Auglýsing

Það er þekkt taktík í mann­kyns­sög­unni að láta sér vaxa skegg þegar maður vill að fólk taki sig alvar­lega. Jesús kristur gerði þetta með góðum árangri fyrir rúmum 2000 árum og þetta er enn í góðu gildi. Það er sér­stak­lega algengt að gam­an­leik­arar geri þetta þegar kemur að því að reyna fyrir sér í drama­tík; Jim Car­rey, Steve Carrell, Ryan Reynolds, Gói. Robin Willi­ams vann meira að segja Óskar fyrir skeggið sitt í Good Will Hunt­ing. Trúð­ur­inn er ekki jafn mik­ill trúður ef það er þykkt, ábúð­ar­fullt skegg sem talar við mann. Og ef það er ein­hvern tím­ann tími til þess að reyna að sann­færa fólk um að maður sé ekki trúður þá er það núna.

Mér líður alltaf betur þegar ég hugsa um Bjarna Bene­dikts­son sem tragíska fígúru. Erfða­prins­inn sem hafði alla heims­ins mögu­leika en þurfti enda­laust að takast á við von­brigði örlag­anna. Ein­hvers­konar torf­kof­a­út­gáfa af Georgi fjórða, mínus þvag­sýru­gigt­in. Fæð­ist með silf­ur­skeið í munn­inum og gríð­ar­legum vænt­ingum til fram­tíðar en hefur í raun ekk­ert áhuga á því að stjórna, heldur vill bara kaupa dýr mál­verk og halda geggjuð partí; á svo í sífellt meira krefj­andi sam­bandi við föður sinn og verður að lokum svo mik­ill brand­ari að hann fæst varla til að sjást opin­ber­lega. Ef maður býr til svona hlut­verka­leik í huga sér vor­kennir maður honum næst­um, en það er samt hætt við að maður grafi undan raun­veru­leik­anum í slíkum fabúler­ing­um.

Raun­veru­leik­inn er nefni­lega sá að til þess að vera vor­kunn í jafn mik­illi for­rétt­inda- og valda­stöðu og Bjarni er í þyrfti hann að sýna ein­hverja auð­mýkt, eða í það minnsta vott af ábyrgð. En eitt stærsta vanda­mál íslenskra stjórn­mála er að hér er engin menn­ing fyrir því að taka ábyrgð. Það er algjört tabú, full­komin upp­gjöf að við­ur­kenna að eitt­hvað hafi mis­farist. Meira að segja þegar skandall­inn verður svo stór að hann er óum­flýj­an­legur getur stjórn­mála­fólk ekki einu sinni sagt orðið upp­hátt; Hanna Birna sagði ekki af sér, hún steig til hlið­ar. Sig­ríður Á. And­er­sen steig bara aðeins til hlið­ar. Ég geri ráð fyrir því að þær séu bara búnar að vera í löngu sum­ar­fríi og snúi til baka hvað úr hverju.

