Í febrúar verður tekinn til sýninga nýr íslenskur söngleikur fyrir börn, Björt í sumarhúsi. Tónlistin er eftir Elínu Gunnlaugsdóttur við texta Þórarins Eldjárns sem byggir á ljóðum úr bókinni ,,Gælur, fælur og þvælur”.
Aðstandendur sýningarinnar leita nú eftir aðstoð við að fjármagna uppsetningu á þessum einlæga og bráðskemmtilega söngleik.
Við heyrðum í Kristínu Mjöll Jakobsdóttur til þess að fá að vita meira um verkefnið.
Kveikjan textar Þórarins Eldjárns
Segðu okkur frá söngleiknum Björt í sumarhúsi. Hvernig fór þetta verkefni af stað og hverjir standa að baki því?
"Kveikjan að verkinu eru textar Þórarins Eldjárns í bókinni „Gælur, fælur og þvælur“. Elín Gunnlaugsdóttir tónskáld samdi fyrir nokkrum árum nokkur lög fyrir barnakór við texta Þórarins en skömmu síðar bað Pamela De Sensi hana um að semja söngleik fyrir tónleikaröð Töfrahurðar. Þá bað Elín Þórarin um leyfi til að nota textana í söngleikinn og fékk hann til að skrifa handrit. Kristín Mjöll Jakobsdóttir fyrir hönd Óperarctic félagsins tók svo að sér það verkefni að beiðni Elínar að verða meðframleiðandi ásamt Töfrahurð að söngleiknum.
Undirbúningur og fjármögnun hefur nú staðið á annað ár en styrkveitingar Reykjavíkurborgar og Barnavinafélagsins Sumargjafar á síðasta ári gerðu það kleift að hefjast handa við að undirbúa uppsetningu verksins. Söngleikurinn komst síðan á dagskrá tónlistarhátíðarinnar Myrkir músíkdagar 2015 vegna samstarfs hátíðarinnar við Töfrahurð og þá var kominn frumsýningardagur 1.febrúar.
Síðastliðið sumar var valið endanlega í hlutverk, Ágústa Skúladóttir fengin til að leikstýra og efnt til prufusöngs fyrir Björt í nóvember síðastliðnum. Nafn söngleiksins varð til stuttu áður sem leikur að orðum en fram að því hafði söngleikurinn borið vinnuheiti í höfuð á bókinni.
Mikilvægt er að sýning sem þessi eigi sér framhaldslíf og í lok nóvember komst Björt í sumarhúsi að í Tjarnarbíói og hefjast sýningar 14. febrúar. Markmiðið er að gera sýninguna þannig úr garði að hana megi auðveldlega sýna um land allt og í skólum."
Björt leiðist og gerist æ óþægari
Hver er hugsunin að baki söngleiknum? Eru þið með skilaboð til samfélagsins?
"Sagan segir frá Björt í pössun hjá afa sínum og ömmu í sumarbústað en þar er ekkert rafmagn og lítið við að vera. Afinn og amman reyna að hafa ofan af fyrir Björt sem leiðist og gerist æ óþægari. Glói gullfiskur, fiskifluga, dúðadurtur og margir fleiri koma við sögu en að lokum finnast bækur í bústaðnum og Björt kemst í ró.
Verkið er eins konar óður til sköpunarinnar. Þegar okkur leiðist förum við að finna okkur eitthvað skemmtilegt að gera, að skapa eitthvað. Boðskapur textans er meðal annars að fá börn til að hugleiða gildi bókarinnar og þess tíma áður en nútímatæki á borð við sjónvarp og snjallsíma hófu innreið sína. Textinn er kjarnyrtur, býr yfir miklum orðaforða en er jafnframt fyndinn og skemmtilegur. Söngleikurinn kemur til skila skáldskapargáfu Þórarins og valdi hans á íslenskri tungu á nýjan og skemmtilegan hátt.
Það er afar þroskandi fyrir börn að upplifa ólík listform, sérstaklega á sínu eigin tungumáli og umhverfi sem þau geta tengt við. Bæði Töfrahurð og Óperarctic félagið hafa lagt metnað sinn í að bjóða upp á metnaðarfullar tónleikhússýningar fyrir börn en fá slík verk hafa verið samin af íslenskum höfundum og enn færri komist á svið. Íslensk frumsamin söng- og leikhúsverk standa höllum fæti vegna þess hversu dýr þau eru í framleiðslu en það hefur reynst erfitt að fjármagna slík verk með fé úr sjóðum hins opinbera sem þó er ætlað að styrkja slík verkefni. Þetta á við verkefni jafnt fyrir börn sem fullorðna."
Hægt er að skoða verkefnið nánar og leggja því lið hér.