Þá byrjar ballið. Málshefjandinn, eða samherjar hans, hefur ríka tilhneigingu til að víkja frá hinni upprunalegu umræðu og fjalla um þá sem moka skít. Það er auðvitað sjálfsagt og nauðsynlegt að leiðrétta ef farið er með rangt mál en öllu verra er ef fókus umræðunnar færist frá málefninu sjálfu yfir í kvart og kvein yfir þeim sem eru vondir við mann. Stundum fæ ég á tilfinninguna að markmiðið sé að vinna samúð með málstaðnum með því að draga athyglina að skítkastinu. Það kann vel að vera að það sé til marks um málefnafátækt að moka skít, en það sama mætti líka segja um það að kalla á dómarann. Svo fylgir gjarnan gagnrýni á þátt fjölmiðla í málinu, af því að þeir fóru mögulega rangt með hin upprunalegu ummæli. Aftur: Það er gott og blessað að leiðrétta ef slíkt gerist, en ef það á að eiga sér stað vitræn umræða mega rangfærslurnar ekki vera aðalfókus hennar. Er það ekki annars markmiðið?
Ég hef ekki enn, svo ég viti til, lent í virkum í athugasemdum en nákomnir hafa gert það og mér þótti það sársaukafullt að lesa rætnar athugasemdir með dylgjum, skítkasti og lítilli virðingu fyrir lífi viðkomandi. Það er auðvitað bráðnauðsynlegt að ræða það, en ekki á kostnað umræðu um málefnið.
Lýkur þá hér með umræðu minni um umræðuna um umræðuna. Ég hlakka til að lesa svarpistilinn með umræðunni um umræðuna um umræðuna um umræðuna.
*Við vinnslu þessa pistils fór höfundur á vefsíðuna jonas.is og valdi texta úr efstu færslunni þar.
Pistillinn birtist fyrst í nýjustu útgáfu Kjarnans. Hana má lesa hér.