Auglýsing

En Bjarni skilur ekki afhverju hann ætti að biðj­ast afsök­un­ar, hann veit ekki hverju hann ætti að bera ábyrgð á. Þetta heppn­að­ist nefni­lega allt full­kom­lega. Allt þetta mold­viðri er bara til­komið vegna skorts íslensku þjóð­ar­innar á fjár­mála­læsi; hún kynnti sér bara útboðið ekki nægi­lega vel. Við erum bara ekki nógu hag­fræði­menntuð til þess að sjá hversu full­kom­lega frá­bær nið­ur­staða þetta var fyrir íslensku þjóð­ina. Ef bara ef við hefðum vits­mun­ina til að skilja og sjá. Það er ákveðin taktík að reyna að snúa umræð­unni í rök­ræðu um form og tækni­leg atriði, að vísa til útboðs­gagna, að þetta hafi allt legið fyr­ir. En þetta er ekki rök­ræða um tækni­leg atriði, þetta er sam­tal um hug­mynda­fræði. Salan á þessum hlut í Íslands­banka var hug­mynda­fræði­legur gjörn­ing­ur. Þarna var verið að taka gíf­ur­lega verð­mæta eign þjóð­ar­inn­ar, hluta hana í sundur og afhenda sér­lega útvöldum ein­stak­lingum hana á óþarf­lega lágu verði til þess eins að þessir ein­stak­lingar gætu hagn­ast um hund­ruði millj­óna. Hér erum við ekki að tala um jöfn tæki­færi, eða frjálsan mark­að, heldur erum við að tala um að sér­lega útval­inn hópur fékk þau for­rétt­indi afhent frá rík­inu að mega hagn­ast fyrir það eitt að til­heyra réttum hópi, að vera útval­inn til þess að fá sím­tal. Svo er það narra­tíf­ur­inn að þetta sé sjálf­sagt því þessir fjár­festar séu að taka á sig áhættu í við­skipt­un­um; hluta­bréfin gætu jú lækkað jafn lík­lega og hækk­að. En það er ekki eins og þetta sé eitt­hvað startup fyr­ir­tæki sem er að búa til dating app fyrir hunda eða eitt­hvað, þetta er risa­vax­inn banki, ein grunn­stoð alls fjár­mála­kerfis lands­ins. Hver er raun­veru­leg áhætta hérna?

Það var ekk­ert verið að verð­launa djarfa áhættu­fjár­festa fyrir fífldirfsku sína. Það var verið að hand­velja til­tekna ein­stak­linga til þess að fá ókeypis pen­inga. Það er hug­mynda­fræði­legur gjörn­ing­ur, það er stétta­gjörn­ing­ur. Það er fram­leiðsla á auð­stétt að afhenda fólki pen­inga fyrir það eitt að eiga pen­inga, eða hafa greiðan aðgang að ódýru láns­féi. Og þá erum við ekki einu sinni byrjuð að tala um að sölu­menn­irnir sjálfir hafi verið að selja sjálfum sér rík­is­eign­ir. Þá erum við heldur ekki einu sinni byrjuð að tala um að faðir fjár­mála­ráð­herra hafi fengið að kaupa í bank­anum sem sonur hans var að selja; „Var honum bannað að kaupa?“ spurði Bjarni graut­fúll á Sprengisandi um helg­ina þegar það var gengið á hann með þetta. Nei Bjarni, faðir fjár­mála­ráð­herra mátti ekki kaupa eigur rík­is­ins sem sonur hans fer með for­ráð yfir. Ef það er ekki ólög­legt, þá er það í það minnsta fullkomlega ósið­legt.

Við­brögð rík­is­stjórn­ar­innar voru eins og allir vita að taka Banka­sýsl­una, sem starf­aði í umboði fjár­mála­ráð­herra og kasta henni beint undir rút­una. Árinni kennir illur ræð­ari og nið­ur­staðan er að draga þessa ár í fjöl­miðla, halda langar ræður um hvað henni hafi mis­tek­ist að róa þessum báti og setja hana svo í kurl­ar­ann án þess að það sé búið að ákveða hvernig þessi bátur eigi að hagg­ast eftir það. Ætli Bjarni ætli ekki að nota þessar risa­vöxnu hendur sínar sem utan­borðs­mót­or. Það er næstum eins og rík­is­stjórnin sé van­hæf til að rann­saka eigin van­hæfi.

Það versta við þetta er van­virð­ingin sem allt þetta sýnir íslensku þjóð­inni sem er enn trámat­íseruð eftir einka­væð­ingu bank­anna fyrir hrun og afleið­ingum henn­ar. Það sýnir svo mikla van­virð­ingu að gera þetta ekki almenni­lega. Ef það á að taka þessa hug­mynda­fræði­legu ákvörðun að selja mik­il­væga inn­viði eins og rík­is­banka þá á að minnsta kosti að gera það þannig að sami klíku­skap­ur­inn og sama hvers­dags­lega vin­áttu­spill­ingin sé ekki látin ráða. En það er eins og hug­mynda­fræði við­skipta­lífs­ins ráði ekki við slíka hugs­un. Og í grunn­inn er það Bjarni Bene­dikts­son. Hann er við­skipta­lífið holdi klætt.

