Áramótin eru víða undirbúin í skugga stórslysa og hörmunga í heiminum. Miklar líkur eru á að allir farþegar flugs 8501 í vél AirAsia hafi farist með vélinni við strendur Indónesíu á sunnudag. Þá hafa Ítalskir sjúkraliðar og hjálparstarfsmenn sinnt farþegum ferjunnar sem stóð alelda á Jónahafi með 478 manns um borð. Hér að neðan ber að líta fáeinar myndir af erlendum vettvangi í dag.
Byrjað er að undirbúa hátíðarhöld í Berlín, eins og víðar. Við Brandenborgarhliðið hefur ljósaskiltum verið komið fyrir þar sem stendur einfaldlega Velkomið 2015. Viða hefur snjóað á meginlandi Evrópu undanfarna daga og hafa samgöngur sumstaðar farið úr skorðum.
Hjúkrunarfræðingur sem var í sjálfboðastarfi hefur verið greindur með ebólusmit í Skotlandi eftir að hafa flogið heim frá Sierra Leone í vestanverðri Afríku þar sem farsóttin geysar. Er þetta í annað sinn sem ebólusmit greinist í Bretlandi. Hjúkrunarfræðingurinn var fluttur með flugi í einangrun til London þar sem sérhæfðir læknar meðhöndla vírusinn.
Ítalskir sjálfboðaliðar Rauða krossins settu upp tjaldskýli og sjúkraaðstöðu í Manfredonia á Ítalíu, til að taka á móti farþegum ferjunnar sem stendur alelda á Jónahafi. Eldur kom upp í ferjunni á sunnudag. Tíu farþegar eru látnir, tugir farþega eru týndir en enginn getur gefið nákvæman fjölda farþega á ferjunni sem silgdi frá Grikklandi yfir Jónahafið. Vont veður er á svæðinu svo skip með björguðum farþegum hafa sum ekki náð til hafnar. Nú hafa fundist vísbendingar um að eldsupptökin hafi verið af mannavöldum og ekkert óviljaverk, enda virðast engar einfaldar skýringar liggja fyrir.
Rússneski stjórnarandstæðingurinn og andófsmaðurinn Alexei Navalní var í dag dæmdur í þriggja og hálfs árs skilorðsbundið fangelsi fyrir fjárdrátt og svik. Bróðir hans Oleg var hins vegar dæmdur í óskilorðsbundið þriggja og hálfs árs fangelsi og handjárnaður í dómsalnum. Dómsuppkvaðningunni hafði fyrirvaralaust verið flýtt þar til í dag.
Indónesíski herinn hefur fundið brak úr farþegaþotu AirAsia sem fórst við strendur Indónesíu á sunnudag. Talið er að þotan hafi hrapað vegna slæmra veðurskilyrða. Allir 162 farþegarnir eru taldir af en lang flestir voru frá Indónesíu. Ættingjar farþeganna sem fylgst hafa með leitinni þurftu sumir læknisaðstoð eftir að hafa séð myndir af líkum farþega sem ekki var búið að bera kennsl á fljótandi í hafinu. Flak þotunnar er að öllum líkindum á sjávarbotni, telja yfirvöld í Indónesíu.