Þess vegna er Bjarni Bene­dikts­son van­hæf­ur. Það er ekki bara van­hæfi hans í fram­kvæmd­inni á þess­ari sölu, það er van­hæfið sem fylgir því að hann sprettur upp úr við­skipta­heimi fyr­ir­hrunsár­anna. Stjórn­ar­for­mennska í N1, Vafn­ings­mál­ið, Borg­un­ar­mál­ið, Falson&Co. Sú stað­reynd að hann seldi hlut sinn í Glitni á síð­ustu and­ar­tök­unum áður en bank­inn hrundi. Hann er van­hæfur því hann getur aldrei slitið sig frá þess­ari sögu sinni. Hann er van­hæfur því við munum aldrei geta treyst honum til þess að fara með eigur rík­is­ins af heil­ind­um. Traust skiptir máli. Bjarni talar mikið um að við séum bara reið því okkur finnst eitt­hvað, að þetta sé bara upp­lifun en ekki raun­veru­leik­inn. Það sem hann skilur ekki að upp­lifun er raun­veru­leik­inn. Það sem okkur finnst er umboðið sem við veitum hon­um. Það er horn­steinn lýð­ræð­is­ins.

En Bjarni ætlar ekki að fara neitt. Þrátt fyrir þessa enda­lausu röð skandala heldur hann alltaf áfram, nýjar rík­is­stjórn­ir, ný ráðu­neyti, nýir skandal­ar. Hann ætlar sér að vera eins og ein­hver stjórn­mála­manna­út­gáfa af Sísý­fosi; rúllandi sama spill­ing­ar­stein­inum upp sömu hæð­ina aftur og aft­ur, til þess eins að horfa á hann rúlla aftur niður til baka.

Franski til­vist­ar­spek­ing­ur­inn Albert Camus rit­aði einu sinni: „Maður verður að ímynda sér Sísý­fos ham­ingju­sam­an.“ Með því átti hann við að ham­ingjan sé ekki eitt­hvað enda­tak­mark, heldur til­vistin sjálf; Sísý­fos er ekki að reyna að koma stein­inum á neinn áfanga­stað, heldur nýtur hann þess bara að vinna gott dags­verk. Kannski finnur Bjarni ein­hverja til­vist­ar­lega sælu í því að selja rík­is­eignir til ríkra manna, svara fyrir enda­lausa röð eigin skandala og sam­flokks­fólks síns og mæta graut­fúll í sjón­varps­við­töl. Kannski er það bara nóg fyrir hann.

En það væri samt ósk­andi að Bjarni myndi fara að gera eitt­hvað ann­að. Hann þarf nefni­lega ekk­ert að standa í þessu. Hann gæti snúið aftur í við­skipta­lífið sem ól hann, eða bara ekki. Hann er vænt­an­lega löngu orð­inn nægi­lega efn­aður til þess að setj­ast í helgan stein. Hann gæti á morgun vaknað end­ur­nærður og ráfað um gang­ana í risa­stóra hús­inu sínu, dyttað að garð­inum sín­um, bak­að, bónað bíl­ana sína. Talið alla pen­ing­ana sína eins og Jóakim Aðal­önd.

Það væri ósk­andi því að við treystum honum ekki. Þetta er ekki til­finn­ing, þetta er stað­reynd. Sam­kvæmt nýrri könnun Mask­ínu treystir 70% þjóð­ar­innar Bjarna illa eða mjög illa. Við munum aldrei treysta hon­um. Og fjár­mála­ráð­herra sem þjóðin treystir ekki en ætlar sér samt að selja enn fleiri eignir þjóð­ar­innar er ekki sætt. Þess vegna ætti hann að stíga til hliðar og drífa sig í ótíma­bundið sum­ar­frí.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Mette Frederiksen, Ursula van der Leyen forseti framkvæmdastjórnar ESB, Olaf Scholz kanslari Þýskalands, Mark Rutte forsætisráðherra Hollands og Alexander De Croo forsætisráðherra Belgíu hittust í Esbjerg.
Tíu þúsund risastórar vindmyllur
Á næstu árum og áratugum verða reistar 10 þúsund vindmyllur, til raforkuframleiðslu, í Norðursjónum. Samkomulag um þessa risaframkvæmd, sem fjórar þjóðir standa að, var undirritað í Danmörku sl. miðvikudag.
Kjarninn 22. maí 2022
Jódís Skúladóttir þingmaður VG.
Segir náin tengsl á milli hatursglæpa, vændis, kvenhaturs og útlendingahaturs
Þingmaður Vinstri grænna segir að hinsegin fólk sem fellur undir hatt fleiri minnihlutahópa sé útsettara fyrir ofbeldi en annað hinsegin fólk og því sé aldrei hægt að gefa afslátt í málaflokkum sem viðkoma þessum hópum.
Kjarninn 21. maí 2022
Hanna Katrín Friðriksson þingmaður Viðreisnar.
„Hvernig stendur á þessari vitleysu?“
Þingflokksformaður Viðreisnar telur að líta þurfi á heilbrigðiskerfið í heild sinni og spyr hvort það sé „í alvöru til of mikils ætlast að stjórnvöld ráði við það verkefni án þess að það bitni á heilsu og líðan fólks“.
Kjarninn 21. maí 2022
Framsóknarflokkurinn í Mosfellsbæ er í lykilstöðu um myndun meirihluta bæjarstjórnar.
Viðræðum Framsóknarflokksins og Vina Mosfellsbæjar slitið
Framsóknarflokkurinn í Mosfellsbæ tilkynnti Vinum Mosfellsbæjar skömmu fyrir áætlaðan fund þeirra í morgun að ákveðið hefði verið að slíta viðræðum. Líklegast er að Framsókn horfi til þess að mynda meirihluta með Samfylkingunni og Viðreisn.
Kjarninn 21. maí 2022
Gísli Pálsson
„Svartur undir stýri“: Tungutak á tímum kynþáttafordóma
Kjarninn 21. maí 2022
Horft frá toppi Úlfarsfells yfir Blikastaði
Blikastaðir eru „fallegasta byggingarland við innanverðan Faxaflóa“
„Notaleg“ laxveiði, æðardúnn í eina sæng á ári og næstu nágrannar huldufólk í hóli og kerling í bæjarfjallinu. Blikastaðir, ein fyrsta jörðin sem Viðeyjarklaustur eignaðist á 13. öld, á sér merka sögu.
Kjarninn 21. maí 2022
Selur í sínu náttúrulega umhverfi.
Ætla að gelda selina í garðinum með lyfjum
Borgaryfirvöld fundu enga lausn á óviðunandi aðstöðu selanna í Húsdýragarðinum aðra en að stækka laugina. Þeir yngstu gætu átt 3-4 áratugi eftir ólifaða. 20-30 kópum sem fæðst hafa í garðinum hefur verið lógað frá opnun hans.
Kjarninn 21. maí 2022
Í ávarpi sínu fór Katrín yfir þann lærdóm sem hægt er að draga af kórónuveirufaraldrinum, meðal annars að samheldni samfélagsins hafi reynst okkar mestu verðmæti.
Ekki einungis hægt að vísa ábyrgð á launafólk
Katrín Jakobsdóttir segir atvinnulíf og stjórnvöld bera mikla ábyrgð á bráttunni við verðbólguna og að ekki sé hægt að vísa ábyrgðinni eingöngu á launafólk í komandi kjarasamningum.
Kjarninn 20. maí 2022
Meira úr sama flokkiKjaftæði